1 MIN
Villuljós verkalýðsforingja
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, birti pistil á Pressunni 15. desember 2014. Þar dregur hann rangar ályktanir um launaþróun á vinnumarkaði og birtir villandi tölur. Í greininni heldur hann því fram að laun forstjóra hafi hækkað um 251% en verkafólks um 188% milli áranna 1998 og 2013. Út frá þessum tölum fær hann það út að misskipting og óréttlæti hafi aukist. Launavísitölur Hagstofunnar um launaþróun starfsstétta sýna hins vegar að launaþróun stjórnenda var lakari en annarra síðasta áratuginn og að hækkun launataxta verkafólks hefur verið langt umfram hækkun launavísitalna.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, birti pistil á Pressunni 15. desember 2014. Þar dregur hann rangar ályktanir um launaþróun á vinnumarkaði og birtir villandi tölur. Í greininni heldur hann því fram að laun forstjóra hafi hækkað um 251% en verkafólks um 188% milli áranna 1998 og 2013. Út frá þessum tölum fær hann það út að misskipting og óréttlæti hafi aukist. Launavísitölur Hagstofunnar um launaþróun starfsstétta sýna hins vegar að launaþróun stjórnenda var lakari en annarra síðasta áratuginn og að hækkun launataxta verkafólks hefur verið langt umfram hækkun launavísitalna.
Vilhjálmur Birgisson fellur í þá gildru að leggja að jöfnu breytingu meðallauna starfsstéttar og launabreytingu hennar. Það gefur ranga ranga mynd, því meðallaun í úrtaksrannsókn geta hækkað eða lækkað milli ára þótt laun allra í úrtakinu séu óbreytt. Ástæðan er breyting í samsetningu úrtaksins.
Umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um launaþróun í landinu hefur fyrst og fremst byggt á gögnum Hagstofunnar. Launavísitölur Hagstofunnar er sá mælikvarði sem notaður er við mat á launabreytingum og þær eru birtar sundurliðaðar eftir starfsstéttum frá árinu 2005. Fyrir þann tíma liggja ekki fyrir launavísitölur fyrir stjórnendur eða aðrar helstu starfsstéttir. Upplýsingar um meðallaun liggja hins vegar fyrir frá árinu 1998, en á tímabilinu 1998-2004 safnaði Kjararannsóknarnefnd þessum gögnum.
Hagstofan hefur unnið að því að breikka úrtak í launarannsóknarinnar með það að markmiði að ná til alls almenna vinnumarkaðarins. Þeirri vinnu er ekki lokið og vantar enn nokkrar mikilvægar atvinnugreinar í úrtakið. Veruleg breyting varð á úrtakinu árið 2005 þegar fjármálageirinn bættist við og aftur árið 2012 þegar rafmagns-, hita- og vatnsveitur bættust við. Í athugasemdum á vef Hagstofunnar, sem birtast með töflunum er bent á að „nýjum atvinnugreinum er bætt við gagnsafnið árin 2005 og 2012.“ Og síðar segir: „Þetta er mikilvægt að hafa í huga við samanburð á milli ára.“ Þetta þýðir að samanburður á breytingum milli ára þegar nýjar atvinnugreinar bætast við sé ómarktækur og villandi.
Fyrir liggur að bæði fjármála- og orkufyrirtækin greiða laun yfir meðallaunum í landinu og af þeim sökum hækkuðu meðallaun í töflum Hagstofunnar aukalega þessi ár. Hækkunin varð mest í hópi stjórnenda og sérfræðinga enda hefur hlutfall hátt launaðra einstaklinga verið hærra í þessum tveimur atvinnugreinum en öðrum um árabil. Innkoma þeirra í launarannsókn Hagstofunnar hefði því hækkað niðurstöður um meðallaun jafnvel þótt grunnlaun allra hefðu verið óbreytt.
Hagstofa Íslands lýsir ekki launabreytingum með breytingum meðallauna. Hagstofan byggir launavísitölurnar sem hún reiknar út á breytingum reglulegra launa sömu einstaklinga í sömu störfum í sömu fyrirtækjum milli tveggja tímabila og notar fastar atvinnugreinavogir til að vega saman mismunandi hópa. Með þeim hætti er leitast við að lágmarka áhrif úrtakssveiflna. Stjórnendahópurinn er fámennur og vegur aðeins 4-5% í launavísitölu í heild, eða um 1.000 manns, og er af þeirri ástæðu mun næmari fyrir úrtakssveiflum en hópur verkafólks sem vegur rúmlega þriðjung í launavísitölunni, og telur um 10.000 manns.
Launavísitala Hagstofunnar sýnir allt aðrar launabreytingar frá árinu 2005 en fást með því að skoða breytingar meðallauna. Það er ekki einfalt mál að búa til launavísitölur með úrtaksaðferðum fyrir allt atvinnulífið, einstakar atvinnugreinar og starfsstéttir. Hagstofan gerir það eins faglega og henni er unnt og á þeim grunni verður að byggja umræður um launaþróun starfsstétta, einstakra starfa eða atvinnugreina hér á landi. Annars fer umræða um launamál út um víðan völl, eins og pistill Vilhjálms Birgissonar ber vitni um.
Í meðfylgjandi línuriti eru sýndar launavísitölur Hagstofunnar fyrir stjórnendur og verkafólk. Þær sýna að regluleg laun stjórnenda hækkuðu um 60% milli áranna 2005 og 2013 en verkafólks um 84%.