Menntamál - 

02. janúar 2018

Máltækniárið 2018

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Máltækniárið 2018

Það er fagnaðarefni að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 450 milljóna króna framlagi til máltækniáætlunar. Þá fer að komast á fullt skrið átak til að gera íslenskuna fullgilda í stafrænum heimi.

Það er fagnaðarefni að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 450 milljóna króna framlagi til máltækniáætlunar. Þá fer að komast á fullt skrið átak til að gera íslenskuna fullgilda í stafrænum heimi.

Um langa hríð hafa verið skrifaðar skýrslur um nauðsyn þess að byggja upp innviði til að fólk geti notað íslensku til að eiga samskipti við tæki og tól - hugbúnað og upplýsingakerfi. Á engan er þó hallað þótt sérstaklega sé getið hins óþreytandi Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslensku við Háskóla Íslands, sem í áratugi hefur varað við þeirri hættu sem að íslenskunni steðjar.

Það er ástæða til að þakka einbeittan vilja þriggja síðustu menntamálaráðherra þeirra Illuga Gunnarssonar, Kristjáns Þórs Júlíussonar og nú Lilju Alfreðsdóttur til að hrinda af stað markvissri uppbyggingu á þessu sviði. Samstarf lykilaðila í Almannarómi er einnig mikilvægt.
Þáverandi formaður SA, Björgólfur Jóhannsson, fjallaði um mikilvægi íslenskunnar fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja á Menntadegi atvinnulífsins í febrúar sl. og sagði:

„Íslenskan er það sem gerir okkur að þjóð. Menningin byggir á arfi frá forfeðrum okkar og -mæðrum og til að viðhalda henni verða nýjar kynslóðir að geta nálgast þennan arf án mikillar fyrirhafnar. Hver ný kynslóð verður að geta orðað flóknar hugsanir og fjallað um samhengi hlutanna á móðurmáli sínu. Fram að þessu hafa Íslendingar notið þess að fram hafa komið jafnt og þétt ungir rithöfundar sem hafa fært okkur nýja sýn á fortíð og samtíð. Þetta er ómetanlegt og það er óhugsandi að þessi hæfileiki geti tapast. Máltækni er svið sem er dæmigert fyrir svokallaðan markaðsbrest, það er ekkert eitt fyrirtæki og engin ein stofnun er í stakk búin til að ráðast í þetta umfangsmikla verkefni. Það mun taka tíma að komast jafnfætis öðrum þjóð- um og það mun kosta samfélagið töluvert fé.“

Þórarinn Eldjárn, skáld, sagði við sama tilefni: „Þróunin er hröð í tækni nútímans, ekki síst á máltæknisviðinu og í því írafári hefur það gerst að stórfyrirtækjum sem stjórna þeirri þróun þykir ekki arðbært að eltast við það sem þeim finnst vera sérviskulegar mállýskur örfárra steingervinga á hjara veraldar. Þau taka því fagnandi ef steingervingarnir sjálfir gerast þjálir og meðfærilegir og segja að þetta sé bara allt í lagi, þeir séu hvort sem er svo góðir í ensku.

Og fyrst svo er, til dæmis hér hjá okkur, væri þá ekki bara rétt að stíga skrefið til fulls, njóta rakleitt þeirrar gæfu að fá ókeypis aðgang að öllum tækninýjungunum án tungumálshindrana, geta strax sagt höngrí við ísskápinn og flöss við klósettkassann? Væri það ekki frábært fyrir okkur rithöfunda að stíga skrefið til fulls og komast beint inn á alþjóðamarkaðinn eina og sanna? Væri það ekki hollt og gott fyrir æskulýðinn og þar með framtíð þjóðarinnar að við reyndum eftir megni að verða tvítyngd? Hafa ekki sálfræðingar og málfræðingar, sálmálfræðingar og málsálfræðingar sannað að það sé einstaklega þroskandi fyrir heilann og hugsunina að hafa jafngild traustatök á tveimur tungumálum? Svarið við öllum þessum spurningum er ósköp einfaldlega nei.“

Lagt er til að þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík verði eflt og endurskipulagt. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins tóku höndum saman snemma árs 2016 og hófu undirbúningsverkefni að máltækniáætlun þar sem skilgreind yrðu markmið máltækniverkefnis í heild ásamt undirverkþáttum og forgangsröðun. Í fjáraukalögum 2016 voru tryggðir fjármunir til að gera heildstæða fimm ára áætlun um þróun máltækninnar. Stýrihópur skilaði síðan skýrslu um málið í júní 2017 þar sem bæði er fjallað um menntun á sviði máltækni og fimm ára verkáætlun um uppbyggingu innviða máltækninnar. Lagt er til að þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík verði eflt og endurskipulagt með þátttöku fleiri deilda innan skólanna en verið hefur. Tekið verði inn í námið á hverju ári frá hausti 2018. Í verkáætluninni er fjallað um tækifæri í þróun máltækni fyrir íslensku og skipulega uppbyggingu innviða. Lagt er til að myndaðir verði þekkingarkjarnar, skapað öflugt nýsköpunarumhverfi og að áætlunin hefjist sem fyrst.

Fyrir nokkru varð til sjálfseignarstofnunin Almannarómur þar sem háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félög sameinuðust um það markmið að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum með því að skapa og þróa íslensk máltæknitól eins og talgreini, vélrænar þýðingar, fyrirspurnarkerfi, samræðukerfi, talgervla, stafsetningar- og málfarsleiðbeiningar.

Ný stjórn hefur nú tekið til starfa í Almannarómi og er vonast til að sjálfseignarstofnunin geti orðið leiðandi afl við uppbyggingu og samstarf sem fyrirsjáanlegt er á þessu sviði. Aðild að Almannarómi er opin og grunninnviðir sem byggðir verða upp fyrir almannafé þurfa einnig að vera opnir þannig að þeir sem vilja geti nýtt lausnir sem skapast með máltækniáætluninni.

Það er ástæða til að þakka einbeittan vilja þriggja síðustu menntamálaráðherra þeirra Illuga Gunnarssonar, Kristjáns Þórs Júlíussonar og nú Lilju Alfreðsdóttur til að hrinda af stað markvissri uppbyggingu á þessu sviði. Samstarf lykilaðila í Almannarómi er einnig mikilvægt.

Máltækniáætlunin er frábært dæmi um pólitíska og víðtæka samfélagslega samstöðu um mál þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru settir í öndvegi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2017

Samtök atvinnulífsins