1 MIN
Ófriðarbál á vinnumarkaði?
Það er þrennt sem gæti sett áform um nýtt íslenskt vinnumarkaðslíkan í uppnám og kveikt ófriðarbál á vinnumarkaði. Óvissa um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði, ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun þingmanna og kröfur kennara um að að laun þeirra hækki meira en gert er ráð fyrir í kjarasamningum eða svokölluðu Salek-samkomulagi. Átök eru í kortunum og hætta er á að kjarasamningum verði sagt upp og að þeir verði lausir næsta vor.
Það er þrennt sem gæti sett áform um nýtt íslenskt vinnumarkaðslíkan í uppnám og kveikt ófriðarbál á vinnumarkaði. Óvissa um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði, ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun þingmanna og kröfur kennara um að að laun þeirra hækki meira en gert er ráð fyrir í kjarasamningum eða svokölluðu Salek-samkomulagi. Átök eru í kortunum og hætta er á að kjarasamningum verði sagt upp og að þeir verði lausir næsta vor.
Fjallað var um málið í Spegli RÚV og á vefnum. Þar segir m.a.:
„Frumvarp sem lagt var fram á Alþingi sem kvað á um jöfnun lífeyrisréttinda ásamt milljarða framlagi ríkis- og sveitarfélaga til að rétta við lífeyrissjóði opinbera starfsmanna og tryggja að núverandi greiðendur í sjóðina bæru ekki skarðan hlut frá borði varð ekki að lögum á Alþingi áður en því var frestað vegna kosninganna. Frumvarpið byggði á samkomulagi ríkis- og sveitarfélaga annars vegar og hins vegar helstu launþegasamtaka opinbera starfsmanna. Það varð ekki að lögum því þegar til kastanna kom töldu launþegasamtökin að texti frumvarpsins væri ekki í samræmi við sjálft samkomulagið. Ekkert frumvarp fyrir áramót þýðir að mótframlag ríkis og sveitarfélaga í lífeyrissjóði hækkar um 5% um áramótin. Hækkun iðgjalda jafngildir launahækkunum og samkvæmt kjarasamningum sem gilda til 2018 geta launamenn á almenna markaðinum farið fram á sambærilega hækkun. Ef samningar um það takast ekki fyrir 28. febrúar gætu samningar orðið lausir í maí.
„Ég fæ trauðla séð að við hjá Samtökum atvinnulífsins getum fallist á það að fara hækka laun enn frekar ofan í þær alltof miklu launahækkanir sem hafa verið á síðustu misserum og fram undan eru á næsta ári. Þannig að hugsanlega gæti virkjast uppsagnarheimild í kjarasamningum sem yrðu þá lausir í maí,“ segir Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Ef ný ríkisstjórn brettir upp ermar og frumvarp um lífeyrismálin verður að lögum fyrir áramót þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þetta mál verði þess valdandi að hleypa öllu í bál og brand. Óvíst er hvenær ríkisstjórn verður mynduð en kippa þarf málinu í lag fyrir áramót því ekki víst að þeir milljarðar sem eru eða voru í boði verði það eftir áramót.
Ófriður vegna Kjararáðs
Rammasamkomulagið eða svokallað Salek-samkomulag og kjarasamningar gera ráð fyrir að laun hækki um ekki meira en 32% miðað við stöðu launa í nóvember 2013 og fram til ársloka 2018. Ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun alþingismanna hefur hleypt illu blóði í launþegahreyfinguna. Laun þingmanna hækka um 75 prósent á viðmiðunartíma rammasamkomulagsins sem gerir ráð fyrir 32% hækkun almennra launamanna. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir að ef frumvarp um lífeyrissjóðina verði ekki að lögum muni það hafa áhrif á vinnumarkaðinn.
„Svo hefur úrskurður Kjararáðs sannarlega haft þau áhrif að það er mikil órói á vinnumarkaði. Þegar þeir sem eru með hæstu launin eru að fá launahækkanir langt umfram það sem er að gerast á vinnumarkaði,“ segir Elín Björg.
Ófriðarbálið sem blossað hefur upp vegna ákvörðunar Kjararáðs væri hugsanlega hægt að slökkva ef Alþingi samþykkti að draga til baka eða milda þessar hækkanir. Óvíst er hins vegar hvenær þingið verður kallað saman.
Enn ein kollsteypan
Grunnskólakennarar hafa í tvígang fellt kjarasamninga og freista þess nú í þriðja sinn að ná samningum. Deilan er komin inn á borð sáttasemjara en eftir því sem næst verður komist hefur fundur ekki verið boðaður. Kennarar eru ekki bundnir af Salek-samkomulaginu en það eru hins vegar viðsemjendur þeirra, sveitarfélögin. Launahækkanir í síðasta samningnum, sem var felldur, voru rúmlega 3 prósent yfir 32 prósenta markinu þannig að sveitarfélögin eiga erfitt með að skrifa undir samning sem kveður um enn meiri umframhækkanir miðað við Salek. Ef hins vegar kennara ná að merja út meiri hækkanir geta launamenn á almenna markaðinum farið fram á sambærilegar hækkanir strax á næsta ári. Það er líka við búið að fleiri stéttir rísi upp og fari fram á hækkanir í ljósi þess að þær telja sig hafa dregist aftur úr. Markmiðið með Salek eða því að taka upp önnur vinnubrögð var að hætta hinu endalausa höfrungahlaupi í kjaramálum sem hefur skilað takmörkuðum kaupmætti í vasann. En nú virðast höfrungarnir vera að lifna við að nýju.
„Mér sýnist að það séu allir komnir á rásbraut. Þannig að það séu líkur á því, nema eitthvað verulegt komi til, að við séum við fara í enn eina kollsteypuna með mikilli hækkun launa með afleiðingum sem við Íslendingar þekkjum vel,“ segir Elín Björg Jónsdóttir.
Smelltu til að hlusta á umfjöllun Spegilsins 10. nóvember 2016
Tengt efni:
Kjararáð stuðlar að upplausn á vinnumarkaði
Skrifað undir Salek-samkomulagið 27. október 2015