1 MIN
Stjórnmálamenn standi við stóru orðin
Á Alþingi sitja þingmenn þessa dagana og forgangsraða fjármunum sem fólk og fyrirtæki greiða í ríkiskassann á næsta ári. Engin áform eru um að lækka tryggingagjaldið árið 2016 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé hverfandi. Það hefur verið 3% síðustu 12 mánuði og fer enn minnkandi, en tryggingagjaldið er svipað og þegar atvinnuleysi var 8-9% á árunum 2009-2010. Árlegt gjald er um 20-25 milljörðum króna hærra en það ætti að vera miðað við stöðuna á vinnumarkaði. Þetta veldur vonbrigðum því gjaldið var hækkað mikið í kjölfar hrunsins til að greiða þeim fjölmörgu sem misstu vinnuna bætur.
Á Alþingi sitja þingmenn þessa dagana og forgangsraða fjármunum sem fólk og fyrirtæki greiða í ríkiskassann á næsta ári. Engin áform eru um að lækka tryggingagjaldið árið 2016 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé hverfandi. Það hefur verið 3% síðustu 12 mánuði og fer enn minnkandi, en tryggingagjaldið er svipað og þegar atvinnuleysi var 8-9% á árunum 2009-2010. Árlegt gjald er um 20-25 milljörðum króna hærra en það ætti að vera miðað við stöðuna á vinnumarkaði. Þetta veldur vonbrigðum því gjaldið var hækkað mikið í kjölfar hrunsins til að greiða þeim fjölmörgu sem misstu vinnuna bætur.
Í orði en ekki á borði
Samtök atvinnulífsins efndu til opins umræðufundar í Hörpu 18. apríl 2013 með formönnum fimm stærstu stjórnmálaflokkanna. Algjör samstaða reyndist þá meðal formanna Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um að lækka tryggingagjaldið - fáeinum dögum fyrir Alþingiskosningarnar.
Þessi þverpólitíska samstaða birtist á ný á sambærilegum umræðufundi SA um fjárlög ríkisins sem haldinn var í Hörpu 18. nóvember sl. Þar lýstu fulltrúar allra flokka á Alþingi að rétt væri að lækka tryggingagjaldið. Samt eru engin merki sjáanleg um að þingmenn ætli standa við þessi orð sín þegar önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er framundan.
Fjölmargir kreppuskattar voru lagðir á í kjölfar hruns til að stoppa upp í fjárlagagatið. Það hefur nú tekist en skattheimta á atvinnulífið hefur aukist mikið. Árleg tekjuaukning ríkisins af þeim völdum nemur 85 milljörðum en niðurskurður útgjalda hefur verið mun minni en áformað var. Ekki er að sjá neinn grundvallarmun á skattastefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni sat. Vinstri er hægri og hægri vinstri.
Skapandi skattheimta
Tryggingagjaldið kemur harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem flest ný störf verða til. Fyrirtæki sem er með tíu starfsmenn í vinnu greiðir í raun laun þess ellefta en hann fær ekki að koma í vinnuna. Hátt tryggingargjald minnkar getu fyrirtækja til að hækka laun eða ráða fleiri í vinnu. Það kemur sérstaklega illa niður á fyrirtækjum í skapandi greinum og takamarkar svigrúm fyrirtækja til að stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun. Einfaldasta leiðin til að standa við áform um að efla lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki, sem byggja á þekkingu, hugviti, nýsköpun og sköpunargleði er að lækka tryggingagjaldið.
Kjarasamningar í uppnámi
Lækki tryggingagjaldið ekki á næsta ári eru kjarasamningar fyrir tímabilið 2016-2018 í uppnámi en þeir koma til endurskoðunar í febrúar. Samningarnir voru gerðir í kjölfar hörðustu átaka á vinnumarkaði í áratugi og yfirvofandi hættu á allsherjarverkfalli sem hefði lamað atvinnulífið og einangrað landið á tímum mikillar uppsveiflu í ferðaþjónustu. Samningarnir eru atvinnulífinu dýrir en var ætlað að skapa frið á vinnumarkaði til ársloka 2018. Gerðardómur í málum BHM og hjúkrunarfræðinga bjó til nýja launastefnu með þeim afleiðingum að forsendur samninga á almennum vinnumarkaði brustu. Rammasamkomulag samningsaðila á almennum og opinberum markaði frá 27. október sl. er ætlað að taka á þeirri stöðu og koma í veg fyrir upplausn á vinnumarkaðnum. Það kostar atvinnulífið verulegar viðbætur við kjarasamninga sem þegar eru allt of dýrir. Hluti þess kostnaðarauka verður væntanlega í formi hækkaðs iðgjalds vinnuveitenda í lífeyrisjóði og m.a. af þeirri ástæðu er brýnt að ríkið komi til móts við atvinnulífið með lækkun tryggingagjalds.
Á sama tíma heldur ríkið eftir tugum milljörðum af skattfé sem er ætlað að fjármagna atvinnuleysi sem að mestu er horfið. Samtök atvinnulífsins skora á Alþingi að lækka tryggingagjaldið og hjálpa atvinnulífinu við að viðhalda friði á vinnumarkaði og hleypa á sama tíma lífi í ný fyrirtæki frumkvöðla sem eru nú að feta sín fyrstu skref í atvinnulífinu. Nú er tíminn til að huga að verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.