21. ágúst 2024

Biðin lengist enn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Biðin lengist enn

Verðbólguvæntingar þurfa að gefa eftir

Það er miður að háir stýrivextir Seðlabankans hafi ekki enn náð að koma böndum á verðbólguna með þeim hætti sem stefnt var að. Ákvörðun nefndarinnar kom hins vegar ekki á óvart enda í takti við nær einróma spár greinenda. Þó ýmis merki séu um kólnun í hagkerfinu eru ákveðnir lykilmælikvarðar sem nefndin horfir til, svo sem verðbólguvæntingar, að reynast seigir. Það verður að teljast fremur ólíklegt að vaxtalækkunarferlið hefjist áður en verðbólga og sérstaklega verðbólguvæntingar gefa eftir.

Enn er einhver spenna á vinnumarkaði en útlit er fyrir að hún fari dvínandi. Atvinnuleysi er enn lítið og atvinnuþátttaka mikil. Skortur á starfsfólki hefur minnkað töluvert en mælist þó enn nokkur. Hægt hefur á fjölgun starfa og hlutfall lausra starfa og atvinnuleysis hefur lækkað.

Árshækkun íbúðaverðs stendur í 11%. Framlag húsnæðis til verðbólgu hefur verið talsvert og er hátt vaxtastig tekið að hamla framboðsaukningu á húsnæði. Seðlabankastjóri hefur talað um að þenslumerki séu í byggingariðnaði en hafa ber í huga að þar undir eru atvinnuvegafjárfesting og innviðafjárfesting, ekki eingöngu íbúðauppbygging.

Þetta verður að teljast áhyggjuefni þar sem mikilvægt er að koma betra jafnvægi á íbúðamarkað. Takist ekki að tryggja framboð í takt við þörf gæti húsnæðismarkaður viðhaldið verðbólguþrýstingi. Verðbólgan undanfarið stafar þó ekki eingöngu af hækkun húsnæðisverðs en verðhækkanir hafa verið á breiðum grunni enda hefur eftirspurn í hagkerfinu verið sterk að undanförnu og miða aðgerðir Seðlabankans fyrst og fremst að því að tempra hana.

Stóra álitamálið er ef til vill það hvort mat Seðlabankans á jafnvægisraunvöxtum sé rétt og þar af leiðandi hvort aðhaldsstigið sé viðeigandi. Það er erfitt að vita hverju sinni og jafnan ekki ljóst fyrr en eftir á. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans hafa raunvextir bankans, sem standa nú í 4,2%, ekki verið hærri síðan 2009 og deila má um hvort þeir séu rétt stilltir af í ljósi efnahagshorfa. Þá tekur tíma fyrir peningastefnuna að miðlast um hagkerfið og mikilvægt að vaxtalækkunarferlið hefjist á viðeigandi tíma þannig að ekki sé verið að halda aftur af fjárfestingu umfram það sem tilefni er til.

Samtök atvinnulífsins