1 MIN
400 stærstu: Dregur úr þrýstingi á vinnumarkaði
Niðurstöður reglubundinnar könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins.
Staðan versnar enn
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, versnar nokkuð frá síðustu könnun. Aðeins fjórðungur stjórnenda telja aðstæður nú góðar fremur en slæmar, fyrir ári síðan var það aftur á móti um helmingur stjórnenda.
Stjórnendur ekki bjartsýnir á framhaldið
Hlutfall stjórnenda sem telur aðstæður fara batnandi á næstu sex mánuðum helst nokkuð stöðugt milli kannana og mælist nú 27%, þokast hlutfallið upp frá því í desember þegar það mældist einungis 21%. Hlutfall þeirra sem telur aðstæður fara batnandi hefur þannig lækkað úr 45% í 27% á einu ári og aukist úr 21% í 35% hjá þeim sem telja aðstæður fara versnandi.
Færri búa við skort á starfsfólki
Telja 40% stjórnenda sig búa við skort á starfsfólki nú og hefur hlutfallið lækkað frá því að það stóð hæst í 56% í september á síðasta ári. Skortur á starfsfólki er þó sem fyrr langmestur í byggingariðnaði.
Fyrirtæki áforma talsverða fjölgun starfsfólks á næstunni og búast 34% þeirra við fjölgun starfsmanna, 11% við fækkun en 56% við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum. Eru það fyrirtæki í samgöngum, flutningu og ferðaþjónustu ásamt byggingariðnaði sem flest búat við fjölgun starfsfólks næsta hálfa árið.
Verðbólguvæntingar enn langt yfir markmiði
Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa tekið stakkaskiptum undanfarið ár. Væntingar til eins árs eru nú 4,8% og lækka úr 5% í síðustu könnun. Væntingar um verðbólgu eftir tvö ár eru 5,3% en voru 5,0% í síðustu könnun.
Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 3,9% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 5,4%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 8% og 11%.
Vænta gengisstyrkingar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar styrkist um 1,3% á næstu 12 mánuðum.
Útlit fyrir samdrátt í fjárfestingu á árinu
Fjárfestingavísitalan, sem vísar til breytinga fjárfestinga milli áranna 2022 og 2023, er lág og sýnir samdrátt í fjárfestinga milli ára. 27% stjórnenda vænta minni fjárfestingar, fimmtungur telur þær aukast á árinu en rúmur helmingur áætlar að fjárfesting verði óbreytt milli ára. Fjárfestingar aukast mest í flutningum og ferðaþjónustu, verslun og iðnaði. Fjárfesting dregst aftur á móti mest saman í sjávarútvegi.
Fyrirtæki við fulla framleiðslugetu
Meira en helmingur fyrirtækja telja nokkuð eða mjög erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. 42% telja það aftur á móti ekki vandamál. Minnstur er vandinn hjá fyrirtækjum í verslun og fjármála og tryggingastarfsemi.
Hagnaður minnkar milli ára
Stjórnendur búast enn við minni hagnaði en í síðustu könnunum. Aðeins 27% stjórnenda búast við að hagnaður aukist milli áranna 2022 og 2023, 32% að hann minnki, en 42% að hann verði svipaður.
Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan
Stjórnendur búast við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum. Um þriðjungur væntir aukningar, helmingur að hún standi í stað og 14% minnkunar. Meira en helmingur væntir hins vegar aukinnar eftirspurnar á erlendum mörkuðum.
Launahækkanir valda verðbólgu
Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin skýring verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 57% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er hækkun um 8 prósentustig frá síðustu könnun, og 26% til viðbótar setja hann í annað sæti. Samanlagt setja því 83% stjórnenda launahækkanir sem mesta eða næst mesta verðhækkunartilefnið. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 31% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 34% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.
Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni og stærri kannanir skiptast á með 9 og 20 spurningum.
Þessi könnun var gerð á tímabilinu 10. febrúar til 6. mars 2023 og voru spurningar 20.
Í úrtaki voru 404 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 195, þannig að svarhlutfall var 48%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.