03. apríl 2025

„Frelsisdagur“ Trump

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Frelsisdagur“ Trump

Tollastríð hafið.

Í gær tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti um 10% lágmarkstoll á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna auk hærri gagntolla á fjölda ríkja. Íslenskar vörur fá á sig 10% toll en Evrópusambandið 20%. Íslendingar lenda þar með í lágmarkstollaflokki en aðgerðirnar eru slæmar í eðli sínu og munu hafa gríðarleg áhrif á hagkerfi heimsins.

Hinir nýju tollar taka gildi í tveimur skrefum. 10% lágmarkstollur mun taka gildi 5. apríl. Þá munu gagntollar taka gildi þann 9. apríl en þegar þeir hafa tekið gildi munu Bandaríkin hafa lagt 20% toll á vörur frá Evrópusambandinu.

Nýju tollarnir munu leggjast ofan á þá tolla sem fyrir eru í tollskrá Bandaríkjanna en þó með nokkrum undantekningum . Vöruflokkar sem falla undir sérstaka tolla, þ.m.t vörur sem þegar hafa verið tolllagðar af Trump, t.d. bílar, ál og stál munu ekki heyra undir hina nýju tolla. Það þýðir að nýju tollarnir leggjast ekki ofan á þá sértæku tolla sem Trump hefur áður sett.

Líkt og áður segir fellur Ísland í lægsta tollflokkinn. Þrátt fyrir það verður að hafa í huga að íslensk fyrirtæki eiga í samkeppni við bandaríska framleiðendur. Það er því fyrirséð að samkeppnisstaðan gagnvart stærsta hagkerfi heimsins mun versna þegar tollarnir taka gildi á laugardaginn.

Evrópusambandið hefur lýst yfir samningsvilja gagnvart Bandaríkjunum en boðað sterk viðbrögð séu bandarísk stjórnvöld ekki reiðubúin til samninga. Fyrirhuguð eru tvenns konar viðbrögð, annars vegar gagnaðgerðir og hins vegar verndaraðgerðir. Gagnaðgerðir eru beint svar við tollasetningu Bandaríkjanna og beinast því eingöngu gegn bandarískum vörum. Gagnaðgerðirnar verða í 2 skrefum.

  • Í skrefi 1 er ESB nú að ljúka við gerð lista yfir vörur frá Bandaríkjunum sem háir tollar verða lagðir á. Líkur eru á að listinn verði samþykktur 9. apríl og að tollarnir taki gildi 13. apríl. Þeir munu ná til bandarískra útflutningsvara að andvirði 26 milljarða EUR.
  • Í skrefi 2 verður að finna sameiginleg viðbrögð ESB við 25% tollum Bandaríkjanna á bíla og 20% gagnkvæmum tollum á innflutning frá ESB en þessi viðbrögð verða ákveðin síðar.  

Verndaraðgerðir eru hugsaðar til að bregðast við afleiddum áhrifum af tollum Bandaríkjanna, en tollar í Bandaríkjunum geta valdið því að vörur leita í auknum mæli á aðra markaði og þannig valdið búsifjum gagnvart framleiðendum í Evrópu. Til þess að koma í veg fyrir þessi afleiddu áhrif er ríkjum heimilt samkvæmt WTO reglum að setja sérstakar verndarráðstafanir, en þær eiga að gilda gagnvart öllum ríkjum. Verndarráðstafanir ESB gætu verið í formi viðbótartolla, magntakmarkana eða tollkvóta.

Íslensk fyrirtæki þurfa ekki að óttast gagntolla ESB þar sem þeim verður fyrirsjáanlega eingöngu beint gegn Bandaríkjunum. Hins vegar gætu verndaraðgerðir ESB haft áhrif á íslensk fyrirtæki en þeim verður ekki beitt fyrr en að undangenginni rannsókn á áhrifum aukinna tolla á ákveðnum vörum á Evrópumarkað. Framkvæmdastjórn ESB gerir t.a.m. ráð fyrir að innflutningstollar Bandaríkjanna á ál muni auka þrýsting frá útflutningi sem áður var ætlaður til Bandaríkjanna en gæti nú verið beint til ESB. Framkvæmdastjórnin hefur nú hafið söfnun gagna sem er undanfari þess að hefja rannsókn sem getur svo leitt til verndarráðstafana. Slík rannsókn hefst hins vegar ekki fyrr en þar að lútandi beiðni kemur frá evrópskum iðnaði.

Í ljósi breyttrar heimsmyndar með versnandi ytri skilyrðum er mikilvægt nú sem endranær að íslensk stjórnvöld tryggi atvinnulífinu gott rekstrarumhverfi.

Samtök atvinnulífsins eru í þéttu samtali við stjórnvöld varðandi mögulegar sviðsmyndir og gæta hagsmuna félagsmanna sinna í hvívetna. Í mars fóru fulltrúar SA til Brussel og áttu fund með nánum ráðgjafa Maros Sefcovic framkvæmdastjóra viðskipta- og efnahagslegs öryggis í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Á fundinum undirstrikuðu SA mikilvægi þess að Ísland verði undanskilið verndaraðgerðum ESB vegna tollhækkana Bandaríkjanna. Fordæmi er fyrir því að undanskilja bæði Noreg og Ísland frá verndartollum, en það var gert árið 2018. Skilaboðum SA var mætt af skilningi en engin loforð voru gefin af hálfu ESB. Verkefnið er ekki búið og SA munu áfram leggja sitt af mörkum og styðja við hagsmunagæslu stjórnvalda í þessu máli gagnvart ESB.

Í ljósi breyttrar heimsmyndar með versnandi ytri skilyrðum er mikilvægt nú sem endranær að íslensk stjórnvöld tryggi atvinnulífinu gott rekstrarumhverfi. Samtökin biðla til stjórnvalda snúa bökum saman við atvinnulífið í hagsmunagæslu fyrir íslenskt atvinnulíf og huga að samkeppnishæfni landsins við forgangsröðun. Allt kapp þarf að leggja á að verja verðmætasköpun, störf og tekjur.

Samtök atvinnulífsins