Vinnumarkaður - 

18. maí 2015

Teflt á tæpasta vað

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Teflt á tæpasta vað

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins segist í samtali við Viðskiptablaðið meðvitaður um að einhver fyrirtæki geti mögulega ekki risið undir launatilboði SA um 23,5% launahækkun. Rætt er við Björgólf í ítarlegu viðtali í blaðinu, m.a. um flókna og erfiða stöðu á vinnumarkaði.

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins segist í samtali við Viðskiptablaðið meðvitaður um að einhver fyrirtæki geti mögulega ekki risið undir launatilboði SA um 23,5% launahækkun. Rætt er við Björgólf í ítarlegu viðtali í blaðinu, m.a. um flókna og erfiða stöðu á vinnumarkaði.

Ábyrgt tilboð?
Viðskiptablaðið vísar til þess að Samtök atvinnulífsins hafi verið tíðrætt um stöðugleika og að gerðir verði raunhæfir kjarasamningar. Þá hafi Seðlabankinn vísað til þess að hagkerfið þoli 4% hækkun launa á ári. Því spyr blaðamaður Viðskiptablaðsins hvort tilboð SA um tæplega 8% hækkun launa að meðaltali á ári sé ábyrgt?

„Það er góð spurning. Við höfum sagt að það sem komi lægst launaða fólkinu best sé stöðugleiki, lág verðbólga og lækkandi vextir – að það sé í raun besta kjarabótin fyrir lægstu launin. En í tilboðinu eru innifaldar ákveðnar breytingar á tilhögun á vinnufyrirkomulagi, breyting á skilgreiningu dagvinnutíma og breyting á greiðslu fyrir yfirvinnu,“ segir Björgólfur.

Aukum framleiðni
Björgólfur segir að tilboðið þurfi að skoða í tvíþættu samhengi. Í fyrsta lagi sé verið að semja um lágmarkslaun, en margir innan verkalýðshreyfingarinnar séu þegar á hærri töxtum. Í öðru lagi sé verið „að finna leiðir til að auka framleiðni í atvinnulífinu,“ segir Björgólfur.

Tilboðið feli í sér „ákveðnar breytingar í hagræðingarátt fyrir fyrirtæki. Það eykur svigrúm þeirra og möguleika til að nýta starfskrafta betur. Aukinn sveigjanleiki fyrir atvinnurekendur er verðmætur.“

Í þessu tilfelli erum við að bjóða hækkun launa sem er þá uppsafnað einhver 14%-15% og síðan kæmu til viðbótar greiðslur fyrir þessa breyttu skilgreiningu á dagvinnutíma innan sólarhrings og minna álag á yfirvinnu. Við höfum talið að sá sveigjanleiki sem kemur til við það geti aukið framleiðni atvinnulífsins. Það er fyrirtækjunum og starfsmönnunum til góða enda er framleiðni á Íslandi of lág.“

Greitt fyrir aukinn sveigjanleika
Formaður SA viðurkennir að tilboð samtakanna sé hátt. „Auðvitað er upphafshækkunin vel út fyrir þau mörk sem Seðlabankinn hefur gefið upp sem stöðugleikamarkið. Við teljum hins vegar, einfaldlega í ljósi þeirra aðstæðna, sem eru uppi núna, að það sé ekki hægt að ræða um eitthvað lægra heldur en það sem við höfum boðið fyrsta árið.“

Aukinn sveigjanleiki vinnutíma er lykill að því að hægt er að bjóða svo miklar hækkanir.

„Hlutur dagvinnulaunanna verður hærri en nú er. Við teljum einfaldlega að þessi aukni sveigjanleiki geti staðið undir þessari viðbótarhækkun. En við skulum algjörlega hafa það á hreinu að við erum að leggja á tæpasta vað hvað varðar það sem  Seðlabankinn hefur gefið út. Það er algjörlega ljóst,“ segir Björgólfur og bætir við: „Sum fyrirtæki segja að þetta sé allt of mikið. Aðrir segja að við verðum að ná lendingu, að það sé sjálfsögð krafa að fólk nái 300.000 krónum í dagvinnu. Við erum að reyna að nálgast það af yfirvegun og skynsemi.“

Loka fyrirtæki?
Spurður um hvort einhver fyrirtæki muni ekki ráða við 23,5% hækkun launa og jafnvel orðið gjaldþrota segir Björgólfur það vissulega geta gerst. Hann bendir jafnframt á að mörg íslensk fyrirtæki greiði mjög hátt hlutfall af tekjum sínum í laun.

„Við skulum bara horfa á það að launakostnaður sem hlutfall af verðmætasköpuninni er yfir 60% á Íslandi. Það er með því hæsta sem við sjáum í samanburði við önnur lönd. Árið 2013 var Ísland í þriðja sæti í Evrópu á þessum mælikvarða, á eftir Sviss og Danmörku, en líklega mun Ísland skjótast í fyrsta sætið á þessu ári.“

„Það að hækka laun um 23,5%, hækkar þetta hlutfall ef ekkert annað gerist. Við verðum ekki eins samkeppnishæf við umheiminn, nema eitthvað komi á móti. Þetta er einfaldlega spurning um það. Við þurfum að leita leiða til að auka framleiðnina. Við verðum að ná að framleiða þá vöru sem við erum að bjóða á skilvirkari og hagkvæmari máta en aðrar þjóðir, þannig að við eigum einhvern séns í samkeppninni. Þetta snýst bara um það,“ segir Björgólfur.

Stöðugleiki festur í sessi
Tilboð Samtaka atvinnulífsins felur í sér aukinn jöfnuð en samhliða því er rætt um aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir samningum sem geti fest stöðugleikann í sessi.

„Við höfum lagt fram tillögur að breytingum á skattkerfinu. Þær breytingar geta verið á ýmsa máta, til dæmis á persónuafslættinum. Jafnvel að hann verði ekki sá sami á öll laun. Síðan eru það húsnæðismálin, sem skipta vissulega verulega miklu máli.“

Telur Björgólfur raunhæft að verkalýðshreyfingin gangi að tilboði Samtaka atvinnulífsins?

 „Verkalýðsfélög setja fram kröfugerðir, við komum með tilboð. Við erum með varnaðarorð Seðlabankans og ríkisstjórnar varðandi það að þeir fari ekki að styðja samning sem setur allt á annan endann. Þetta snýst fyrst og síðast um það hvort okkur auðnist að búa til þannig aðstæður að atvinnulífið sé samkeppnishæft, þannig að það geti vaxið og dafnað, nýtt þau tækifæri sem myndast og búið til fleiri störf. Ef við missum sjónar á markmiðinu, sem er þessi stöðugleiki og aukinn kaupmáttur, lægri vextir og verðbólga, aukin atvinna, þá getum við bara lent í öfugri stöðu. Það er því mið­ur þannig.“

Sameiginlegur ávinningur
Viðskiptablaðið spurði formann SA um kjarasamninga sem gerðir voru við flugmenn Icelandair og hefur verið vísað til í kjaraviðræðunum nú.

„Já. Þeir eru túlkaðir eftir hentugleika ákveðinna aðila, sem er bara þeirra mál,“ segir Björgólfur. Hann segir að lykilatriðið í þeim samningi hafi verið ákvæði sem leiði til hagræðingar fyrir Icelandair og á móti þeim komi launahækkanir. „Við sömdum um ákveðnar hækkanir og síðan um hagræðingarákvæði, bæði varðandi flugtímahámörk innan ákveðins tíma og um fleiri flugtíma á mánuði. Við náum auknum sveigjanleika og meira hagræði, sem er fé­ laginu til góðs og sem betur fer öllum starfsmönnum félagsins.“

Var þetta eitthvað sem þið höfðuð á bak við eyrað þegar þið sömduð?

„Það er eðlilegt þegar félög ná fram hagræðingu með breytingum á vinnutilhögun að ábatanum sé skipt milli fyrirtækis og starfsmanna að hluta til. Við höfum lagt áherslu á að við náum að hækka dagvinnulaunin sérstaklega en á móti komi aukinn sveigjanleiki. Það er mikilvægt að ná slíkri hugsun í gegn í samningum. Við náðum hagræðingarákvæðum í samningunum við FÍA og viljum kvitta upp á slíkt við viðsemjendurna núna,“ segir Björgólfur.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu 13. maí 2015.

Samtök atvinnulífsins