Menntamál - 

04. mars 2015

Foreldrar og 10. bekkingar kynni sér kosti starfsnáms

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Foreldrar og 10. bekkingar kynni sér kosti starfsnáms

Samtök fyrirtækja í atvinnulífinu hvetja þessa dagana foreldra og forráðamenn unglinga í 10. bekk til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskólanna. Á næstu vikum munu rúmlega 4.000 ungmenni velja sér námsbraut í framhaldsskóla og spennandi tímar taka við. Í bréfi samtakanna til foreldra og forráðamanna nemendanna er vakin athygli á því að rannsóknir sýni að foreldrar og félagar séu helstu áhrifavaldarnir á þessum tímamótum. Því sé mikilvægt að ræða um framtíðina og þá fjölbreyttu möguleika sem standa til boða.

Samtök fyrirtækja í atvinnulífinu hvetja þessa dagana foreldra og forráðamenn unglinga í 10. bekk til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskólanna. Á næstu vikum munu rúmlega 4.000 ungmenni velja sér námsbraut í framhaldsskóla og spennandi tímar taka við. Í bréfi samtakanna til foreldra og forráðamanna nemendanna er vakin athygli á því að rannsóknir sýni að foreldrar og félagar séu helstu áhrifavaldarnir á þessum tímamótum. Því sé mikilvægt að ræða um framtíðina og þá fjölbreyttu möguleika sem standa til boða.

Samtökin benda sérstaklega á kosti starfsnáms sem veitir ungu fólki möguleika á að starfa sjálfstætt og afla sér góðra tekna framtíðinni.  Í könnun sem gerð var á síðasta ári kom í ljós að 37% þeirra sem völdu bóknám í framhaldsskóla hefðu frekar kosið starfsnám. Um 60% ungs fólks sem fór í bóknám hefði viljað stunda starfsnám að einhverju leyti. Ef það er draumurinn – af hverju ekki að ýta undir að hann rætist?

Samtökin telja mikið brotthvarf úr framhaldsskólum áhyggjuefni. Brotthvarfið stafar af mörgum orsökum en sterkar vísbendingar eru um að unglingar hætti námi þegar þeir finna ekki styrkleikum sínum og kröftum réttan farveg. Því er mikilvægt að vinna með börnunum og leiðbeina þeim í samræmi við þarfir þeirra, áhuga og styrkleika.

Námsvefurinn www.naestaskref.is veitir m.a. ítarlegar upplýsingar um nám og störf á fjölmörgum iðn- og tæknisviðum. Einnig eru langflestir grunn- og framhaldsskólar með náms- og starfsráðgjafa sem hægt er að leita til. Framhaldsskólar verða jafnframt með opin hús  á næstunni til að kynna nám sem er í boði.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök iðnaðarins (SI), Samorka - samtök orku og veitufyrirtækja, SVÞ- Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins (SA) óska foreldrum, forráðamönnum og 10. bekkingum góðs gengis hvert sem leiðin liggur.

undefined

Samtök atvinnulífsins