1 MIN
Góðum árangri stefnt í hættu
Við gerð síðustu kjarasamninga var lögð áhersla á launahækkanir sem samrýmdust lágri verðbólgu. Markmiðið var raunveruleg kaupmáttaraukning í stað lofts í launaumslögin eins og oft hefur verið samið um. Árangurinn lét ekki á sér standa. Verðbólga gekk hratt niður á síðasta ári og þegar upp var staðið hafði 12 mánaða verðbólga farið úr 4,3% í 0,8%. Kaupmáttur jókst um liðlega 5% á árinu og vextir Seðlabanka lækkuðu um 0,75%. Niðurstaðan er betri en nokkurn óraði fyrir.
Við gerð síðustu kjarasamninga var lögð áhersla á launahækkanir sem samrýmdust lágri verðbólgu. Markmiðið var raunveruleg kaupmáttaraukning í stað lofts í launaumslögin eins og oft hefur verið samið um. Árangurinn lét ekki á sér standa. Verðbólga gekk hratt niður á síðasta ári og þegar upp var staðið hafði 12 mánaða verðbólga farið úr 4,3% í 0,8%. Kaupmáttur jókst um liðlega 5% á árinu og vextir Seðlabanka lækkuðu um 0,75%. Niðurstaðan er betri en nokkurn óraði fyrir.
Þetta gefur einstakt tækifæri til að halda áfram á sömu braut og auka kaupmátt varanlega og meira en ella. Það sýnir reynsla annarra Norðurlanda, sem og eigin reynsla á allt of fátíðum tímabilum stöðugleika í íslensku efnahagslífi.
Batnandi efnahagsskilyrði renna líka styrkari stoðum undir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sem gefst færi á aukinni nýsköpun og fjárfestingu og geta fjölgað störfum. Þannig batna lífskjör allra til frambúðar.
Kröfur um miklar launahækkanir
En samt stöndum við frammi fyrir mikilli og alvarlegri ólgu á vinnumarkaði. Horfur eru á að komandi kjaraviðræðum geti fylgt mestu átök frá níunda áratugnum. Kröfur stéttarfélaganna minna mjög á þá tíma. Starfsgreinasambandið hefur riðið á vaðið með kröfur um 50% hækkun launa. Slíkar hækkanir yrðu óhjákvæmilega viðmið annarra hópa og myndu því skila sambærilegum hækkunum yfir allan vinnumarkaðinn ef að þeim yrði gengið. Heildarlaunakostnaður á Íslandi er 1.100 milljarðar króna á ári. Hækkun launakostnaðar næmi því 550 milljörðum króna. Ekki þarf að fjölyrða um efnahagsleg áhrif þessa. Fella þyrfti gengi krónunnar til að koma í veg fyrir gjaldþrot útflutningsatvinnuvega. Aðrar atvinnugreinar, ásamt ríki og sveitarfélögum, yrðu að mæta útgjaldaaukningunni með verulegum verð-, gjaldskrár- og skattahækkunum. Verðbólgudraugurinn yrði endurvakinn.
Samtök atvinnulífsins hafa því hafnað þessum kröfum og þær geta aldrei orðið grundvöllur viðræðna.
Ríki og sveitarfélög ganga á undan
Hvernig má það vera að á sama tíma og kaupmáttaraukning síðastliðins árs er jafn mikil og raun ber vitni hafi skapast svo alvarleg staða á vinnumarkaði? Skýringanna er að leita í launaþróun á opinberum vinnumarkaði og í samskiptum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðar. Ríki og sveitarfélög sömdu um mun meiri launahækkanir fyrir hluta sinna starfsmanna á síðasta ári en samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og kjarasamningum við stóra hópa opinberra starfsmanna, svo sem félagsmenn BSRB. Þegar annars vegar er samið um 3-5% launahækkanir á almennum vinnumarkaði og hluta þess opinbera, en hins vegar 10-30% launahækkanir við háskólamenntaða starfsmenn hins opinbera, grunn- og framhaldsskólakennara og nú síðast lækna, myndast mikið ójafnvægi á vinnumarkaði.
Launahækkanir þessara hópa eru nú orðnar að kröfum þeirra stéttarfélaga sem hafa lausa samninga í lok febrúar. Ríki og sveitarfélög hafa mótað nýja launastefnu sem stefnir friði á vinnumarkaði í voða. Þetta hefur gerst áður, t.d. í kjarasamningum ríkisins við BHM árið 1989, sem voru að lokum teknir úr sambandi með lögum, svo unnt væri að gera þjóðarsáttarsamningana svonefndu. Ríki og sveitarfélög hafa hleypt hér af stað gamalkunnu höfrungahlaupi á vinnumarkaði sem ekki sér fyrir endann á.
Samstarf í uppnámi
Ríkisstjórnin hefur á sama tíma horfið alveg frá hefðbundnu þríhliða samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Samstarfið hefur verið við lýði undanfarna áratugi og lagði grunninn að þjóðarsáttinni á sínum tíma og þar hafa menn sammælst um ýmis almenn réttindi launafólks. Síðustu misseri hafa hins vegar einkennst af vaxandi átökum aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar. Ekki hefur verið staðið við lækkun tryggingagjalds samhliða minnkandi atvinnuleysi, tekjustofn fæðingarorlofssjóðs hefur verið skertur, framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða og réttur til atvinnuleysisbóta sömuleiðis, án samsvarandi lækkunar tryggingagjalds. Þá ákvað stjórnin að virða ekki lögbundna skuldbindingu sína til framlags til starfsendurhæfingarsjóðsins Virk. Allt þetta hefur verið samið um á samstarfsvettvangi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda en ríkisstjórnin nú sagt einhliða upp.
Einstök aðferðafræði
Þetta gerir úrlausn komandi kjaradeilna erfiðari viðfangs. Það er hvergi þekkt að ríki og sveitarfélög leiði í kjarasamningum þróunina á vinnumarkaði. Þetta er sérstaða íslensks vinnumarkaðar og sýnir nauðsyn þess að breyta svokölluðu vinnumarkaðslíkani þannig að það sé geta fyrirtækjanna, framleiðni þeirra og hagur útflutningsgreinanna sem móti svigrúm til launabreytinga hverju sinni. Forystumenn stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum sætta sig ekki við að félagsmenn þeirra dragist aftur úr stórum hópum opinberra starfsmanna í launum. Vænta má að sama viðhorf sé uppi hjá þeim starfsmönnum hins opinbera sem ekki nutu tugprósenta launahækkana í síðustu kjarasamningum. En vandinn er sá að slíkar hækkanir yfir allan vinnumarkaðinn munu valda heimilum og fyrirtækjum óbætanlegu tjóni. Reynsla fyrri áratuga hvað varðar víxlhækkanir launa og verðlags ættu að vera ævarandi víti til varnaðar.
Spurningin er hvað er ríkisstjórnin reiðubúin að gera til að koma í veg fyrir að launahækkanir einstakra hópa ríkisstarfsmanna og samskipti við aðila vinnumarkaðar marki endalok sjaldséðs og langþráðs stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það má líka spyrja hvort ríkisstjórnin hafi pólitískan vilja eða getu til að snúa frá markaðri stefnu sinni í launamálum hins opinbera.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Leiðari fréttabréfs SA: Af vettvangi í janúar 2015