Fréttir - 

18. mars 2021

Félagsmálaráðherra hvetur öll fyrirtæki til þess að nýta sér ráðningarstyrk

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Félagsmálaráðherra hvetur öll fyrirtæki til þess að nýta sér ráðningarstyrk

Samtök atvinnulífsins efndu til upplýsingafundar fyrir félagsmenn um ráðningarstyrk í samvinnu við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið í gær. Þar kynnti Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, átakið Hefjum störf.

Samtök atvinnulífsins efndu til upplýsingafundar fyrir félagsmenn um ráðningarstyrk í samvinnu við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið í gær. Þar kynnti Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, átakið Hefjum störf.

Ráðherrann hóf fundinn á því að taka af öll tvímæli um það að ráðningarstyrkurinn sé ekki eingöngu hugsaður fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda. „Við viljum hefja viðspyrnuna og grynnka á atvinnuleysisskránni.” Vitað sé að einstaklingar sem eru lengi án atvinnu séu líklegri til þess að þróa með sér mögulega örorku og viðvarandi atvinnuleysi.

„Þetta úrræði er hugsað fyrir öll fyrirtæki, öll sveitarfélög og öll frjáls félagasamtök. Það er hugsað fyrir stór fyrirtæki, miðlungs og lítil – fyrirtæki í góðum rekstri, miðlungsrekstri og lakari rekstri,” sagði Ásmundur Einar á fundinum.

Hann sagði ráðherra og ríkisstjórnir ekki skapa störf. „Það eru vinnuveitendur sem búa til störf,” sagði hann og bætti við.

„Við viljum fá alla þá aðila til liðs við okkur. Við viljum umræðu við hvert einasta stjórnarborð í hverju einasta fyrirtæki, hvort ekki sé mögulegt að skapa einhver störf. Við viljum nýta þessa ráðningarstyrki til að grynnka á atvinnuleysisskránni og koma fólki í virkni.”

Upptöku af fundinum í heild geta félagsmenn nálgast hér á vinnumarkaðsvef samtakanna.

Samtök atvinnulífsins