1 MIN
Norrænir viðburðir um launajafnrétti
Í október síðastliðnum voru haldnir tveir norrænir viðburðir um launajafnrétti. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins á viðburðunum var Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði.
Fyrri fundurinn var á vegum UN Women, haldinn í UN City í Kaupmannahöfn, þar sem hagaðilar á almennum vinnumarkaði komu saman. Á fundinum var farið yfir hlutverk UN Women í því að stuðla að kynjajafnrétti m.a. með hliðsjón af Beijing +30. Aldijana Šišić framkvæmdastjóri samstarfsnets við einkageirann hjá UN Women leiddi fundinn og lagði áherslu á að almennur vinnumarkaður geti orðið drifkraftur breytinga í átt að auknu kynjajafnrétti með stefnumörkun og samstarfi milli hagaðila. Á fundinum lagði Maj-Britt áherslu á að aukið jafnrétti og aukin atvinnuþátttaka, ekki síst kvenna, stuðli að auknum hagvexti og bættum lífskjörum. Því væri mikilvægt að greiða götu kvenna til atvinnuþátttöku.
Farið var yfir stefnumörkun og aðgerðir sem eiga að auka jafnrétti á vinnumarkaði. Þar lagði Maj-Britt áherslu á vænlegar leiðir til árangurs í jafnréttismálum. T.d. mikilvægi þess að brúa umönnunarbilið, tryggja öruggt félagslegt vinnuumhverfi og breytingar á skipulagi vinnumarkaðarins, þ.e. að stuðlað sé að auknum hlut dagvinnulauna í heildarlaunum sem hefur áhrif á mun heildarlauna karla og kvenna. Ennfremur kom Maj-Britt inn á þær áskoranir sem fylgi kynskiptum vinnumarkaði og aðgerðir íslenskra stjórnvalda varðandi endurmat á virði kvennastarfa. Samhljómur var á fundinum um að íþyngjandi kvaðir á fyrirtæki væri ekki vænleg leið til árangurs á þessari vegferð en að mikilvægt væri að fyrirtæki og aðrir hagaðilar tækju höndum saman í að auka jafnrétti á vinnumarkaði.
Síðari fundurinn var hliðarviðburður á þingi Norðurlandaráðs sem fór fram á Íslandi dagana 28. til 31. október. Viðburðurinn Víðara sjónarhorn á launamun kynjanna: Hvernig tökum við skref í átt að launajafnrétti? var haldinn á vegum NIKK sem er norræn samstarfsstofnun um kynjajafnrétti og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, stýrði fundinum og Eberhard Stüber, lögmaður og höfundur skýrslunnar Stefnt að launajafnrétti: löggjöf, skýrslugerð og framkvæmd á Norðurlöndum , hélt erindi. Maj-Britt tók þátt í pallborðsumræðu ásamt fulltrúum stéttarfélaga og stjórnvalda hinna Norðurlandanna. Maj-Britt lagði áherslu á að þrátt fyrir góðan árangur í jafnréttismálum hérlendis væri launajafnrétti ekki náð og að ein helsta orsök þess væri kynskiptur vinnumarkaður. Í framhaldi ræddi hún um aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu og fór meðal annars yfir tilraunaverkefni á opinberum vinnumarkaði varðandi endurmat á virði kvennastarfa og ítrekaði að mkilvægt væri að laun fyrir störf í þeim stéttum, þar sem konur eru í meirihluta, séu metin í samræmi við virði þeirra starfa.
Hins vegar kom fram í máli Maj-Britt að á meðal aðila vinnumarkaðarins ríki ekki einhugur um hvaða þættir skapa virði starfa né heldur hvert vægi þeirra eigi að vera. Benti hún á kjarasamninga sem mögulegt verkfæri til að ná fram auknu launajafnrétti og nefndi einnig hæfnigreiningu starfa í því samhengi og nýtt hæfnilaunakerfi sem samið var um í síðustu kjarasamningum á almennum markaði. Í kjölfarið skapaðist umræða um samningsfrelsi stéttarfélaga og hvort núgildandi fyrirkomulag við gerð kjarasamninga, þar sem hver hópur rekur sjálfstæða kjarastefnu, ynni gegn sátt á vinnumarkaði um endurmat á virði starfa. Maj-Britt tók undir það og sagði mikilvægt að sátt næðist og að skuldbinding stéttarfélaga um að standa vörð um endurmatið væri nauðsynleg.
Maj-Britt benti einnig á að hlutfall kvenna í starfsstéttum þar sem greidd eru tiltölulega há laun hafi hækkað stöðugt undanfarin ár á meðan það hafi lækkað í starfsstéttum sem greiða tiltölulega lág laun. Sú þróun hafi leitt til þess að launamunur kynjanna hafi dregist saman. Maj-Britt fór ennfremur yfir þær aðgerðir sem stuðlað hafa að auknu jafnrétti á vinnumarkaði og nefndi í því sambandi fæðingarorlofskerfið, aðgengi að niðurgreiddri dagvistun barna, mikla atvinnuþátttöku og aukna menntun kvenna. Loks ítrekaði hún að jafnrétti næðist ekki fyrr en fjölskylduábyrgð hvíldi til jafns á öllum kynjum.
Hlekkur á skýrsluna: Towards pay equity: Regulations, reporting and practical application in the Nordic region