1 MIN
Alvarleg þróun á vinnumarkaði
Á árinu 2016 var nýgengi örorku í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, sem felur í sér að innlendum starfsmönnum fækkaði á vinnumarkaði. Með náttúrulegri fjölgun starfsfólks er átt við fjölgun íbúa á aldursbilinu 16-74 ára miðað við 80% atvinnuþátttöku. Ekki er reiknað með aðflutningi erlendra starfsmanna í náttúrulegri fjölgun.
Á árinu 2016 var nýgengi örorku í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, sem felur í sér að innlendum starfsmönnum fækkaði á vinnumarkaði. Með náttúrulegri fjölgun starfsfólks er átt við fjölgun íbúa á aldursbilinu 16-74 ára miðað við 80% atvinnuþátttöku. Ekki er reiknað með aðflutningi erlendra starfsmanna í náttúrulegri fjölgun.
Með nýgengi örorku er átt við fjölda þeirra sem fá úrskurð um 75% örorkumat. Það jafngildir í flestum tilvikum því að viðkomandi einstaklingar séu að mestu útskrifaðir af vinnumarkaði. Draga mun verulega úr náttúrulegri fjölgun starfsfólks á komandi árum og nálgast stöðnun eftir rúman áratug.
Sé gert ráð fyrir að nýgengi örorku verði svipað og að meðaltali árin 2010-2015 mun framboð af innlendum starfsmönnum stöðugt fara minnkandi á komandi árum. Það eykur þörf fyrir innflutning erlendra starfsmanna, bæði vegna örorkutíðni og þarfar til að manna þau störf sem verða til vegna hagvaxtar. Miðað við hóflegan hagvöxt má ætla að árleg þörf fyrir innflutta starfsmenn verði á billinu 2.500 til 4.000, ef álíka margir Íslendingar flytja til og frá landinu.
Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í vikunni þar sem rætt var við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, og stjórnarformann VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs. Á síðasta ári fengu 1.796 einstaklingar úrskurð um 75 prósent örorkumat. Það er 22 prósentum fleiri en árið á undan og var jafn mikil fjölgun á meðal karla og kvenna. Aukning í nýgengi örorkumats var 19 prósent árið 2015, um 23 prósent á meðal kvenna og 14 prósent hjá körlum. Sé litið til síðustu tíu ára voru 44 prósent fleiri nýir öryrkjar árið 2016 en árið 2007.
„Tölurnar tala sínu máli. Þrátt fyrir það mikla og góða starf sem við höfum verið að vinna hjá VIRK við að aðstoða fólk sem lendir í vanda, og við höfum náð miklum árangri, þá heldur samt þessi þungi straumur áfram sem hefur verið undanfarinn áratug. Og þetta er algjörlega óviðunandi staða,“ segir Hannes G. Sigurðsson.
Aukning í nýgengi örorkumats hjá konum á aldrinum 20-39 var um 60 prósent í fyrra en um 12 prósent hjá konum á aldrinum 40-64 ára. Þessu er öfugt farið meðal karla. Þar er aukning í aldurshópnum 20-39 ára um 19 prósent en 28 prósent í aldurshópnum 40-64 ára.
Hannes segir það alvarlegt að svona margir einstaklingar hverfi varanlega af vinnumarkaði vegna vandamála sem ættu í mörgum tilvikum að vera meðhöndlanleg. „Sem er þá yfirleitt stoðkerfisvandi eða einhvers konar geðrænn vandi,“ segir hann.
Í gögnum frá VIRK kemur fram að ýmsar kerfislegar ástæður leiði til þess að konur fari frekar á endurhæfingarlífeyri eða örorkulífeyri eftir að hafa verið hjá VIRK. Það skýrist meðal annars af greiðslu skattfrjáls ótekjutengds barnalífeyris, sem verður til þess að lítill tekjulegur hvati er fyrir konur að fara í vinnu. Sérstaklega ef konurnar eiga börn.
Hannes segir mikilvægt að breyta örorkumati þannig að horft sé á starfsgetu einstaklings í stað þess að horfa á skort á getu hvers einstaklings til að starfa. Umræða um slíkar breytingar hafi staðið yfir frá árinu 2007, en ekki enn ratað í lög.
„Það er alls ekki rétt nálgun að þessum vanda að vera með þessa áherslu á vangetuna frekar en getuna. Það á að beina sjónum að því hvað fólk getur og efla styrkleika þess,“ segir Hannes.
Tengt efni: Frétt Fréttablaðsins á Vísir.is