1 MIN
Horfir til komandi kjarasamninga
Verðbólguhorfur hafa versnað þó nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun og nú er gert ráð fyrir að verðbólga verði 5,3% á árinu. Stafar það að sögn Seðlabankans fyrst og fremst af kröftugum efnahagsbata innanlands og þrálátari hækkun húsnæðisverðs ásamt því að alþjóðlegar verðhækkanir hafi verið meiri en gert var ráð fyrir.
Húsnæðisliðurinn hefur verið megindrifkraftur verðbólgunnar að undanförnu og nam árshækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu ríflega 18% í árslok 2021. Auk vaxtastigs hafa aðstæður á vinnumarkaði einnig veruleg áhrif á fasteignamarkað. Miklar launahækkanir eru til þess fallnar að auka eftirspurn eftir húsnæði en einnig er fyrirséð að efnahagsbatinn mun krefjast aukins innflutnings á vinnuafli. Sá skortur sem er á íbúðarhúsnæði mun því einungis aukast með batnandi atvinnuástandi og tilheyrandi fjölgun aðfluttra nema aukinn kraftur komist í íbúðauppbyggingu.
Fyrir liggur tillaga til þingsályktunar frá stjórnarandstöðu um sérstakar bætur til húsnæðiseigenda sem mótvægisaðgerð við aukinni vaxtabyrði skuldsettra húsnæðiseigenda en eins og Seðlabankastjóri nefndi er tilgangur vaxtahækkana Seðlabankans einmitt að reyna að hemja eftirspurn eftir sögulegar örvunaraðgerðir. Markmiðið sé að komast aftur í eðlilegt ástand, sem var ekki það sem ríkti við sögulega lágt vaxtastig og djúpa efnahagslægð. Vaxtastigið nú stendur á svipuðum stað og fyrir faraldur. Skýtur frumvarpið því skökku við. Þensluhvetjandi aðgerðir eru einungis til þess fallnar að kalla á frekari vaxtahækkanir og engin þörf á að auka eftirspurn eftir húsnæði í núverandi ástandi.
Heimilin eru þegar tekin að bregðast við vaxtahækkunum sjálf t.a.m. með lengri binditíma lána. Þó fjárhagsleg staða heimila sé misjöfn gefur heildarmyndin til kynna að íslensk heimili séu vel í stakk búin til að taka við vaxtahækkunum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið að undanförnu ásamt því að sparnaður og eigið fé heimila hefur byggst upp í faraldrinum. Þrátt fyrir vaxtahækkun ber að nefna að raunvextir eru enn verulega neikvæðir á sama tíma og verðbólguhorfur versna.
Eins og kom fram á fundi Seðlabankans í morgun mun vinnumarkaðurinn hafa talsvert að segja um verðbólguhorfur á næstu misserum. Seðlabankastjóri var skýr með það að ef komandi kjarasamningar endurspegluðu ekki aðstæður í hagkerfinu yrði Seðlabankinn tilneyddur að bregðast við með vaxtahækkunum. Þegar frá líður er það enda launaliðurinn sem verður megindrifkraftur verðbólgunnar, ekki erlendar verðhækkanir eða húsnæðisliðurinn, að mati Seðlabankans.