10. október 2024

Bætt samkeppnishæfni Norðurlanda aðkallandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bætt samkeppnishæfni Norðurlanda aðkallandi

Sameiginleg fréttatilkynning forsætisráðuneytisins, SA og SI

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, fundaði í dag með formönnum og framkvæmdastjórum norrænna atvinnurekendasamtaka í Reykjavík. Fundurinn fór fram í tilefni af árlegum formannafundi norrænu samtakanna sem haldinn er að þessu sinni á Íslandi.

Á fundinum ræddu forsætisráðherra og fulltrúar norrænu samtakanna nauðsyn aukins samstarfs Norðurlandanna innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á sviði samkeppnishæfni og nýsköpunar. Samstaða var meðal fundarmanna um að leggja þurfi áherslu á bætta samkeppnishæfni og aukið áfallaþol hagkerfa Norðurlandanna, ekki síst í ljósi alvarlegs ástands öryggismála í Evrópu og aukinnar spennu í alþjóðastjórnmálum. Þá áréttuðu fundarmenn áframhaldandi stuðning við markmið og sýn Stokkhólmsyfirlýsingarinnar sem samþykkt var í kjölfar fundar forsætisráðherra Norðurlandanna í maí á þessu ári.

Norðurlöndin eru í kjörstöðu til að taka forystuhlutverk hvað varðar samkeppnishæfni og nýsköpun, græn orkuskipti, vinnumarkaðsmál og öryggis- og viðbúnaðarmál innan EES á komandi árum. Norðurlöndin eiga jafnframt sameiginlega hagsmuni á innri markaðnum sem kalla á aukið samstarf til að efla áhrif þeirra innan Evrópu.

Innrás Rússlands í Úkraínu hefur dregið úr orkusjálfstæði álfunnar og afhjúpað áskoranir sem mæta þarf með skýrri stefnu og samhæfðum viðbrögðum. Norðurlöndin eru leiðandi í grænu orkuskiptunum, en formennirnir og forsætisráðherra voru einhuga um nauðsyn þess að auka græna orkuframleiðslu og tryggja áframhaldandi leiðtogahlutverk landanna í loftslagsmálum og orkuöryggi.

Fundur formannanna með forsætisráðherra markar upphafið á tveggja daga heimsókn þeirra til Íslands og munu þeir meðal annars eiga samtöl við fjölda hagsmunaaðila og heimsækja íslensk nýsköpunarfyrirtæki meðan á dvöl þeirra stendur.

Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að standa fremst meðal þjóða þegar kemur að lífskjörum, nýsköpun og tækifærum til að sækja fram. Íslenska hagkerfið hefur stækkað sérstaklega hratt undanfarin ár, fjöldi nýrra fyrirtækja vaxið og dafnað, spennandi störfum fjölgað og staða samfélagsins alls hefur styrkst.

Það skiptir miklu máli að Norðurlöndin viðhaldi þessari sterku stöðu sinni. Við þurfum að tala einni röddu fyrir því að efla og viðhalda samkeppnishæfni okkar og Evrópu í stærra samhengi, auk þess að verja okkar sameiginlegu grunngildi sem víða er ógnað. Í þessu samhengi er grundvallaratriði að tryggja nægilegt framboð orku og gæta þess að íþyngjandi regluverk hamli ekki framtakssemi, með tilheyrandi áhrifum á lífskjör.

Það var sérstaklega gagnlegt að ræða þessi mál með forsvarsfólki atvinnulífsins á Norðurlöndunum í dag.

- Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands

Heimsókn Norðurlanda - Nordic Confederations of Enterprise

Norræn systrasamtök Samtaka atvinnulífsins funduðu í dag með forsætisráðherra

Það er okkur mikill heiður að taka á móti nánum samstarfsaðilum okkar og halda okkar árlega formannafund að þessu sinni hér á Íslandi. Norræn fyrirtæki eru ekki aðeins tengd á viðskiptalegum grunni heldur deilum við sömu samfélagslegu gildum. Þau gildi hafa einnig verið undirstaða norræna velferðarkerfisins. Öflugt atvinnulíf á Norðurlöndunum er mikilvæg stoð samfélagsins og stendur fjölbreytt flóra fyrirtækja á svæðinu nú frammi fyrir því verkefni að tryggja sjálfbæran hagvöxt og skapa ný störf, auk þess að styðja við ríkisstjórnir landa sinna með því að leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi og viðbragðsgetu Norðurlandanna.

Forsenda þess að við náum þessum markmiðum er áframhaldandi þétt samstarf Norðurlandanna. Markmiðunum verður þó ekki náð án öflugs og skilvirks Evrópusambands sem vinnur að sömu markmiðum. Nýtt kjörtímabil innan Evrópusambandsins er tækifæri til að forgangsraða upp á nýtt, með bætta samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja í öndvegi.

- Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, og Árni Sigurjónsson, formaður SI

Samtök atvinnulífsins