1 MIN
Ertu í lagi eftir daginn?
Hvernig er menningin á þínum vinnustað?
Heilbrigð vinnustaðamenning hefur jákvæð áhrif á vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks og þar með á árangur vinnustaða. Heilbrigð vinnustaðamenning er jafnframt áhrifarík forvörn gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Samtök atvinnulífsins (SA) hafa haldið á lofti mikilvægi góðra samskipta á vinnustað og þess að atvinnurekendur stuðli að góðri vinnustaðamenningu og þar með öruggu félagslegu vinnuumhverfi.
Með vinnustaðamenningu er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, samvinnu og við lausn mála. Í slæmu félagslegt vinnuumhverfi er hætta á að óheilbrigð vinnustaðamenning þrífist. Óheilbrigð vinnustaðamenning getur haft neikvæð áhrif á líðan starfsfólks og þannig leitt til verri afkasta, slysa og fjarvista sem getur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækis. Lykilþáttur í heilbrigðri vinnustaðamenningu er traust. Þegar traust ríkir þá líður starfsfólki vel, það upplifir öryggi og leggur sig fram. Traust hefur einnig jákvæð áhrif á framleiðni og starfsánægju og dregur úrlíkum á streitu og kulnun á vinnustöðum.
Undanfarið ár hafa SA ásamt fulltrúum Landlæknisembættisins, Jafnréttisstofu og öðrum aðilum vinnumarkaðarins unnið með Vinnueftirlitinu að gerð fræðsluefnis og verkfærum fyrir stjórnendur og starfsfólk um heilbrigða vinnustaðamenningu og traust sem er lykilþáttur í góðri vinnustaðamenningu. Nú stendur Vinnueftirlitið fyrir herferð sem ber yfirskriftina #Tökum höndum saman: eflum heilbrigða vinnustaðamenningu. Nýtt fræðsluefni og verkfæri hafa verið þróuð að stuðla að heilbrigði vinnustaðamenningu og skapa traust í samskiptum á vinnustöðum. Verkfærunum er ætlað að styðja við bæði stjórnendur og starfsfólki í að vinna saman að heilbrigðu vinnuumhverfi. Gerð hafa verið upplýsingamyndbönd þeim til stuðnings ásamt fróðleiksmolum um gerð samskiptasáttmála , fræðslukönnun um heilbrigða vinnustaðamenningu og hagnýt ráð til að efla traust og heilbrigða vinnustaðamenningu .
SA hvetja vinnustaði landsins til að kynna sér efnið og vinna að heilbrigðri vinnustaðamenningu og trausti í samskiptum á sínum vinnustað. Mikilvægt er að öll séu í lagi eftir daginn!