08. júlí 2024

Evrópusamtök atvinnulífsins vilja græna orku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Evrópusamtök atvinnulífsins vilja græna orku

...og draga úr íþyngjandi regluverki

Evrópusamtök atvinnulífsins, BusinessEurope , kalla eftir endurbættri stefnu til að bregðast við vaxandi gjá í samkeppnishæfni á tímum sem markast af rísandi geopólitískri spennu. „ Ef Evrópa vill halda áfram að vera akkeri friðar, hagsældar, öryggis og stöðugleika er nauðsynlegt fyrir allar stofnanir Evrópusambandsins að leggjast á eitt um stefnuskrá til næstu fimm ára sem kemur nýjum samkeppnishæfnisamningi í framkvæmd; The New European Competitiveness Deal, líkt og Evrópuráðið kallaði eftir fyrr í apríl 2024“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu forsvarsmanna Evrópusamtaka atvinnulífsins á nýliðnum fundum í Búdapest.

F.v. Árni Sigurjónsson, formaður SI, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Pétur Óskarsson, formaður SAF og Bjarnheiður Hallsdóttir, fráfarandi varaformaður SA

Vel heppnaðir fundir SA og SI í Búdapest

Evrópusamtök atvinnulífsins, BusinessEurope, eru leiðandi hagsmunasamtök í Evrópu sem leggja áherslu á samkeppnishæfni, hagsæld og tækifæri. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar fyrir hönd íslenskra atvinnurekenda en innan Evrópusamtakanna má finna hagsmunasamtök sem eru í forsvari fyrir meira en tuttugu milljón fyrirtæki í 36 evrópskum löndum.

Fundur forsvarsmanna hagsmunasamtaka á vegum Evrópusamtakanna fór fram í Búdapest Ungverjalandi, dagana 27. og 28. júní, þar sem Ungverjaland fer með forystu í ráði Evrópusambandsins næstu sex mánuðina.

Á fundinum fóru fram hringborðsumræður þar sem umfjöllunarefnin voru; „Hvernig geta fjármálamarkaðir aukið samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja“ og „Af-iðnaðarvæðing Evrópu, hver er skýringin og hvað er til ráða?“ Fundað var með Márton Nagy, efnahagsráðherra Ungverjalands og Enrico Letta, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu þar sem rætt var um áherslur Ungverjalands og framtíð innri markaðarins auk þess sem Tamás Sulyok, forseti Ungverjalands var heimsóttur.

Fulltrúar aðildarlanda Business Europe með forseta Ungverjalands

Evrópa dregst aftur úr í alþjóðlegri samkeppni

Evrópa hefur dregist aftur úr í samkeppni á alþjóðavettvangi en á síðasta ári var hagvöxtur innan ESB 0,5% á meðan hann var 3,1% í Bandaríkjunum og 5,2% í Kína. Á árunum 2019-2021 dróst bein erlend fjárfesting saman um 68% innan ESB á meðan hún óx um 63% í Bandaríkjunum. Fjárfesting erlendra móðurfélaga í uppbyggingu innan ESB féll um 15% á meðan hún jókst um 18% í Bandaríkjunum.

Mikilvægi þess að ESB breyti um stefnu og leggi áherslu á samkeppnishæfni er öllum ljós. Án samkeppnishæfni verður ekki aukinn hagvöxtur, atvinnusköpun, fjárfesting í grænni og stafrænni umbreytingu né fjárfesting í innviðum, öryggi og velferð.

Verkin þurfa að tala

Það er því ánægjulegt að sjá að áherslur Ungverjalands næstu sex mánuði verði á að undirbyggja markmið ESB 2024-29 í samræmi við „The New European Competitiveness Deal“. Þar verður sjónum sérstaklega beint að orku- og orkuverði, einföldun regluverks, rannsóknum og þróun ásamt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Orð stjórnmálamanna mega sín samt lítils, verkin þurfa að tala.

Áhersla á framleiðslu og dreifingu hagkvæmrar grænnar orku

Orkuverð iðnfyrirtækja innan Evrópu var um mitt síðasta ár um tvöfalt hærra en í Bandaríkjunum. Á Íslandi er fyrirséður orkuskortur, skerða hefur þurft orku til mikilvægra iðnfyrirtækja og vísbendingar eru um að orkuverð hækki umtalsvert á komandi misserum. Að auki hafa bæði ESB og Ísland sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hvort tveggja kallar á aukna fjárfestingu í hagkvæmri endurnýjanlegri orku og dreifingu hennar.

Minnka kvaðir um fjórðung

Samkvæmt rannsókn BusinessEurope telja 83% fyrirtækja að flókið og langdregið ferli við leyfisveitingar hindri fjárfestingar í Evrópu. Á næsta kjörtímabili er því nauðsynlegt að ESB standi við gefin loforð um að draga úr kröfum um upplýsingagjöf fyrirtækja sem nemur 25%. Einföldun regluverks er lykilforsenda þess að nauðsynlegar fjárfestingar og uppbygging geti átt sér stað. Íþyngjandi regluverk og upplýsingaskylda fyrirtækja dregur úr samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum. Þegar regluverk, sem hefur áhrif á atvinnulífið, er samið ættu stjórnvöld alltaf að vera meðvituð um grundvallaratriðin; „hver eru áhrifin á lítil fyrirtæki?“, „hver er skörun við annað regluverk?“ og „er stafræn framkvæmd tryggð?“.

Það er ekki nóg að koma í veg fyrir gullhúðun regluverks, það er löngu tímabært að aflétta núgildandi íþyngjandi kvöðum af fyrirtækjum, bæði í ESB og á Íslandi.

Enrico Letta

Samtök atvinnulífsins