Samkeppnishæfni - 

12. október 2017

Icelandair hótel umhverfisfyrirtæki ársins

Umhverfismál

Umhverfismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Icelandair hótel umhverfisfyrirtæki ársins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Umhverfisfyrirtæki ársins er Icelandair hótel. Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók við verðlaununum á Hilton Reykjavík Nordica.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Umhverfisfyrirtæki ársins er Icelandair hótel. Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók við verðlaununum á Hilton Reykjavík Nordica.

Ragna Sara Jónsdóttir og Magnea Þórey Hjálmarsdóttir.


„Umhverfismál eru hluti af daglegri starfsemi Icelandair hótela. Það eru hagsmunir hótelanna að hugsa um umhverfið og að sem flestir aðrir geri það líka. Þess vegna hafa Icelandair hótel alltaf lagt áherslu á að miðla sinni reynslu til að auka líkurnar á því að fleiri fyrirtæki taki upp sambærilegt verklag til að vernda auðlindina okkar. 80% af öllum ferðamönnum sem koma til Íslands koma til að sjá fallegu náttúruna okkar. Ferðaþjónustan er stærsti atvinnuvegurinn okkar í dag og því enn mikilvægara að huga að þessum málum til að stuðla að sjálfbærni Íslands til framtíðar.“  Magnea Þórey Hjálmarsdóttir.

Umhverfisfyrirtæki ársins hefur látið til sín taka á sviði umhverfismála. Það hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi og sett sér metnaðarfull markmið.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.

„Umhverfisfyrirtæki ársins hefur látið til sín taka á sviði umhverfismála. Það hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi og sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hefur náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun.

Sem dæmi má nefna að stærsta starfsstöð fyrirtækisins hefur náð árlegum rafmagnssparnaði og kaldavatnssparnaði sem jafngildir meðalársnotkun rúmlega 100 heimila, og árlegum heitavatnssparnaði sem jafngildir meðalársnotkun 260 heimila. Þá hefur verið dregið úr magni úrgangs um 6 tonn á ári á þessari sömu starfsstöð þrátt fyrir að umsvif starfseminnar hafi vaxið gríðarlega. Áhrif fyrirtækisins eru mun víðtækari þar sem starfsstöðvarnar eru mun fleiri.

Það var eftir því tekið og til eftirbreytni hve vel fyrirtækinu hefur tekist að samþætta umhverfisstefnu allri sinni starfsemi. Allir starfsmenn fyrirtækisins fá þjálfun og fræðslu um umhverfisstefnu og umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins í gegnum nýliðaþjálfun og á sérstökum námskeiðum um umhverfismál. Þá hefur fyrirtækið hlotið viðurkenningu fyrir vel unnin störf í fræðslu og menntamálum starfsmanna.

Einnig er til fyrirmyndar hvernig fyrirtækið upplýsir og virkjar viðskiptavini í að taka þátt í að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins. Með því að deila þeirri vegferð sem fyrirtækið er á í sjálfbærnimálum með viðskiptavinum sínum og upplýsa þá um hvernig þeir geti tekið þátt í að fylgja umhverfisstefnunni, hvort sem það er með orkusparnaði, endurvinnslu, innkaupum eða umhverfisvænum samgöngum verða áhrifin af fyrirtækjarekstrinum enn víðtækari og til hvatningar fyrir aðra.“

Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík

Landsnet á framtak ársins á sviði loftslagsmála

- fyrir snjallnet á Austurlandi

 

Landsnet fékk verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði loftslagsmála fyrir snjallnet á Austurlandi. Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins veitti verðlaunum móttöku á Hilton Reykjavík Nordica.

Sigrún Björk Jakobsdóttir og Ragna Sara Jónsdóttir.

„Við erum mjög stolt af þessu verkefni og frábært að fá viðurkenningu á því að við séum að gera vel þegar kemur að verkefnum sem snúa að loftlagmálum og hlýnun jarðar. Snjallnetið á Austurlandi er verkefni sem margir komu að og fyrir okkur er viðurkenningin hvatning til að gera enn betur á vegferð okkar í átt að rafrænni grænni framtíð“  segir Sigrún Björk Jakobsdóttir.

Verkefnið sem í ár hlýtur viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.:

„Verkefnið sem í ár hlýtur viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, svokallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur:  M.a. aukin flutningsgeta upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla og einnig sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum.“

Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg verkefni komu til greina. 

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Samtök atvinnulífsins