Fréttir - 

12. október 2017

Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi

Í aðdraganda kosninga er misfarið með staðreyndir. Undanfarið hafa fjölmargir klifað á því að ójöfnuður sé sérstakt vandamál á Íslandi. Við þessu vandamáli sé brýnt að bregðast. Staðhæfingarnar hafa verið endurteknar svo oft að stór hluti landsmanna trúir þeim. Þessar fullyrðingar eru rangar í öllum atriðum.

Í aðdraganda kosninga er misfarið með staðreyndir. Undanfarið hafa fjölmargir klifað á því að ójöfnuður sé sérstakt vandamál á Íslandi. Við þessu vandamáli sé brýnt að bregðast. Staðhæfingarnar hafa verið endurteknar svo oft að stór hluti landsmanna trúir þeim. Þessar fullyrðingar eru rangar í öllum atriðum.

Bábilja 1. Ójöfnuður tekna er mikill á Íslandi – rangt!
Staðreyndirnar tala öðru máli. Tekjujöfnuður er meiri en á Íslandi en í öllum þeim löndum sem við berum okkur við. Með öðrum orðum er ójöfnuður tekna, eins og hann er mældur með Gini-stuðli, hvergi minni meðal OECD-ríkjanna, samkvæmt tölum frá OECD.

 

Bábilja 2. Ójöfnuður tekna hefur farið vaxandi á Íslandi – rangt!
Þá er því sífellt haldið fram að tekjuójöfnuður hafi vaxið undanfarin ár. Þetta er einnig rangt samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Ójöfnuður tekna hefur minnkað en ekki aukist á undanförnum árum. Ástæðuna má meðal annars rekja til þeirrar stefnu kjarasamninga undanfarinna ára að hækka lægstu laun hlutfallslega umfram hærri laun. Bilið er þar með að minnka og tekjujöfnuður að aukast.

Bábilja 3. Ójöfnuður eigna er mikill á Íslandi – rangt!
Þegar ljós hefur runnið upp fyrir því fólki sem hefur farið með staðlausa stafi um mikinn og vaxandi tekjuójöfnuð á Íslandi er gripið til fullyrðinga um að eignaójöfnuður sé mikið og sérstakt vandamál á Íslandi. Svo er ekki heldur samkvæmt gögnum frá Credit Suisse. Þar kemur fram að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi. Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki. Það er jákvæð fylgni milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra. Lægra menntunarstig dregur úr ójöfnuði. Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja. Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd, sú tilraun gekk ekki vel.

Eignajöfnuður er flókið hugtak og einfaldur samanburður erfiður. Inn í eignajöfnuð koma lýðfræði, menntunarstig og fleiri snúnar breytur. Ungar þjóðir með marga háskólanema geta til dæmis haft mikinn eignaójöfnuð þótt framtíð þeirra sé bjartari en eldri þjóðar með lágt menntunarstig þannig að stíga þarf varlega til jarðar. Þannig eru upphróp um ójöfnuð í eignum og tekjum án ígrundunar varhugaverð.

Bábilja 4. Ójöfnuður eigna hefur farið vaxandi á Íslandi – rangt!
Því hefur ekki einungis verið haldið fram að eignaójöfnuður sé mikið vandamál á Íslandi heldur að hann hafi farið vaxandi. Þetta er heldur ekki rétt samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Að baki eignum standa skuldir og eigið fé. Þar kemur fram að þau 10% heimila sem áttu mest eigið fé árið 2016 áttu 62% eiginfjár, en hlutfallið fór hæst í 86% árið 2010 og hefur farið lækkandi ár frá ári síðan þá. Meðaltal síðustu 20 ára frá árinu 1997 er að þau 10% heimila sem eigi mest eigið fé hafa átt um 64% eigin fjár. Jöfnuður dreifingar eigin fjár heimilanna er því meiri árið 2016 en hann hefur verið að meðaltali síðustu tuttugu ár.

Stjórnmálamenn vandi málflutning sinn
Það stendur ekki steinn yfir steini í síbiljunni um mikinn og vaxandi tekju- og eignaójöfnuð á Íslandi. Staðreyndirnar tala sínum máli en þær eru að tekjujöfnuður á Íslandi er meiri en í öllum viðmiðunarlöndum OECD. Úr tekjuójöfnuði hefur dregið verulega á undanförnum árum. Þá er eignaójöfnuður minnstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum skv. Credit Suisse og úr honum hefur dregið undanfarin ár. Jöfnuður eigin fjár heimilanna er meiri 2016 en hann hefur verið að meðaltali síðustu tuttugu ár. Það er óvandað að stjórnmálamenn byggi málflutning sinn á röngum fullyrðingum. Almenningur á betra skilið en að láta villa um fyrir sér. Stjórnmálamenn eiga að sjá sóma sinn í því að gera meiri kröfur til sjálf sín en það. Þeir taki það til sín sem eiga það.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. október 2017

Samtök atvinnulífsins