1 MIN
Ný ríkisstjórn og nýtt ár
Hátíðarkveðja frá Samtökum atvinnulífsins
Kæru félagsmenn Samtaka atvinnulífsins.
Við stöndum á tímamótum í margvíslegum skilningi, sólin er tekin að hækka á lofti, ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og árið sem senn er á enda færði okkur í atvinnulífinu bæði ný tækifæri og nýjar áskoranir.
Með samstilltu átaki tókst að gera tímamótakjarasamninga í upphafi ársins, Stöðugleikasamninga með skýr markmið. Áherslur í aðdraganda og kjölfar samninganna birtast okkur nú síðast í megináherslum nýrrar ríkisstjórnar um stöðugleika. Samstaða á meðal fyrirtækja, stjórnvalda og almennings hefur þegar skilað því að verðbólga hefur hjaðnað og vextir eru byrjaðir að lækka.
Það er ánægjulegt að sjá áherslu á aukna orkuöflun og einföldun leyfisveitinga í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Orka er undirstaða hagsældar og atvinnulífið trúir því að hægt sé að auka lífsgæði á sama tíma og við náum árangri í loftslagsmálum með fullnýtingu grænnar verðmætasköpunar, lágmörkun kostnaðar, tímasetningum sem taka mið af tækniþróun og orkuframboði, ásamt hvötum til fjárfestinga í grænni umbreytingu.
Hvað varðar efnahagsmál þá erum við á vendipunkti, spár gera ekki ráð fyrir hagvexti í ár, landsframleiðsla dróst saman á fyrri hluta ársins og það gerði framleiðni í atvinnulífinu líka. Það er því mikilvægt að ný ríkisstjórn setji samkeppnishæfni og verðmætasköpun ofar á forgangslistann. Stöðugleiki skiptir miklu máli en verðmætasköpun gerir það líka.
Það er ánægjulegt að ný ríkisstjórn ætli ekki að hækka skatta á fyrirtæki, fjármagn eða laun. Slíkir skattar eru nefnilega líklegir til þess að draga úr hagvexti og það er ekki sú efnahagsstefna sem atvinnulífið þarf á að halda um þessar mundir. Flest lönd innan OECD hafa verið að lækka slíka skatta fremur en hækka undanfarna áratugi.
Á sama tíma færir ný ríkisstjórn okkur verkefni sem við vitum að verður tekist á um, en við kunnum að takast á með uppbyggilegum og málefnalegum hætti - með samfélag hagsældar og tækifæra að leiðarljósi.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar mun bæði ný atvinnustefna og ný auðlindastefna líta dagsins ljós á nýju kjörtímabili og við treystum á að ný stjórnvöld vinni vel með atvinnulífinu að mótun þeirra. Fyrirsjáanleiki er lykilatriði fyrir verðmætasköpun.
Boðuð auðlindagjöld á eftir að útfæra og það er mikilvægt að stjórnvöld vinni með atvinnulífinu að því, útflutningstekjur og alþjóðaviðskipti eru jú lífæð landsins. Ísland þarf að vera samkeppnishæft þegar kemur að útflutningi og samstaðan þarf að vera víðar en bara við ríkisstjórnarborðið.
Ný ríkisstjórn mun setja aðild að ESB á dagskrá á kjörtímabilinu, við vitum að innan Samtaka atvinnulífsins eru skiptar skoðanir á aðild, í síðustu könnun sem við gerðum á meðal félagsmanna var tæplega helmingur andvígur en um þriðjungur hlynntur inngöngu í ESB. Það eru hins vegar allir sammála um mikilvægi samningsins um evrópska efnahagssvæðið og mikilvægi aðgangsins að innri markaðinum. Við hlökkum til þess að eiga við ykkur málefnalegt samtal um Evrópumálin á komandi misserum með áherslu á hagsmunamat, hagsmunagæslu og samstöðu.
Varnar- og öryggismál eru lykilatriði fyrir okkur öll, bæði hérlendis en ekki síður á alþjóðavettvangi. Friður, alþjóðaviðskipti, alþjóðareglur og alþjóðastofnanir eiga undir högg að sækja þessa dagana og því er fyrirséð að alþjóðamál og viðnámsþróttur atvinnulífsins verða eitt af lykilverkefnum í hagsmunagæslunni á komandi árum, bæði hjá nýjum stjórnvöldum og hjá okkur öllum.
Kæru félagar, um leið og við óskum nýrri ríkisstjórn gæfu og góðs gengis á kjörtímabilinu þá óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þökkum fyrir skemmtilegt og árangursríkt samstarf á árinu sem er að líða.
Sigríður Margrét Oddsdóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins