Sköpum samkeppnishæft atvinnulíf

Atvinnulíf

Samtaka um samkeppnishæft atvinnulíf

  1. Hófleg skattheimta, skattar skapa ekki verðmæti
  2. Einfaldar, skilvirkar og góðar reglur - afhúðun óskast
  3. Skilvirkara eftirlit

Samkeppnishæfni atvinnulífsins krefst samkeppnishæfs skattkerfis

Skattheimta er óvíða meiri en hér á landi.

Skattheimta er með mesta móti

Á Íslandi eru 4. hæstu skattarnir innan OECD. Þrátt fyrir það hafa ýmsar hækkanir á sköttum og gjöldum verið boðaðar.

Háir skattar:

  • Skerða alþjóðlega samkeppnisstöðu
  • Minnka fjárfestingar
  • Hægja á fjölgun starfa
  • Draga úr verðmætasköpun

Til lengri tíma leiðir mikil skattbyrði til hægari hagvaxtar og minni skatttekna.

Réttara væri að einblína á minni skattheimtu og einfaldara regluverk.

Skattar skapa ekki verðmæti… en verðmæti skapa skatttekjur

Hófleg skattheimta leyfir atvinnulífi að dafna og getur þannig skilað meiri skatttekjum en ef skattahlutföll væru hærri

Skattkerfi Íslands í neðstu deild?

Samkeppni skattkerfisins hefur farið versnandi

Ísland stendur illa í alþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni skattkerfa og situr í 34. sæti af 38 löndum innan OECD skv. úttekt Tax Foundation.

Vel hannað skattkerfi getur aflað ríkissjóði nægra tekna án þess að fæla frá fjárfestingu eða skapa óæskilega hvata.

Samkeppnishæft skattkerfi einkennist af lágum jaðarsköttum. Lönd með of háa jaðarskatta geta fælt fjárfesta frá og hamlað atvinnuskapandi fjárfestingu.

Einfaldara og skilvirkara skattkerfi styður við sjálfbæran vöxt efnahagsins sem eykur tekjur hins opinbera.

Skattalækkanir og umbætur í regluverki myndu skjóta stoðum undir næsta vaxtarskeið

Uppsöfnuð áhrif á landsframleiðslu á næsta kjörtímabili gætu numið 400 milljörðum ef umbætur yrðu innleiddar strax

Hóflegir skattar stuðla að verðmætasköpun

  • Rannsóknir hafa sýnt að skattalækkanir geta leitt til aukins hagvaxtar.*
  • Þá komst OECD að þeirri niðurstöðu að ef umbótatillögum þeirra varðandi regluverk í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu yrði hrint í framkvæmd væri hægt að auka landsframleiðslu um u.þ.b. 200 milljónir evra á ári.
  • Ef ný ríkisstjórn framkvæmdi skattalækkun sem næmi einni prósentu af landsframleiðslu strax í upphafi næsta árs og hrinti þegar í framkvæmd öllum tillögum OECD gætu uppsöfnuð áhrif á landsframleiðslu á næsta kjörtímabili numið 400 milljörðum.

Einföldun og afhúðun óskast – burt með blýhúðun

Allra hagur að reglur atvinnulífsins séu einfaldar, skilvirkar og góðar

Samræmdar reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) jafna samkeppnisstöðu og gæði löggjafar milli landa. Blýhúðun EES regluverks vinnur gegn því markmiði EES samningsins.

Íþyngjandi regluverk dregur úr;

  • Samkeppnishæfni
  • Fjárfestingum
  • Fjölgun starfa
  • Svigrúmi til launahækkana
  • Arðsemi rekstrar

Samkvæmt úttekt Forsætisráðuneytisins frá árinu 2016 ákváðu íslensk stjórnvöld að innleiða reglugerðir frá Evrópu með meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt var í þriðjungi tilfella. Úttekt ráðuneytisins á þróun reglubyrði atvinnulífsins yfir þrjú löggjafaþing sýndi jafnframt að lagasetning á atvinnulífið felur í sér að meirihluta íþyngjandi regluverk*. Skýrsla Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sýndi fram á að við innleiðingu EES-reglna í landsrétt árin 2010-2022 var um blýhúðun að ræða í yfir 40% tilvika.

Óþarflega íþyngjandi regluverk er efnahagslegt sjálfsmark!

Regluverk á Íslandi þarfnast einföldunar

Regluverk á Íslandi er töluvert flóknara og meira íþyngjandi heldur en hjá okkar nágrannaþjóðum. Hagfellt rekstrar- og fjárfestingarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki skilar þjóðhagslegum ávinningi.

PMR stuðull OECD mælir hversu íþyngjandi regluverk er fyrir starfsemi fyrirtækja. Stuðulinn byggir á 15 mismunandi flokkum, sem meta starfsumhverfi fyrirtækja. Flokkarnir fá jafna vigt en einn flokkur mælir t.d. kröfur sem stjórnsýslan gerir á fyrirtæki meðan annar mælir hvernig samskiptum stjórnvalda og fyrirtækja er háttað. Enn annar mælir hversu auðvelt það er að stofna fyrirtæki.

PMR stuðull Íslands er töluvert yfir meðaltali OECD og mikið hærri en stuðull annara Norðurlanda. Mikil tækifæri felast í því að færa regluverk nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Stjórnvöld ættu að greiða leið fyrirtækja, ekki leggja stein í götu þeirra.

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur úr 16. sæti niður í það 17. af 64 ríkjum samkvæmt nýjustu úttekt IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja.

IMD háskólinn metur samkeppnishæfni ríkja út frá fjórum lykilþáttum;

  • Efnahagslegri frammistöðu
  • Skilvirkni hins opinbera
  • Skilvirkni atvinnulífsins
  • Samfélagslegum innviðum

Samkeppnishæfni Íslands hefur almennt farið batnandi síðastliðinn áratug en stöðnun hefur verið að undanförnu. Hin Norðurlöndin standa okkur enn framar þegar kemur að samkeppnishæfni.

Ísland stendur hvað höllustum fæti þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu og fellur úr 45. sæti niður í 53. milli ára. Helstu veikleikar Íslands á því sviði eru alþjóðaviðskipti, alþjóðleg fjárfesting og verðlag. Ísland skorar heldur ekki hátt þegar kemur að skattastefnu en þar vermum við 41. sætið af 64 í úttekt IMD.

Sterk samkeppnishæfni er lykillinn að aukinni verðmætasköpun

Á Íslandi eru margar, fjölmennar og dýrar eftirlitsstofnanir

Hægt er að ná fram eftirliti með mun hagkvæmari og skilvirkari hætti

Umbótatækifæri í eftirliti

Óþarflega dýrt og óskilvirkt eftirlit er dragbítur á atvinnustarfsemi. Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs er Ísland með hlutfallslega fjölmennari eftirlitsstofnanir en öll hin Norðurlöndin. Fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirlit eru með þrefalt til sexfalt fleiri starfsmenn en sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum.

Hægt er að draga úr óhagræði við eftirlit til dæmis með:

  • Bættri lagaumgjörð – einungis væri stofnað til eftirlits ef sýnt hefur verið fram á samfélagslegan ábata af eftirlitinu
  • Sameiningu stofnana – t.d. sameining Neytendastofu, Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlits
  • Útvistun eftirlits – hægt væri að útvista framkvæmd heilbrigðiseftirlits til faggiltra einkaaðila

Mörg tækifæri til umbóta sem leiða að bættri samkeppnishæfni

Markvissar tillögur leiða til meiri ávinnings