24. mars 2022

Hagvaxtarauki hækkar kauptaxta og laun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagvaxtarauki hækkar kauptaxta og laun

Hagstofa Íslands hefur birt bráðabirgðaniðurstöðu um 2,53% hagvöxt á hvern íbúa milli áranna 2020 og 2021. Svokallaður hagvaxtarauki skv. Lífskjarasamningnum mun því koma til framkvæmda og hækka kauptaxtar kjarasamninga þann 1. apríl um 10.500 kr. og hærri laun um 7.875 kr.

Samkvæmt Lífskjarasamningnum kemur hagvaxtarauki til framkvæmdar ef landsframleiðsla (að raunvirði) á hvern íbúa hækkar umfram 1% á milli ára. Kveðið er á um 5 þrep eftir því hve vöxturinn er mikill og miðast framangreindar tölur við næst hæsta þrepið.

Þegar Lífskjarasamningurinn var gerður í apríl 2019 voru horfur í efnahagsmálum þannig, skv. Hagstofu og Seðlabanka Íslands, að hagvöxtur yrði að jafnaði 2,5% árin 2019-2022, sum árin heldur meiri en önnur minni, og mannfjöldaspá Hagstofu (miðspá) gerði ráð fyrir a.m.k. 1% árlegri fólksfjölgun. Við gerð samningsins var þannig útlit fyrir 1-1,5% hagvöxt á hvern íbúa á hverju ári samningstímans.

Eins og kunnugt er brugðust þessar spár fullkomlega með kórónukreppunni. Árið 2021 var raunvirði landsframleiðslu á hvern íbúa 6,1% minna en árið 2018. Af því leiðir að svigrúm til almennrar kaupmáttaraukningar minnkaði á samningstímanum. Mikil aukning hagvaxtar á hvern íbúa milli áranna 2020 og 2021 skýrist þannig einvörðungu af endurheimt hluta þeirra umsvifa sem töpuðust í kreppunni árið 2020.

Samtök atvinnulífsins hafa varað við því að hagvaxtarákvæði Lífskjarasamningsins komi til framkvæmda, enda fyrirtækin ekki í stakk búin til að taka á sig frekari launahækkanir. Hækkun launa 1. janúar sl. var langt umfram svigrúm atvinnulífsins vegna breyttra forsenda og hefur haft hvetjandi áhrif á verðbólgu og vexti. Seðlabankinn hefur varað við vaxandi verðbólgu vegna ósjálfbærra launahækkana sem kalli á hækkun stýrivaxta bankans.

Samtök atvinnulífsins fóru þess á leit við verkalýðshreyfinguna sl. haust og aftur nú í mars að gert yrði samkomulag um að hagvaxtarauki komi ekki til framkvæmda. Því var hafnað með öllu.

Samtök atvinnulífsins