Stöðugleika strax

Stöðugleiki

Samtaka um
efnahagslegan stöðugleika

  1. Ríkisfjármál í jafnvægi - hallalaus ríkissjóður strax árið 2026
  2. Vinnumarkaður í jafnvægi - breytum umgjörð sáttasemjara
  3. Húsnæðismarkaður í jafnvægi - byggjum meira, hagkvæmar og ódýrar

Efnahagslegur stöðugleiki krefst jafnvægis í ríkisfjármálum

Fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar ættu að vera hallalaus – vilji er allt sem þarf

Áframhaldandi hallarekstur er ekki valkostur

Umsvif hins opinbera í hagkerfinu eru með því mesta sem þekkist á byggðu bóli. Áframhaldandi hallarekstur kemur niður á komandi kynslóðum í formi aukinna vaxtagjalda og hærri skatta.

Hverjir ætla að setja hallalaus fjárlög strax árið 2026 á dagskrá?

Tryggja þarf hallalausan rekstur sem og aukin gæði ríkisútgjalda.

Sem stendur er ekki verið að nýta þekkt umbótaverkfæri, sem önnur lönd hafa nýtt sér með góðum árangri.

  • Endurmat útgjalda
  • Árangursmiðaða fjárlagagerð
  • Útgjaldareglu

Hvaða flokkar hyggjast nýta sér þessi verkfæri til að koma böndum á ríkisútgjöld?

Vaxtabyrði ríkissjóðs hefur hækkað umtalsvert síðastliðin ár

Sveiflukenndir markaðir hafa sýnt fram á mikilvægi hóflegra skulda til að lágmarka áhættu ríkissjóðs

Áhersla þarf að vera á niðurgreiðslu skulda

Þrátt fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs sé ekki hátt í alþjóðlegum samanburði er vaxtabyrðin þung. Skuldasöfnun er dýru verði keypt í formi hárra vaxtagjalda.

Óvarlegt er að treysta alfarið á hagvöxt, minnkun verðbólgu, lækkun vaxta eða eignasölu til að létta á vaxtabyrði. Frekari umbætur í ríkisrekstri gætu skapað svigrúm fyrir lækkun skulda og þannig skapað rými fyrir betri nýtingu þeirra takmörkuðu fjármuna sem ríkið hefur yfir að ráða.

Vaxtagjöld þarf að fjármagna með auknum tekjum, minnkun annarra útgjalda eða frekari lántöku. Þegar fjármagnskostnaður tekur til sín aukið súrefni sitja þarfari verkefni á hakanum.

Til að skapa svigrúm til þarfari útgjalda og/eða skattalækkana þarf að halda aftur af vaxtakostnaði.

Upptaka útgjaldareglu/stöðugleikareglu gæti aukið efnahagslegan stöðugleika

Útgjaldaregla er til þess fallin að koma betra jafnvægi á ríkisfjármál og þar með efnahagslífið í heild.

Í áliti sendinefndar AGS frá því í júní kom fram að endurupptaka fjármálareglna á árinu 2026 bæri með sér tækifæri til að meta hvort núverandi hönnun reglnanna væri sú ákjósanlegasta.

„Til að draga úr mögnun hagsveiflunnar og auka sjálfbærni stefnu í ríkisfjármálum ættu yfirvöld að íhuga að taka upp útgjaldareglu í stað reglunnar um heildarjöfnuð. Aukinn stuðningur við Fjármálaráð og sterkara umboð til ráðsins myndi styrkja trúverðugleika fjármálareglnanna.“

Í uppfærðu lánshæfismati Moody‘s í september birtist beinn stuðningur við upptöku útgjaldareglu (eða stöðugleikareglu).

„Sú staðreynd að yfirvöld íhuga nú að skipta út núverandi afkomureglu fyrir reglu sem setur útgjaldavexti mörk (stöðugleikareglu) er jákvætt fyrir lánshæfismat, þar sem slík breyting myndi styrkja umgjörð opinberra fjármála enn frekar með því að stuðla sterkar að efnahagslegum stöðugleika.”

Næsta ríkisstjórn getur stuðlað að lækkun vaxta með bættri umgjörð á fjármálamarkaði

Draga þarf úr Íslandsálagi og tryggja sambærilegt regluverk og þekkist á hinum Norðurlöndunum

Séríslenskar kvaðir kosta

Íslenskir bankar búa við hærri sértæka skatta og meiri kröfur en þekkjast í nágrannalöndum. Sértækir skattar og miklar eiginfjárkröfur eru hvor um sig til þess fallin að auka vaxtamun eins og fram kemur í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.

Séríslenskir skattar á fjármálakerfið:

  • Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki (Bankaskattur)
  • Almennur fjársýsluskattur af launum
  • Sérstakur fjársýsluskattur af hagnaði
  • Eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins
  • Gjald til umboðsmanns skuldara

Efnahagslegur stöðugleiki krefst jafnvægis á vinnumarkaði

Launaþróun á Íslandi hefur ekki verið í samræmi við verðstöðugleika undanfarna áratugi

Launaþróun á Íslandi stuðlar ekki að verðstöðugleika

Launahækkanir á Íslandi hafa lengi verið langt umfram það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum og umfram framleiðnivöxt í hagkerfinu. Slík þróun skapar aukinn þrýsting til hækkunar verðlags og viðheldur hærra vaxtastigi en ella.

Stéttarfélagaaðild er hvergi meiri en á Íslandi – það skiptir máli að umgjörð kjarasamningaumhverfisins sé skilvirk og skynsamleg. Stéttarfélög á Íslandi eru mörg og sum þeirra fámenn. Þannig geta margir smáir hópar raskað stöðugleika á vinnumarkaði með því að fara fram með óraunhæfar kröfur.

Með hliðsjón af mikilvægi kjarasamninga fyrir efnahagslegan stöðugleika þarf að styrkja og skýra hlutverk ríkissáttasemjara.

Óskilvirkt kjarasamningaumhverfi litar rekstur ríkissjóðs

Umbætur á vinnumarkaðsmódelinu skila auknum stöðugleika í ríkisfjármálum

Vandi vinnumarkaðar = vandi ríkissjóðs

  • Launakostnaður hins opinbera sem hlutfall af heildarútgjöldum er hvergi hærri en hér.
  • Þegar launaþróun er úr samræmi við efnahagslegan stöðugleika er erfitt að halda aftur af útgjaldaaukningu ríkissjóðs.
  • Til að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum þurfa yfirvöld að stuðla að skynsamlegri umgjörð vinnumarkaðar og skilvirkri kjarasamningagerð.

Styrkja þarf embætti ríkissáttasemjara til að stuðla að góðri launamyndun og stöðugleika

Launaþróun í takti við verðmætasköpun stuðlar að hóflegri verðbólgu. Líta má á sjálfbæra launaþróun sem almannagæði.

Tillaga

Hlutverk ríkissáttasemjara verði að stuðla að efnahagslegum stöðugleika með því að tryggja að launastefnu stefnumótandi kjarasamninga sé fylgt í öllum öðrum kjarasamningum.

Sænsk fyrirmynd

Fyrsta grein sænsku vinnumarkaðslaganna kveður á um verkefni hans. Bein þýðing er „verkefni ríkissáttasemjara er að stuðla að góðri launamyndun“ en ákvæðið er túlkað þannig að embættinu sé óheimilt að stuðla að lausn kjaradeilu sem feli í sér meiri kostnaðarhækkun en felst í „merkinu“ sem útflutningsgreinar semja um.

Hið opinbera verður að fylgja launastefnu á almennum markaði við kjarasamningsgerð

Hið opinbera hefur verið of leiðandi við kjarasamningsgerð, einkum á sviði réttinda og skylda

Jafnari samkeppnisgrundvöllur

  • Hið opinbera er í harðri samkeppni við almenna markaðinn um vinnuafl. Á tímabilum hefur hið opinbera leitt launaþróun í landinu.
  • Í ofanálag hafa starfsmenn hins opinbera mun ríkari réttindi heldur en starfsmenn á almenna markaðnum en hið opinbera hefur einnig verið leiðandi á því sviði
  • Hið opinbera verður að fylgja merki almenna markaðarins og má ekki semja um ríkari launahækkanir og réttindi en útflutningsgreinar

Efnahagslegur stöðugleiki krefst jafnvægis á húsnæðismarkaði

Áætlanir um íbúðauppbyggingu hafa ekki gengið eftir – aðeins fimm sveitarfélög mættu áætlaðri húsnæðisþörf á seinasta ári.

Miklar sveiflur á íbúðamarkaði endurspegla og magna upp ójafnvægi í efnahagslífinu

Til mikils er að vinna að draga úr slíkum sveiflum