16. janúar 2025

Heilsuefling ríkissjóðs

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Heilsuefling ríkissjóðs

Endahnútur fyrir Viðskiptablaðið þann 15. janúar.

Ný ríkisstjórn leitar leiða til hagræðingar í ríkisrekstri. Til að bera kennsl á slík tækifæri er freistandi að skoða útgjöld til einstakra málaflokka og meta hvar hægt er að skera niður. Ef við rýnum fjárlögin með svo þröngri linsu er hætt við því að við missum sjónar á tækifærum til breytinga sem gætu bætt opinberan rekstur þvert á málaflokka.

Einn stærsti útgjaldaliður ríkisins er launakostnaður. Hluti af þeim kostnaði snýr að réttindum opinberra starfsmanna, sem eru umtalsvert meiri en á almennum vinnumarkaði hvort sem snýr að viðveruskyldu, orlofi, veikindum eða starfsöryggi.

Veikindafjarvistir voru nýlega til umfjöllunar í Morgunblaðinu en þar kom fram að fjarvistir vegna veikinda starfsmanna á opinberum markaði væru um tvöfalt meiri en á almennum vinnumarkaði. Hvað veldur svo miklu misvægi milli almenna markaðarins og hins opinbera þegar kemur að veikindum?

Það er samfélagslegt verkefni að lágmarka veikindafjarvistir og brotthvarf fólks af vinnumarkaði.

Veikindaréttur er ríkur á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega hjá hinu opinbera. Sjúkrasjóðir margra stéttarfélaga standa höllum fæti og einhverjir þeirra hafa þurft að grípa til skerðinga þar sem sjóðirnir bera ekki þau veikindi sem eru til staðar.

Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu er úr takmörkuðum gögnum að moða þegar kemur að því að greina tíðni, umfang og ástæður veikindafjarvista á íslenskum vinnumarkaði. Úr þessu þarf að bæta svo hægt sé að grípa til hnitmiðaðra aðgerða. Eins mætti skoða að hanna skipulagt endurkomuferli sem miðar að því að styðja við einstaklinga til að snúa aftur til starfa, eins og þekkist í löndunum í kringum okkur.

Það er samfélagslegt verkefni að lágmarka veikindafjarvistir og brotthvarf fólks af vinnumarkaði. Höfuðmarkmiðið er að sjálfsögðu að stuðla að heilsueflingu einstaklinga og samfélagslegri þátttöku, en mikilvæg hliðarafurð slíkra umbóta væri heilbrigðari ríkisrekstur.

Þessi grein birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 15. janúar 2025.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs