1 MIN
Sjónarmið og athugasemdir SA við frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn
Samtök atvinnulífsins hafa sent Samkeppniseftirlitinu umsögn um frummatsskýrslu þess um eldsneytismarkaðinn. Samkeppniseftirlitið óskaði eftir sjónarmiðum og athugasemdum SA við skýrsluna en í henni er mikill fróðleikur m.a. um sögulega þróun eldsneytismarkaðarins hér á landi.
Samtök atvinnulífsins hafa sent Samkeppniseftirlitinu umsögn um frummatsskýrslu þess um eldsneytismarkaðinn. Samkeppniseftirlitið óskaði eftir sjónarmiðum og athugasemdum SA við skýrsluna en í henni er mikill fróðleikur m.a. um sögulega þróun eldsneytismarkaðarins hér á landi.
Meginniðurstöður skýrslunnar um eldsneytismarkaðinn árið 2012 virðast þær í fyrsta lagi að ekki koma fram vísbendingar um að fyrirtækin sem starfa á markaðnum fari í bága við samkeppnislög í rekstri sínum. Í öðru lagi að full samkeppni ríki um sölu á eldsneyti til fyrirtækja. Í þriðja lagi að tilteknar aðstæður takmarki samkeppni í smásölu bifreiðaeldsneytis.
Samkeppniseftirlitið telur að álagning á bifreiðaeldsneyti í smásölu árið 2012 hafi verið óeðlilega há en útreikningar eftirlitsins á því hvað ætti að vera eðlilegt bensínverð á Íslandi eru ekki sannfærandi.
Vantar mat
Í umsögn SA sem má nálgast í heild hér að neðan kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi lagt fram ýmsar tillögur og hugmyndir til úrbóta á eldsneytismarkaðnum. Stofnunin hafi komist að því að olíufélögin séu ekki að skila umframarðsemi en ástæðuna megi að öllum líkindum rekja til þess að hér sé „gríðarmikill fjöldi eldsneytisstöðva og nýting á þeim léleg í alþjóðlegum samanburði.“
Samtök atvinnulífsins telja það galla að ekkert mat er lagt á áhrif af einstaka tillögum þótt almennt sé þeim ætlað að auka samkeppni.
„Ekki er þeim heldur raðað í forgangsröð þannig að unnt sé að sjá hvað Samkeppniseftirlitið telji mikilvægast og geti skilað mestum árangri. Mikilvægt er að svo verði gert fyrirfram og það mat kynnt og lagt fram til umsagnar þannig að gagnsæi ríki um alla þætti mats stofnunarinnar.“
Ekki horft til framtíðar
Samtök atvinnulífsins telja að hafa verði í huga að úttekt stofnunarinnar á eldsneytismarkaðnum taki fyrst og fremst til ársins 2012 en að aðgerðir sem Samkeppniseftirlitið kunni að grípa til muni taka gildi fjórum til fimm árum síðar og horfa til frambúðar en aðstæður á eldsneytismarkaði breytast nú hratt. Neytendum bjóðast t.d. nýir möguleikar til að draga úr eldsneytiskostnaði með auknu framboði bíla sem nýta raforku eða metan að hluta eða öllu leyti sem eldsneyti. Tækniþróun undanfarinna ára kemur fram í sífellt sparneytnari bílvélum. Ekki er minnsti vafi á að þessi þróun mun halda áfram og að á næstu áratugum munu olíufélögin þurfa að búa sig undir grundvallarbreytingar á hefðbundnum eldsneytismarkaði sem ekkert er um fjallað í skýrslu Samkeppniseftirlitsins.
Regluverk ýti undir samkeppni
Samtök atvinnulífsins taka undir með Samkeppniseftirlitinu um að nauðsynlegt sé að regluverk hins opinbera og framkvæmd stjórnvalda á því ýti undir samkeppni og tryggi auðveldan aðgang nýrra aðila að mörkuðum. Eðlilegt er að taka til endurskoðunar lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara og sömuleiðis að meta áhrif laga, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, á samkeppni. Einnig er mikilvægt að almennar kröfur til fyrirtækjanna og eftirlit, leyfisveitingar, kröfur til búnaðar, tækni og annarra þátta skerði ekki samkeppnishæfni þeirra.
Alþekkt er að stjórnvöld hafa með reglusetningu innleitt reglur meira íþyngjandi en í samkeppnislöndunum og það hefur áhrif á kostnað fyrirtækjanna. Einnig er æskilegt að skoðaður verði kostnaður fyrirtækjanna vegna innheimtu og álagningar opinberra gjalda sem bæði eru lögð á sem föst krónutala og einnig sem hlutfallsgjald. Dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum var lagt svo kallað kolefnisgjald á flugvélaeldsneyti sem innheimt var í tolli en vegna þess að einstökum ríkjum er samkvæmt alþjóðasamningum óheimilt að skattleggja
alþjóðaflugsamgöngur varð gjaldið að nokkurs konar hringrás fjármuna úr sjóðum fyrirtækjanna þar til ríkið endurgreiddi það síðar.
Aðdróttunum hafnað
Samtök atvinnulífsins mótmæla sérstaklega aðdróttunum Samkeppniseftirlitsins um að eignarhald eða önnur aðkoma lífeyrissjóða að olíufélögum sé til þess fallið að hafa áhrif á eða draga úr samkeppni. Lífeyrissjóðirnir gæta hagsmuna almennings í landinu og yrði aldrei liðið að beita sér á þann hátt sem ýjað er að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Engar vísbendingar fylgja heldur sem styðja málflutning eftirlitsins og hann því marklaus.
Hefðbundin hótun
Skýrslu Samkeppniseftirlitsins lýkur á hefðbundinn hátt með hótun um að ef annað dugi ekki verði tekin upp verðstýring á eldsneytismarkaði. Stofnunin mun því taka ákvörðun um hvaða starfsemi núverandi olíufyrirtækjum er heimilt að stunda og hvaða starfsemi þau þurfi að losa sig við. Samkeppniseftirlitið mun ákveða hverjir megi eiga olíufélög og hverjir ekki. Það mun ákveða hve margar bensínstöðvar mega vera og hvar. Það mun ákveða hvenær breyta megi verði og svo hvert verðið skuli verða. En það er engan veginn víst að þessar aðgerðir muni skila neytendum ábata sem stofnunin vonast eftir.
Miðað við meginniðurstöður skýrslunnar þar sem ekki er upplýst um nein brot á lögum, ósannfærandi mat á hvert eigi að vera eldsneytisverð í smásölu, ekkert mat lagt á hvað áhrif einstök úrræði yfirvalda geti haft á eldsneytisverð verður ekki séð að efni sé til breytinga á skipulagi fyrirtækja eða uppskiptingu þeirra. Það liggur heldur ekki í augum uppi hvernig markaðurinn muni þróast á næstu árum þrátt fyrir ofurtrú stjórnvalda á eigin getu til að sjá fyrir óorðna hluti.
Sjá nánar: