Íslenskur vinnumarkaður

Staða og sérkenni íslensks vinnumarkaðar

Febrúar 2025

Inngangur

Launaþróun er lykilþáttur í rekstri og hagstjórn

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA

Kæri félagsmaður.

Á Íslandi renna um 60% allrar verðmæta sem við sköpum til launafólks. Laun eru gjarnan einn stærsti útgjaldaliður íslenskra fyrirtækja að aðföngum undanskildum. Launakostnaður er jafnframt stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins eða hátt í helmingur, þegar lagður er saman beinn launakostnaður og fjárframlög til almannatrygginga sem nú stendur til að tengja við launavísitölu.

Það er því mikilvægt að félagsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi greinargóðar upplýsingar um stöðu vinnumarkaðarins, gerð kjarasamninga og þróun launa við ákvarðanatöku.

Tilgangur þessara skýrslu er að veita heildstæðar upplýsingar um kjarasamninga, launaþróun, efnahagslegt svigrúm til launabreytinga, stöðuna á vinnumarkaði, samkeppnisstöðu atvinnulífsins á móti hinu opinbera og það regluverk sem snertir vinnumarkaðinn og vænta má á næstu árum í gegnum EES samninginn.

Það er von okkar að með þessari útgáfu sé fyrirtækið þitt betur í stakk búið til þess að taka góðar ákvarðanir þegar kemur að launamálum og styðja við hagsmunagæslu atvinnulífsins þegar kemur að framþróun íslensks vinnumarkaðar.

Vinnumarkaðurinn er einn lykilþátta í efnahagslífi hvers samfélags og hefur bein áhrif á lífskjör, hagvöxt og almenna velsæld einstaklinganna sem samfélagið byggja. Þróun hans er háð fjölmörgum þáttum á borð við efnahagsástand, tækniframfarir, lagaumhverfi og alþjóðlega strauma. Tilgangur þessarar skýrslu er að greina stöðu og þróun íslenska vinnumarkaðarins í víðu samhengi með áherslu á lykilþætti á borð við atvinnuþátttöku, launaþróun, félagslega þætti og regluverk.

Í upphafi árs 2024 var stefnumarkandi kjarasamningur undirritaður á almennum vinnumarkaði undir yfirskriftinni Stöðugleikasamningurinn. Markmið samningsaðila voru að styðja við minnkun verðbólgu og lækkun vaxta með kjarasamningum sem samræmast efnahagslegum stöðugleika. Sú launastefna sem skilgreind er í kjarasamningum er þó aðeins hluti sögunnar þar sem fleiri þættir ákvarða launamyndun í hagkerfinu.

Íslenskur vinnumarkaður á sér nokkur sérkenni og eru kostir hans fjölmargir. Til að mynda hefur atvinnuþátttaka jafnan verið mikil, atvinnuleysi lítið og menntunarstig hátt. Sterkur vinnumarkaður hefur átt sinn þátt í því að byggja upp öflugt hagkerfi og lífskjör sem eru meðal þeirra bestu á heimsvísu. Þó íslenskur vinnumarkaður teljist sterkur í alþjóðlegum samanburði eru viðvarandi áskoranir til staðar.

Um áratuga skeið hefur launaþróun á Íslandi verið úr takti við framleiðniþróun, sem stuðlar að aukinni verðbólgu og hærra vaxtastigi en ella. Umbætur á kjarasamningsumhverfinu gætu aukið skilvirkni við gerð kjarasamninga og stuðlað að bættu rekstrarumhverfi jafnt sem auknum kaupmætti launafólks. Íslenska þjóðin er ung í samanburði við önnur vestræn ríki en eldist hratt. Þessu fylgja áskoranir á vinnumarkaði þar sem hlutfallslega færri munu standa undir samneyslunni. Til að tryggja áfram mikla atvinnuþátttöku þarf að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði og styðja betur við endurkomu þeirra sem falla út af vinnumarkaði vegna tímabundinna veikinda.

Áskoranir eru yfirstíganlegar með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Ef rétt er haldið á spilum mun íslenskur vinnumarkaður áfram dafna og tryggja hagsæld og tækifæri á Íslandi.

Stöðugleikasamningurinn

Stöðugleikasamningnum var ætlað að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun stýrivaxta

Langtímasamningur með fyrirsjáanleika og efnahagslegan stöðugleika að leiðarljósi

Stefnumarkandi kjarasamningar voru undirritaðir í upphafi árs 2024 undir yfirskriftinni Stöðugleikasamningurinn. Samningurinn er til fjögurra ára með gildistímann 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Samningnum var ætlað að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnhagslífinu, enda voru samningsaðilar sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið á þessum tíma væri að stuðla að minnkandi verðbólgu og lægra vaxtastigi.

Verðbólga og stýrivextir

Breyting milli ára (%)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Samtök atvinnulífsins

Almennar launahækkanir* stöðugleikasamningsins a.t.t. til lágmarkshækkunar

Lágmarkshækkun mánaðarlauna fyrir dagvinnu er 23.750 kr. á hverju ári

1. febrúar 2024

%

1. janúar 2025, 2026 og 2027

%

Heimildir: Samtök atvinnulífsins.
*Launahækkanir kjarasamninga skiptast í kauptaxtahækkanir og þeirra sem ekki eru á taxta. Launahækkanir þeirra sem ekki eru á taxta kallast almennar launahækkanir.

Desemberuppbót

Árkr.
2024106.000
2025110.000
2026114.000
2027118.000

Orlofsuppbót

Árkr.
202458.000
202560.000
202662.000
202764.000

Frekari upplýsingar um hækkun grunnlaunataflna

Hækkun grunnlaunataflna1.2.20241.1.20251.1.20261.1.2027
Launatöflur iðnaðarmanna, % upp að kr. 590.525 kr.5,4%5,1%4,9%4,6%
SGS/Efling/VR/LÍV launatafla, % laun upp að 453.439 kr.5,9%5,6%5,3%5,0%
Almenn hækkun og hækkun launataxta yfir viðmiðum1.2.20241.1.20251.1.20261.1.2027
Almenn hækkun3,25%3,5%3,5%3,5%
Lágmarkshækkun23.75023.75023.75023.750
Skurðpunktur730.769678.571678.571678.571

Kauptaxtaauki

Kauptaxtahópum veitt hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkaði

Dæmi:

1: Launa- og forsendunefnd getur ákveðið að í stað kauptaxtaauka árin 2026 og 2027 komi annað, jafn verðmætt viðbragð sem hæfir betur þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni.

Á árunum 2025-2027 reiknast taxtaauki á lágmarkskauptaxta kjarasamninga vegna launaþróunar á almennum vinnumarkaði, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

  1. Útreikningur taxtaauka byggist á samanburði launaþróunar skv. launavísitölu Hagstofu Íslands fyrir almennan vinnumarkað við hlutfallslega breytingu 4. launaflokks kjarasamninga SGS/Eflingar.
  2. Hækki launavísitalan meira en viðmiðunartaxtinn reiknast taxtaaukinn sem hlutfall umframhækkunar vísitölunnar af framangreindum kauptaxta og hækka allir lágmarkskauptaxtar um það hlutfall.
  3. Útreikningur miðast við breytingar milli nóvembermánaða ár hvert og skal taxtaauki bætast við
    lágmarkskauptaxta frá og með 1. apríl ár hvert. (1)
  4. Komi samhliða til greiðslu framleiðniauka og kauptaxtaauka skulu lágmarkskauptaxtar kjarasamninga taka þeim auka sem hærri er hverju sinni. 

Framleiðniauki

Launaauki byggður á þróun framleiðni

Ein af nýjungum samningsins er svokallaður framleiðniauki, sem útfærist sem prósentuhækkun á öll laun. Umsamdar launahækkanir taka mið af svigrúmi atvinnulífsins til launahækkana og samrýmast verðstöðugleika til lengri tíma. Aukist framleiðni meira en gert er ráð fyrir mun launafólk fá hlutdeild í þeirri verðmætaaukningu í formi sérstaks framleiðniauka, sem getur komið til 1. apríl 2026 og 2027.

Vaxi framleiðni um meira en 2% á árinu 2025 skal miða við þá tölu sem lægri er, framleiðnivöxt á árinu 2025 eða aukningu í framleiðni miðað við grunnárið 2023. Við seinni skoðunarpunkt þarf vísitala framleiðni að hafa vaxið um að minnsta kosti 2% frá seinasta hápunkti til að framleiðniaukinn geti komið til og gildir þá sama regla.

Þá þarf uppsafnaður hagvöxtur jafnframt að vera jákvæður miðað við grunnárið 2023. Það skiptir máli þegar við horfum til þeirrar útfærslu sem samþykkt var á hagvaxtarauka í Lífskjarasamningnum í apríl 2019. Það var stór áfangi þegar samið var um tengingu launaþróunar við efnahagsaðstæður í hagkerfinu í kjarasamningum. Með framleiðniaukanum er verið að þróa hugmyndafræðina frekar og girða fyrir ýmsa vankanta, svo sem þá að til greiðslu hagvaxtarauka hafi komið þrátt fyrir að verðmætasköpun á mann hafi ekki aukist, litið til lengri tíma en eins árs í senn. Við gerð Stöðugleikasamningsins voru samningsaðilar sammála um að innistæða þurfi að vera fyrir slíkum hækkunum.

FramleiðnivöxturFramleiðniauki
>2,0%+0,35%
>2,5%+0,70%
>3,0%+1,05%

Framleiðniauki er hlutfallslegur (%) og leggst á laun með sama hætti og almennar hlutfallshækkanir kjarasamninga gera.

Forsenduákvæði

Viðmið um verðbólgu

Forsendur endurskoðunar 1. september 2025

  • 12 mánaða verðbólga sé yfir 4,95% eins og hún mælist í ágúst 2025.
  • Verðlagsforsendur teljast hafa staðist ef verðbólga á tímabilinu mars – ágúst 2025 er 4,7% eða lægri miðað við árshraða.
  • Stjórnvöld standi við gefin fyrirheit í yfirlýsingu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga.

Forsendur endurskoðunar 1. september 2026

  • 12 mánaða verðbólga sé yfir 4,7% eins og hún mælist í ágúst 2026.
  • Verðlagsforsendur teljast hafa staðist ef verðbólga á tímabilinu mars – ágúst 2026 er 4,4% eða lægri miðað við árshraða.

Forsendunefnd

Styrkir forsendur og endurmetur

Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum tilnefndum af SA og fjórum tilnefndum af samninganefndum þeirra aðildarfélaga ASÍ sem að sameiginlegum samningsforsendum standa.

Verkefni nefndarinnar er að:

  • fylgjast með framvindu þátta í efnahagslífinu sem hafa áhrif á markmið samningsins
  • leggja formlegt mat á forsendur kjarasamningsins
  • semja um viðbrögð við forsendubresti
  • treysta forsendur samningsins og stuðla að því að hann haldi gildi sínu

Formlegt mat fer fram í september 2025 og september 2026.

Svigrúm til launahækkana ákvarðast af efnahagsaðstæðum - framleiðni og viðskiptakjörum

Launahækkanir sem samræmast efnahagslegum forsendum stuðla að hóflegri verðbólgu og þar með lægra vaxtastigi

Svigrúm til launahækkana

Breyting frá fyrra ári (%)

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og Samtök atvinnulífsins

Svigrúm til launahækkana í hagkerfinu grundvallast á:

  • verðbólgumarkmiði,
  • framleiðnivexti og
  • breytingu á viðskiptakjörum.

Launahækkanir umfram efnahagslega innistæðu samræmast ekki verðstöðugleika. Ætla má að svigrúm til launahækkana sé að jafnaði 3,5% - 4% árlega.

Launavísitalan þróast að jafnaði um 2-4 prósentur umfram kostnaðarmat kjarasamninga

Þróun launavísitölu ræðst að hluta af launastefnunni sem mörkuð er í samningunum og spennu á vinnumarkaði

Kostnaðarmat kjarasamninga

Á almennum vinnumarkaði (árlegur kostnaðarauki í %)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Mat og útreikningar Samtaka atvinnulífsins á kostnaðarmati kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Kostnaðarmat kjarasamninga á almennum vinnumarkaði endurspeglar kostnaðarauka atvinnulífsins vegna þeirra kjarabreytinga sem samið er um í samningunum.

Launavísitalan þróast þó að jafnaði með öðrum hætti. Sú launastefna sem mörkuð er í kjarasamningum sem og spenna á vinnumarkaði hafa áhrif á hver þróun launavísitölunnar verður þegar upp er staðið.

Launavísitalan er verðvísitala launa, án launakostnaðar, þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningunum er haldið föstum á milli mælinga (nema ef um er að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga) til að endurspegla launaþróun í landinu. Vísitalan byggir á tímakaupi reglulegra launa í hverjum mánuði. Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags- og bónusgreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.

Launastefnan hefur áhrif á launaskrið

Að jafnaði þróast launavísitalan fremur í takt við hækkun lægstu taxta en kostnaðarmat kjarasamninga

Kostnaðarmat kjarasamninga og launaþróun

Ársbreyting (%)

Heimildir: Hagstofa Íslands, mat og útreikningar Samtaka atvinnulífsins (kostnaðarmat samninga)

Tilgátan

Launastefna í jafnvægi, þar sem lítill munur er milli hlutfallslegrar hækkunar lægstu launa og almennrar launahækkunar, dregur úr þrýstingi á launaskrið og þar með verðbólguþrýstingi.

Miklar hlutfallslega hækkanir lægstu launa eiga það til að skila sér upp launastigann þar sem starfsfólk krefst umbunar fyrir aukna menntun, ábyrgð og reynslu.

Launaþróun í kjölfar undirritunar Stöðugleikasamningsins

Kostnaðarmatið er fyrir ASÍ á almennum markaði. Sá hluti súlanna sem er umfram matið er vegna meiri áhrifa krónutöluhækkana en hjá heildinni, innbyggðra hækkana kjarasamninga vegna starfsaldurs, breytinga á launaflokkum og launaskriðs

Launaþróun atvinnugreina á almennum markaði

Hækkun frá feb.24 – okt.24 (%)

Launaþróun starfsstétta á almennum markaði

Hækkun frá feb.24 – okt.24 (%)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins

Fólk á vinnumarkaði

Hlutfall starfandi af mannfjölda hefur haldist nokkuð stöðugt síðastliðna tvo áratugi

Frá árinu 2005 hefur fjölgað á vinnumarkaði um tæplega 60 þúsund manns

Fjöldi og hlutfall starfandi

Fjöldi og hlutfall af mannfjölda á aldrinum 16-74 ára (%)*

Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins
*Fjöldi starfandi samkvæmt skrám.

Atvinnuþátttaka er hvergi meiri en á Íslandi

Atvinnuþátttaka vísar til hlutfalls vinnuaflsins (starfandi og í atvinnuleit) af heildarfjölda einstaklinga á vinnufærum aldri

Alþjóðleg atvinnuþátttaka*

Lönd innan OECD, 2023

Heimildir: OECD.
*Fólk í atvinnu 15 ára og eldri sem hlutfall af fólki á vinnufærum aldri 15-64 ára.

Atvinnuþátttaka sveiflast með hagsveiflunni

Atvinnuþátttaka karla er almennt meiri en kvenna, en atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er meiri en karla á hinum Norðurlöndunum

Atvinnuþátttaka á Íslandi

% af mannfjölda (16-74 ára)

Atvinnuþátttaka á Norðurlöndunum

% af mannfjölda (15-74 ára), 2023

Heimildir: Hagstofa Íslands, OECD, Samtök atvinnulífsins

Atvinnuþátttaka er mikilvægur mælikvarði á virkni vinnumarkaðarins. Mikil atvinnuþátttaka stuðlar að auknum hagvexti og bættri framleiðni ásamt því sem hún dregur úr álagi á velferðarkerfi. Lítil atvinnuþátttaka bendir aftur á móti til undirliggjandi vandamála á borð við skort á störfum eða ójafnra tækifæra á vinnumarkaði.

Um fimmtungur starfandi fólks er í einkennandi greinum ferðaþjónustu

Næstfjölmennasta atvinnugreinin er heild- og smásöluverslun

Hlutfall starfandi eftir atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði

%, 2024

Heimild: Hagstofa Íslands, Almennur vinnumarkaður skilgreindur sem alls starfandi án O-Q (Opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta)

Hlutfall erlends vinnuafls hefur vaxið hratt undanfarinn áratug

Á tveimur áratugum jókst hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði úr 7% í 24%

Erlent vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði

Fjöldi starfandi (v. ás) og hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði % (h. ás)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífisins

Hvergi innan OECD hefur hlutfallslegur vöxtur aðfluttra verið meiri en á Íslandi undanfarinn áratug. Mikill meirihluti innflytjenda, eða um 80%, hefur komið frá EES svæðinu á tímabilinu og hefur aðflutt vinnuafl stutt við sterkan hagvöxt undanfarinna ára með því að stemma stigu við vinnuaflsskorti í hinum ýmsu atvinnugreinum. Atvinnuþátttaka innflytjenda er hvergi meiri innan OECD en þó samanstendur stór hluti atvinnulausra af innflytjendum.

Breytt samfélagsgerð hefur ekki verið án áskorana og hefur ör fólksfjölgun t.a.m. skapað þrýsting á innviði á borð við húsnæðismarkað, mennta- og heilbrigðiskerfi. Þá eru vísbendingar um að hægt sá að nýta færni innflytjenda betur. Meira en þriðjungur hámenntaðra innflytjenda býr yfir hæfni umfram þá sem störf þeirra krefjast, sem er talsvert hærra hlutfall en hjá innfæddum. Takmörkuð íslenskukunnátta virðist skýra þessa stöðu að hluta. Heildstæð stefnumótum stjórnvalda hvað þetta varðar getur stuðlað að árangursríkri aðlögun innflytjenda og afkomenda þeirra að íslensku samfélagi.

Hversu stór hluti af fjölgun starfsmanna verða erlendir starfsmenn á næstu fimm árum?

Erlendu vinnuafli á Íslandi mun líklega fjölga á næstu fimm árum

Erlent starfsfólk sem hlutfall af fjölgun stöðugilda

Hlutfall fyrirtækja í % (v. ás) og hlutfallsleg fjölgun stöðugilda næstu fimm árin

Heimildir: Könnun Gallup fyrir Samtök atvinnulífisins. Spurt var: „Hversu stórt hlutfall af fjölgun stöðugilda fyrirtækisins á næstu fimm árum telur þú að verði erlendir starfsmenn?“

  • Samkvæmt stjórnendum í íslensku atvinnulífi, telja tvö af hverjum þremur fyrirtækjum að stöðugildi til næstu fimm ára verð fyllt að hluta með erlendu starfsfólki.

  • 34% fyrirtækja telja ekki þurfa að fylla nein stöðugildi með starfsfólki að utan.

  • 20% fyrirtækja telja að meira en helmingur stöðugilda til næstu fimm ára verði fylltur með erlendu starfsfólki.     

Hlutfall erlends vinnuafls er hæst í ferðaþjónustu og sjávarútvegi

Hlutfall innflytjenda í fjármála- og vátryggingarstarfsemi er hverfandi

Samsetning vinnuafls eftir stærstu atvinnugreinum*

Fjöldi starfandi (þúsundir, v.ás) og hlutfall (%, h.ás) eftir bakgrunni, 2024

Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífisins.

Stærstur hluti innflytjenda starfar í ferðaþjónustu og iðnaði

Hlutfallslega fæstir starfa í sjávarútvegi og fjármálageiranum

Hvar starfar erlent vinnuafl?

%, 2024

Hlutfallslegt vægi innflytjenda í atvinnugrein

Valdar atvinnugreinar (%), 2024

Heimild: Hagstofa Íslands

Atvinnuleysi er að jafnaði lítið á Íslandi

Atvinnuleysi tók stökk á tímum heimsfaraldurs hér eins og annars staðar en nálgast nú það sem kalla má jafnvægisatvinnuleysi

Atvinnuleysi

Mælt og skráð atvinnuleysi* (% af vinnuafli)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Vinnumálastofnun.
*Mælt atvinnuleysi (árstíðarleiðrétt leitni) úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og skráð atvinnuleysi skv. Vinnumálastofnun.

Mælt atvinnuleysi byggir á vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, sem er spurningakönnun með úrtaki úr Þjóðskrá. Mælingin tekur til einstaklinga sem eru án vinnu, hafa leitað sér að vinnu síðastliðnar fjórar vikur og eru tilbúnir að hefja störf innan tveggja vikna.

Skráð atvinnuleysi nær aðeins til þeirra sem hafa formlega skráð sig hjá Vinnumálastofnun, oft í tengslum við umsóknir um atvinnuleysisbætur. Þeir sem eru atvinnulausir en hafa ekki skráð sig, t.d. vegna þess að þeir eiga ekki rétt á bótum eða hafa hætt að leita sér að vinnu, eru ekki taldir með.

Atvinnuleysi er að jafnaði lítið á Íslandi

Atvinnuleysi er töluvert minna hér á landi en að meðaltali í OECD ríkjum og það minnsta á Norðurlöndunum.

Alþjóðlegur samanburður á atvinnuleysi

Lönd innan OECD, 2023

Heimildir: OECD

Mikill stuðningur er veittur fyrstu mánuðina eftir atvinnumissi

Gæta þarf jafnvægis milli fjárhagslegs stuðnings í atvinnuleysi og hvata til atvinnuleitar

Hlutfall (%) tekjutaps sem er bætt upp með atvinnuleysisbótum*

Lönd innan OECD, 2023.

Heimildir: OECD.
*Einhleypur og barnlaus einstaklingur með 67% af meðallaunum. Fær greiddar bætur vegna lágmarksframfærslu og húsaleigu.

Hlutfall tekjutaps sem bætt er upp með atvinnuleysisbótum (e. Net replacement rate of unemployment) segir til um hversu stór hluti hreinna tekna einstaklinga er bættur upp meðan þeir eru atvinnulausir.

Á Íslandi er veittur ríkur stuðningur fyrstu mánuðina eftir atvinnumissi. Hærri stuðningshlutföll veita meira fjárhagslegt öryggi, en geta jafnframt dregið úr hvata til atvinnuleitar.

Mikilvægt er að ná jafnvægi milli þess að styðja við einstaklinga í atvinnuleysi og að hvetja þá til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Mikil spenna myndaðist á vinnumarkaði í kjölfar heimsfaraldurs

Frá árinu 2022 hefur dregið úr spennu, þar sem lausum störfum á hvern atvinnulausan hefur fækkað.

Spenna á vinnumarkaði

Fjöldi lausra starfa á hvern atvinnulausan, ársfjórðungsgögn

Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins.

Fjöldi lausra starfa á hvern atvinnulausan einstakling gefur vísbendingu um spennu á vinnumarkaði. Spennan eykst þegar laus störf eru hlutfallslega fleiri miðað við atvinnulausa.

Á undanförnum árum hefur spennan sveiflast í takt við ólíkar efnahagsaðstæður, svo sem heimsfaraldur og efnahagsbatann í kjölfar hans. Hlutfallið náði hámarki árið 2022, sem endurspeglar mikla spennu á vinnumarkaði á þeim tíma. Frá seinni hluta árs 2022 hefur hlutfallið lækkað jafnt og þétt, og er komið á svipaðan stað og fyrir faraldurinn.

Fjarvinna hefur færst í aukana eftir heimsfaraldur

Fyrir COVID-19 var hlutfallið á bilinu 25-35% en eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur það haldist yfir 40%.

Hlutfall þeirra sem vinna eitthvað heima

Hlutfall af heildarfjölda starfandi (%), ársfjórðungsleg gögn.

Á árunum 2007-2019 var hlutfall fjarvinnu nokkuð stöðugt í kringum 30%, þó með nokkurri leitni upp á við.

Sökum víðtækra samkomutakmarkana leiddi Covid-19 faraldurinn til mikillar aukningar í fjarvinnu árið 2020. Hlutfallið fór hæst upp í tæp 47% í byrjun árs 2022. Þrátt fyrir að faraldrinum sé lokið hefur hlutfallið haldist yfir 40% síðan.

Þessi þróun bendir til þess að varanlegar breytingar hafi átt sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Tæknivæðing og tilheyrandi sveigjanleiki í ákveðnum störfum hafa gert það að verkum að fjarvinna er orðin viðurkenndari á mörgum vinnustöðum en áður.

Hæfileg uppsagnarvernd stuðlar að sveigjanlegri vinnumarkaði

Á Íslandi er að jafnaði lítið atvinnuleysi sem helst yfirleitt í hendur við minni uppsagnarvernd

Uppsagnarvernd

OECD, 2019

Heimild: OECD, Samtök atvinnulífsins

OECD gefur reglulega út mælikvarða um vernd starfsmanna, sem metur bæði fjölda reglna og hversu strangar þær eru. Reglurnar taka tillit til verndar gegn uppsögnum, kostnaðar við starfslok og takmarkana á tímabundnum ráðningum. Á Íslandi gilda sérstök lög um hópuppsagnir, jafnframt eru takmarkanir á því af hvaða ástæðum eða undir hvaða kringumstæðum atvinnurekanda er heimilt að segja starfsfólki upp. Þá er kveðið á um uppsagnarfresti í kjarasamningum.

Á Íslandi ríkir minni uppsagnarvernd en í flestum öðrum Evrópuþjóðum. Atvinnuleysi hefur jafnan verið lítið á Íslandi og því almennt næg atvinnutækifæri til staðar fyrir þá sem verða fyrir atvinnumissi. Þó ber að hafa í huga að uppsagnarvernd opinberra starfsmanna er talsvert ríkari en starfsfólks á almennum vinnumarkaði á Íslandi.

Stéttarfélagsaðild er hvergi meiri en á Íslandi

Aðild að stéttarfélögum hefur aukist hér á landi á meðan hún hefur dregist saman á hinum Norðurlöndunum

Aðild að stéttarfélögum á Norðurlöndunum

Hlutfall af heildarfjölda starfsmanna (%)

Heimild: OECD

Ísland sker sig úr á heimsvísu þegar kemur að stéttarfélagsaðild, með afgerandi hæsta hlutfallið. Hlutfallið hefur aukinheldur farið hækkandi á umliðnum árum á meðan þróunin er í öfuga átt í okkar samanburðarlöndum.

Mikil stéttarfélagaaðild getur stuðlað að betri kjörum og sterkari réttindum fyrir launafólk en getur einnig leitt til minni sveigjanleika, ósjálfsbærs launakostnaðar vegna launahækkana úr takti við framleiðniþróun og tíðari verkfalla.

Á Íslandi hafa stéttarfélög sögulega gegnt lykilhlutverki í að byggja upp sterkan vinnumarkað, en mikilvægt er að jafnvægi ríki milli hagsmuna starfsmanna og atvinnurekenda þannig að fyrirtæki og launafólk geti dafnað í samkeppnishæfu og sjálfbæru efnahagsumhverfi.

Vægi háskólamenntaðra hefur aukist á vinnumarkaði á undanförnum tveimur áratugum

Menntun vinnuaflsins

Hlutfall af heildarfjölda starfandi, 16-74 ára

Heimild: Hagstofa Íslands

Menntun vinnuaflsins eftir starfsstéttum

Fjöldi

Heimild: Hagstofa Íslands

Fleiri á vinnumarkaði eru farnir að sækja sér sí- og endurmenntun

Sí- og endurmenntun eykur hæfni starfsfólks og dregur úr hættu á atvinnumissi vegna tækniframfara og sjálfvirknvæðingar

Fjöldi og hlutfall fólks í sí- og endurmenntun*

Fjöldi í þúsundum (v.ás) og hlutfall af heildarfjölda starfandi (h.ás).

Sí- og endurmenntun eftir menntunarstöðu

Hlutfall (%) af heildarmannfjölda (16-74 ára) í hverjum hópi fyrir sig

Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins
*Starfandi einstaklingar (16-74 ára) ekki í skóla sem sækja sér sí- og endurmenntun

Sí- og endurmenntun hefur aldrei verið mikilvægari en nú. Með örri tækniþróun, sjálfvirknivæðingu og breyttum kröfum á vinnumarkaði er stöðug færniuppfærsla nauðsynleg til að viðhalda samkeppnishæfni og atvinnuöryggi. Gögnin sýna að þátttaka í sí- og endurmenntun hefur aukist að undanförnu, eftir mikinn samdrátt á tímum heimsfaraldurs.

Hlutfall einstaklinga í sí- og endurmenntun er þó mismunandi eftir menntunarstigi. Háskólamenntaðir eru líklegri til að sækja sér frekara nám en þeir sem hafa grunn- eða framhaldsskólamenntun. Þetta gæti stafað af því að störf þeirra krefjast oftar stöðugrar færniuppfærslu og að framboð námsleiða fyrir þennan hóp er meira. Til að tryggja jöfn tækifæri er nauðsynlegt að efla aðgengi allra hópa að sí- og endurmenntun. Fyrirtæki sem styðja símenntun starfsmanna njóta meiri framleiðni, nýsköpunar og samkeppnishæfis. Jafnframt geta einstaklingar sem afla sér viðbótarþekkingar betur aðlagað sig breyttum vinnumarkaði og dregið úr hættu á atvinnuleysi.

Til að mæta framtíðaráskorunum þarf að auka sveigjanlegt nám, efla tengsl menntakerfis og atvinnulífs og hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í sí- og endurmenntun starfsmanna. Þannig tryggjum við betri vinnumarkað, sterkari efnahag og bætt lífskjör.

Lágt hlutfall ungs fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun

Ísland sker sig úr með sterka stöðu ungs fólks á vinnumarkaði eða í námi innan OECD

Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (NEET)

15-29 ára sem hlutfall (%) af fólki í sama aldursflokki. Lönd innan OECD, 2022

Heimild: OECD

Hlutfall ungs fólks á aldrinum 15-29 ára sem hvorki er í vinnu, námi né starfsþjálfun (NEET) lýsir þeim hluta sem hvorki tekur virkan þátt í atvinnulífi eða menntun.

Ísland stendur vel að vígi með lágt NEET-hlutfall samanborið við önnur lönd innan OECD. Lág hlutföll benda til sterkrar þátttöku ungs fólks í vinnu eða námi, en hátt hlutfall getur bent til áskorana við að koma ungu fólki inn á vinnumarkað eða í menntakerfið.

Mikilvægt er að styðja við ungt fólk með markvissum aðgerðum til að auðvelda þátttöku þeirra í atvinnu eða námi og tryggja þannig virkni þeirra í samfélaginu.

Laun á vinnumarkaði

Ný síða á vinnumarkaðsvef

Samtök atvinnulífsins bjóða atvinnurekendum að nýta sér gagnvirkar aðferðir til að fá yfirsýn yfir launaþróun og launatengd gjöld. Í reiknivélum má annars vegar reikna launaseðilinn með launatengdum gjöldum eftir ólíkum forsendum og hins vegar sjá hvernig laun hafa þróast hérlendis með vísitölum launa.

Hægt er að skoða reiknivélarnar á vinnumarkaðsvef SA .

Kjaratölfræðinefnd (KTN)

Markmið KTN er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning og eftirfylgni kjarasamninga á hverjum tíma.

Heimild: Samkomulag um stofnun KTN

Fulltrúar KTN, einn frá hverjum:

Forsætisráðuneytið

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Félagsmálaráðuneytið

Samband íslenskra sveitarfélaga

Alþýðusamband Íslands

Bandalag háskólamanna

BSRB

Kennarasamband Íslands

Samtök atvinnulífsins

Hagstofa Íslands

Skipulag launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði

Vinnumarkaðurinn skiptist í grunninn í almennan og opinberan vinnumarkað. Launagreiðendur og stéttarfélög semja um kaup og kjör í kjarasamningum sem mynda lágmarkskjör fyrir þá sem þeir taka til.

Réttindi og skyldur launafólks og launagreiðenda á íslenskum vinnumarkaði grundvallast aðallega á kjarasamningum sem byggðir eru ofan á lágmarksreglur í lögum. Vinnumarkaðurinn á Íslandi skiptist í grunninn í almennan og opinberan vinnumarkað. ASÍ eru heildarsamtök stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, BSRB eru stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna, þar á eftir koma BHM og KÍ.

Umboð til kjarasamningagerðar liggur hjá hverju og einu stéttarfélagi sem þó framselja oft á tíðum umboðið til heildarsamtaka. Stéttarfélög fara starfa einnig oft í sameiningu, jafnvel þvert á heildarsamtök, við kjarasamningagerð en þá er talað um að þau séu í samfloti við kjarasamningaborðið. Helstu viðsemjendur stéttarfélaga eru Samtök atvinnulífsins á almennum markaði og fjármála- og efnhagsráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg á opinberum vinnumarkaði.

Heimild: KTN, Kjaratölfræðinefnd

Heimild: KTN, Kjaratölfræðinefnd

Launaþróun eftir mörkuðum og heildarsamtökum á samningstíma Lífskjarasamningsins

Á meðal efnis sem finna má í skýrslum KTN er yfirlit yfir launaþróun á yfirstandandi samningstímabili ásamt útlistun á því sem samið var um í stærstu kjarasamningum á almennum og opinberum markaði

Breyting grunntímakaups mars 2019 – nóvember 2023

Launahækkun og vinnutímastytting, (%)

Heimild: KTN

Kjaratölfræðinefnd birtir launagögn á annan hátt en þau gögn sem finna má á vef Hagstofu Íslands. Í skýrslum KTN er allajafna lögð áhersla á að skoða launaþróun og launastig í yfirstandandi kjarasamningslotu, eftir mörkuðum og landssamböndum launafólks. Sem dæmi er hér launarþóun á samningstíma lífskjarasamningsins, þ.e. mars 2019 til nóvember 2022. Þar sem samið var um vinnutímastyttingu í þeirri lotu hafa áhrif vinnutímastyttingar á þróun grunntímakaups verið útlistuð sérstaklega.

Sjá nánar í skýrslum KTN á vef nefndarinnar, ktn.is .

Laun og launatengd gjöld

Ma.kr., 2023

Hlutdeild launa í verðmætasköpun

Laun og launatengd gjöld sem hlutfall (%) af vergum þáttatekjum

Heimild: Hagstofa Íslands og Samtök atvinnulífsins.
*Hið opinbera skv. skilgreiningu þjóðhagsreikninga.

Launahlutfallið segir okkur til um hversu stór hluti verðmætasköpunar rennur til launafólks, að jafnaði um 60% á Íslandi.

Lágt launahlutfall stuðlar að óánægju launafólks og óstöðugleika á vinnumarkaði á meðan hátt launahlutfall dregur úr svigrúmi til hagvaxtarhvetjandi fjárfestingar. Launahlutfall í góðu jafnvægi styður við lífskjarasókn.

Mismunandi launahlutföll milli landa skýrast m.a. af ólíkri samsetningu atvinnugreina, tækniþróun og styrk stéttarfélaga. Því er engin gullin regla sem segir til um ákjósanlegt launahlutfall í hagkerfinu.

Launaþróunin hefur verið misjöfn eftir starfsstéttum á undanförnum árum

Lægstu launin hafa hækkað hlutfallslega mest

Launaþróun eftir starfsstéttum á almennum markaði

Hækkun frá des 2018 – okt 2024 (%)

Launaþróun eftir atvinnugreinum

Hækkun frá des 2018 – okt 2024 (%)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins

Kjarasamningar á Íslandi hafa í gegnum tíðina einkennst af leið blandaðra hækkana – þ.e. almennri prósentuhækkun launa og krónutöluhækkun á lægstu laun. Lægstu launin hafa þannig að jafnaði hækkað hlutfallslega meira en önnur laun á undanförnum árum.

Launakostnaður hefur þróast umfram framleiðnivöxt undanfarna áratugi

Launahækkanir umfram framleiðni er eitt af einkennum íslenska vinnumarkaðarins

Launakostnaður Norðurlandanna á hverja framleidda einingu

Vísitala launakostnaðar á hverja framleidda einingu, 1991 = 100

Heimild: OECD, Seðlabanki Íslands og Samtök atvinnulífsins

Launakostnaður á framleidda einingu er mikilvægur mælikvarði á alþjóðlega samkeppnishæfni.

Launakostnaðurinn er skilgreindur sem meðalkostnaður vinnuafls á hverja framleidda einingu hagkerfisins, eða hlutfallið milli heildarlauna á vinnustund og framleiðni á vinnustund.

Hækki laun umfram framleiðni, hækkar vísitalan. Við það eykst verðbólguþrýstingur, sem skapar þrýsting á gengi krónunnar og aukinn viðskiptahalla.

Ísland sker sig úr. Hækkun á launakostnaði umfram framleiðni, hefur jafnan verið meiri hér en á hinum Norðurlöndunum.

Launakostnaður á vinnustund er talsvert hærri á Íslandi en að jafnaði í Evrópu

Launakostnaður á vinnustund

Í evrum, 2023

Heimild: Eurostat

Launakostnaður á vinnustund í hagkerfinu í heild svipar til Danmerkur og Noregs

Kostnaðurinn hefur vaxið mest á Íslandi á undanförnum árum

Launakostnaður á vinnustund í hagkerfinu*

evrur

Heimild: Eurostat

Launakostnaður á vinnustund, mældur í evrum, tekur til launa og launatengdra gjalda sem fellur á atvinnurekandann vegna starfsmanns.

Launakostnaður er einn af þeim lykilþáttum sem ákvarðar samkeppnishæfni atvinnulífsins, auk fjármagnskostnaðar og almennra rekstrarskilyrða sem tengjast m.a. sköttum og regluverki.

Niðurbrot eftir atvinnugreinum

Launakostnaður á vinnustund í iðnaði (án byggingariðnaðar)

evrur

Launakostnaður á vinnustund í framleiðslu

evrur

Heimild: Eurostat

Launakostnaður á vinnustund í byggingariðnaði

evrur

Launakostnaður á vinnustund í þjónustu í viðskiptahagkerfinu

evrur

Heimild: Eurostat

Launakostnaður á vinnustund í smásölu og heildverslun

evrur

Launakostnaður á vinnustund í flutningum og geymslu

evrur

Heimild: Eurostat,

Launakostnaður á vinnustund í veitinga- og gistirekstri

evrur

Launakostnaður á vinnustund í upplýsingatækni og fjarskiptum

evrur

Heimild: Eurostat Gögn fyrir Danmörku ná til 2020 og fyrir Noreg til 2022
*Gögn fyrir Svíþjóð og Noreg ná til 2022

Launakostnaður á vinnustund í fjármála- og vátryggingastarfsemi

evrur

Launakostnaður á vinnustund í sérfræði-, vísinda- og tæknilegri starfsemi

evrur

Heimild: Eurostat

Launakostnaður á vinnustund í mennta-, heilbrigðis- og félagsstarfssemi, menningu og listum

evrur

Heimild: Eurostat

Launaseðillinn

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman reiknivél sem sýnir niðurbrot á launaseðli. Einstaklingar geta sett inn forsendur um helstu kjarasamninga, framlög í lífeyrissjóði, mismunandi orlofsfríðindi og önnur fríðindi. Út kemur heildarkostnaður og útborguð laun, miðað við umsamin mánaðarlaun.

Hægt er að skoða reiknivélina á vinnumarkaðsvef SA .

Helstu sjóðagjöld sem launagreiðendur greiða vegna starfsfólks

Annarsvegar hefur verið samið um greiðslu ýmissa sjóðagjalda í kjarasamningum og hins vegar eru sum þeirra bundin í lög. Þessi gjöld reiknast oftast af heildarlaunum viðkomandi starfsmanns og ber atvinnurekendum að standa skil á þeim í takt við ákvæði laga eða kjarasamninga.

Sjúkrasjóður

Gjald í sjúkrasjóð er nú í flestum kjarasamningum 1% af heildarlaunum starfsmanns. Gjaldið rennur í sjóði þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn eiga aðild að. Tilgangur sjúkrasjóðs er fyrst og fremst að greiða félagsmanni bætur í sjúkra- og slysatilfellum eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda lýkur en þar að auki geta félagsmenn sótt um allskyns styrki úr sjóðunum.

Orlofsheimilasjóður

Gjald í orlofsheimilasjóð er í flestum kjarasamningum 0,25% af launum starfsmanns. Orlofsheimilasjóður stendur undir kaupum og rekstri á orlofshúsum stéttarfélaga. Einnig styrkja orlofssjóðir margra stéttarfélaga félagsmenn sína við kaup á orlofsferðum innanlands og utan.

Starfsendurhæfingarsjóður (VIRK)

Lögbundið gjald er 0,13% af launum en gjaldið hefur verið 0,1% skv. bráðabirgðaákvæði laga. Sjá nánar um VIRK í kaflanum um félagslega þætti.

Starfsmenntasjóður/Fræðslusjóður

Gjöld til starfsmenntasjóða eru kjarasamningsbundin og eru þau mjög mismunandi eftir kjarasamningum. Dæmi um algengt gjald er 0,3% af heildarlaunum í kjarasamningum SA og stéttarfélaga verkafólks / verslunarmanna en gjaldið er hærra í samningum iðn- og tæknifólks. Bæði atvinnurekendur og starfsfólk hafa rétt til þess að sækja styrki í sjóðina. Markmið fræðslusjóða er að auka hæfni og menntun starfsfólks ásamt því að stuðla að auknu framboði á námi og námsefni sem er í takt við þarfir atvinnulífsins.

Almenni og opinberi markaðurinn

Hátt hlutfall vinnumarkaðar starfar hjá hinu opinbera

Fjölgunin hjá hinu opinbera er fremur stöðug - sveiflur á vinnumarkaði skýrast fyrst og fremst af sveiflum á almenna markaðinum

Opinberir starfsmenn

Hlutfall (%) starfandi hjá hinu opinbera af heildarfjölda starfandi, 2021

Heimildir: Hagstofa Íslands, OECD.
*Hlutfallið á Íslandi er fyrir árið 2019.

Fjölgun starfandi hjá einkageiranum og hinu opinbera

Ársvöxtur (%) í fjölda starfandi eftir rekstrarformum

Heimildir: Hagstofa Íslands, OECD.
*Hlutfallið á Íslandi er fyrir árið 2019.

Hlutfall starfandi hjá hinu opinbera sveiflast með hagsveiflunni

Mismunandi mælikvarðar á starfsmenn hins opinbera sýna svipaða þróun, en ætla má að hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaði sé að jafnaði um 30%.

Hlutfall opinberra starfsmanna af heildarfjölda starfandi

%

Heimild: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins.
Gögnin eru annars vegar fengin út frá atvinnugreinaflokkun og hins vegar rekstrarformum eftir skilgreiningum Hagstofunnar. Þau rekstrarform sem eru tekin með hér eru: B2, C2 og D4: opinber fyrirtæki, K: aðrar opinberar stofnanir, K1: ríkisstofnun og K2: stofnun sveitarfélags.

Tveir mælikvarðar Hagstofunnar sýna ólíka nálgun á mælingu fjölda opinberra starfsmanna.

Hvorugur mælikvarðinn endurspeglar fullkomlega nákvæman fjölda en þeir gefa ákveðna mynd af hlutfallslegu vægi opinbera markaðarins.

  • O-Q atvinnugreinaflokkun skilgreinir starfsmenn eftir atvinnugreinum þar sem O-Q er skilgreint sem opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta.

  • Rekstrarform greinir á milli opinberra og einkarekinna eininga.

Opinberir starfsmenn njóta ríkulegra réttinda umfram almenna vinnumarkaðinn

Breyta þarf lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulögum til að auka sveigjanleika í ríkisrekstri

1. Vegna samanburðar við opinberar stofnanir er hér einungis miðað við 30 mín. matarhlé og engin kaffihlé. Viðvera á almennum vinnumarkaði er lengri sem nemur samningsbundnum matar- og kaffihléum og er viðvera verkafólks t.a.m. 42,5 – 45 klst. á viku samanborið við 36 klst. opinberra starfsmanna. 2. Nema samið hafi verið sérstaklega um það á vinnustað að 30 mín. matarhlé séu á forræði starfsfólks, þá 38,5 klst.
Heimildir: Hagstofa Íslands, Samtök atvinnulífsins

Jafnari samkeppnisgrundvöllur

  • Hið opinbera er í harðri samkeppni við almenna markaðinn um vinnuafl. Á tímabilum hefur hið opinbera leitt launaþróun í landinu.

  • Í ofanálag hafa starfsmenn hins opinbera mun ríkari réttindi heldur en starfsmenn á almenna markaðnum.

  • Mikilvægt er að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stjórnsýslulögum til að samræma réttindi á milli markaða og auka sveigjanleika í ríkisrekstri.

  • Hið opinbera verður að fylgja merki almenna markaðarins og má ekki semja um ríkari launahækkanir og réttindi en útflutningsgreinar

Réttindi og skyldur eru hluti af launakjörum

Atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði keppa við ríkið um hæft starfsfólk

Virði sérréttinda opinberra starfsmanna

Stílfært dæmi

Heimildir: Viðskiptaráð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins

Þegar starfsmenn taka ákvörðun um hvar þeir vilja starfa horfa þeir ekki einungis til launakjara heldur einnig réttinda og skyldna. Almenni markaðurinn, sem stendur undir verðmætasköpun og þar með tekjum ríkissjóðs, verður að vera samkeppnishæfur við opinbera markaðinn um kaup og kjör.

Sérréttindi opinberra starfsmanna hafa verið metin til um 10-19% launahækkunar í formi styttri vinnutíma, meiri orlofsréttar, ríkari veikindaréttar og aukinnar uppsagnarverndar.

Þó erfitt sé að meta með beinum hætti þann kostnað sem fellur á hið opnbera vegna sérréttinda opinberra starfsmanna er ljóst að þau draga úr skilvirkni með ýmsum hætti.

  • Hægt væri að auka sveigjanleika og skilvirkni í opinberum rekstri með því að endurskoða lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulög og kjarasamninga.

  • Ríkuleg réttindi á opinbera markaðinum skapa viðvarandi þrýsting í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði sem stuðlar að ósjálfbærum launahækkunum.

  • Jafnari samkeppnisgrundvöllur milli almenna og opinbera markaðarins eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins, sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og þar með auknum skatttekjum.

Lagarammi

Ólík lagaumgjörð almenna og opinbera markaðarins

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986
Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóma- og slysaforfalla nr. 19/1979Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996
Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980Stjórnsýslulög nr. 37/1993

Ráðningar

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Ekki skylt að auglýsa eða ráða eftir efni auglýsingar.Skylt að auglýsa og ráða eftir efni auglýsingar. Byggist á lagaákvæði hjá ríkisstarfsmönnum en er kjarasamningsbundið hjá starfsfólki sveitarfélaga.

Laun og kjarasamningar

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Réttindi og skyldur eru almennt kjarasamningsbundinn. Kjarasamningum er veitt gildi sem lágmarks kjör í tilteknum starfsgreinum. Innan þeirra marka sem kjarasamningar og löggjöf setja fer um kjör eftir því sem aðilar ráðningarsamningsins koma sér saman um.Kjarasamningum veitt gildi sem lágmarkskjör. Umsamin laun í kjarasamningum er í raun bæði lágmarks og hámarkslaun, m.a. á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Lífeyrisréttindi

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Réttindi byggð á kjarasamningum og skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, þó geta áunnin lífeyrisréttindi breyst eftir starfslok ef staða sjóðsins fullnægir ekki þeim skilyrðum um eignastöðu sem lögin kveða á um.Stór hópur sjóðfélaga í lífeyrissjóðum starfsmanna hins opinbera er með talsvert betri réttindi en sjóðfélagar í hinum almennu lífeyrissjóðum.

Starfsöryggi

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Uppsagnarréttur er umsaminn í kjarasamningum. Almennt engin ákvæði um sérstaka uppsagnarvernd í kjarasamningum á almennum markaði.Lög nr. 70/1996 og stjórnsýslulög nr. 37/1993 veita starfsmönnum ríkisins sérstaka uppsagnarvernd. Starfsfólk sveitarfélaga nýtur hins vegar sérstakrar uppsagnarverndar á grundvelli stjórnsýslulaga og í kjarasamningum.
Undantekningar í sérlögum s.s. lögum um fæðingar- og foreldraorlof, og um fámenna hópa t.d. trúnaðarmenn stéttarfélaga skv. lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.Skylt að veita starfsmönnum áminningu fyrir uppsögn eigi uppsögnin rætur að rekja til persónu starfsmannsins. Áður en áminning er veitt skal veita starfsmanni andmælarétt.

Verkfalls- og verkbannsréttur

Almennur vinnumarkaðurOpinber vinnumarkaður
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 veita stéttarfélögum heimild  til  verkfalla og atvinnurekendum til verkbanns.Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 veita atvinnurekendum engar heimildir til verkbanns í vinnudeilu.

Flestir atvinnurekendur telja tímabært að gera breytingar á vinnulöggjöfinni

Launaþróun í takti við verðmætasköpun stuðlar að hóflegri verðbólgu. Líta má á sjálfbæra launaþróun sem almannagæði.

Telur þú þörf á breytingum á vinnulöggjöfinni? 

75% telja þörf á breytingum

Heimild: Könnun Gallup fyrir SA, í sept-okt 2022 á meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja.

Umgjörð kjarasamningaumhverfisins á Íslandi hefur valdið efnahagslegum óstöðugleika í gegnum tíðina.

Íslenska kjarasamningalíkanið einkennist af miklum fjölda stéttarfélaga, sem flest eru fámenn, og miklum fjölda kjarasamninga sem geta í einhverjum tilvikum náð til örfárra einstaklinga. Hver þessara fámennu hópa getur ráðist í aðgerðir til að brjóta niður þá launastefnu sem mörkuð hefur verið.

75% stjórnenda íslenskra fyrirtækja telja að gera þurfi breytingar á vinnulöggjöfinni.

Hægt er að leita fyrirmynda hjá hinum Norðurlöndunum. Í Svíþjóð er ríkissáttasemjara til að mynda óheimilt að stuðla að lausn kjaradeilu sem felur í sér meiri kostnaðarhækkun en felst í “merkinu” sem útflutningsgreinar semja um.

Tillögur SA til breytinga á vinnulöggjöf

Umbætur á vinnulöggjöf myndu stuðla að skilvirkari kjarasamningagerð.

Tillögur til breytinga á valdheimildum ríkissáttasemjara

  1. Hlutverk ríkissáttasemjara verði að stuðla að efnahagslegum stöðugleika með því að tryggja að launastefnu sé fylgt í öllum öðrum kjarasamningum í kjölfar stefnumarkandi kjarasamninga.
  2. Skylt verði að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu.
  3. Ríkissáttasemjari hafi heimild til að sameina atkvæðagreiðslur.
  4. Frestun vinnustöðvunar.

Tillögur til að efla vinnumarkaðslíkanið

  1. Ríki og sveitarfélög fái heimild til verkbanns í vinnudeilu.
  2. Opinberum starfsmönnum verði skylt að leggja fram skýrar kjarakröfur.

Tillögur til breytinga á uppsagnarvernd opinberra starfsmanna

  1. Áminningarskylda forstöðumanns stofnunar verði afnumin.
  2. Ekki verður lengur skylt að veita andmælarétt við starfslok opinberra starfsmanna.
  3. Ekki verður lengur skylt að rökstyðja uppsagnir starfsmanna og lausn embættismanna.

Félagslegir þættir

Launajöfnuður á Íslandi hefur aukist á undanförnum árum

Hlutfallslegur munur hæstu og lægstu launa hefur farið minnkandi á almenna og opinbera markaðinum undanfarinn áratug

Tíundastuðull reglulegra heildarlauna

Hlutfall milli heildarlaunasummu launafólks í efsta og neðsta tíundahluta

Heimildir: Hagstofa Íslands

Launajöfnuður á Íslandi er mikill í alþjóðlegum samanburði

Meðal hátekjuríkja er launajöfnuður hvergi meiri en á Norðurlöndunum

Launaójöfnuður í hátekjuríkjum

Hlutfall milli launa 9. tekjutíundar og 1. tekjutíundar, 2021

Heimildir: ILO – Global Wage Report 2024-2025

Launajöfnuður er mestur á Norðurlöndunum þegar horft er til hátekjuríkja. Í slíkum samanburði þarf að horfa til þess að samsetning hagkerfa og ólíkt vægi mismunandi atvinnugreina getur haft áhrif á launastig og launajöfnuð. Mikill launaójöfnuður getur skapað samfélagslegar áskoranir en mikill launajöfnuður getur einnig heft í för með sér að lítill hvati sé til menntunar eða sérhæfingar og framþróunar í starfi.

Launamunur kynjanna heldur áfram að dragast saman

Leiðréttur launamunur stóð í 3,6% árið 2023 samkvæmt rannsókn Hagstofunnar

Launamunur karla og kvenna

%

Heimildir: Hagstofa Íslands

Til eru mismunandi mælikvarðar á launamun kynja sem gera þarf greinarmun á:

Munur á atvinnutekjum tekur ekki tillit til vinnutíma, menntunar, starfs eða annarra þátta sem skýrt geta launamun . Munurinn skýrist því m.a. af því að karlmenn vinna að jafnaði meira en konur og eru í öðrum störfum og atvinnugreinum. Munur á atvinnutekjum karla og kvenna hefur farið minnkandi m.a. vegna þess að vinnutími karla hefur styst meira en vinnutími kvenna.

Óleiðréttur launamunur ber saman meðaltal tímakaups (reglulegra heildarlauna) karla og kvenna , en ekki er tekið tillit til þátta líkt og aldurs, menntunar, starfs eða atvinnugreinar. Tímakaup yfirvinnu er hærra en tímakaup dagvinnu. Einstaklingur sem vinnur hlutfallslega fleiri yfirvinnutíma hefur því hærra tímakaup jafnvel þó báðir hafi sama grunntímakaup. Óleiðréttur launamunur er talsvert minni í yngri aldurshópum en í þeim eldri.

Leiðréttur launamunur tekur tillit til þátta á borð við menntunarstig, starfsaldur, starf og atvinnugrein . Hafa ber í huga að ekki er hægt að taka til greina alla þætti sem hafa áhrif á laun einstaklinga þar sem þeir eru ýmist illmælanlegir eða gögnin ekki tiltæk. Því ber að fara varlega þegar kemur að ályktunum sem hægt er að draga af leiðréttum launamun.

Launamunur kynjanna skýrist meðal annars af vinnutíma og kynskiptum vinnumarkaði

Karlar vinna að jafnaði lengri vinnutíma en konur og vinna jafnframt meiri yfirvinnu

Meðalfjöldi vinnustunda karla og kvenna á viku

16- 74 ára

Hlutfall kvenna í atvinnugreinum

%, 2023

Heimildir: Hagstofa Íslands, Í aðal- og aukastarfi skv. vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands

Ein helsta skýring þess að dregið hefur úr mun á atvinnutekjum karla og kvenna er sú að hlutfallslegur munur á vinnutíma karla og kvenna er talsvert minni en áður var. Karlmenn vinna að jafnaði einnig meiri yfirvinnu, en tímakaup yfirvinnu er hærra en tímakaup dagvinnu. Þá er vinnumarkaðurinn enn kynskiptur, þ.e.a.s. hlutfall karla og kvenna er mismunandi eftir starfsstéttum. Konur eru hlutfallslega fjölmennar í opinberum atvinnugreinum s.s. heilbrigðisþjónustu, fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu en hlutfallslega fámennar í atvinnugreinum á borð við framleiðslu og byggingarstarfsemi.

Jafnlaunavottun hefur göfugan tilgang en ætti að vera valkvæð

Samtök atvinnulífsins studdu jafnlaunastaðalinn og komu að mótun hans en studdu ekki lögfestingu staðalsins

Jafnlaunavottun var lögfest með séríslenskum jafnlaunastaðli og lögum nr. 56/2017 sem tóku gildi 1. janúar 2018. Markmiðið með lögbundinni jafnlaunavottun var að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Staðlinum er enn fremur ætlað að auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að formfesta launaákvarðanir og tryggja að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Rík ástæða er hins vegar til að efast um að lögfesting jafnlaunastaðalsins hafi marktæk áhrif á kynbundinn launamun. Helsta skýring munarins sem eftir stendur er kynbundinn vinnumarkaður - hlutfall kynja eftir starfsstéttum er ólíkt. Mishá laun milli starfsgreina og fyrirtækja hafa þannig áhrif á launamun milli kynjanna þó að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar innan starfsgreina eða fyrirtækja, eins og vottuninni er ætlað að stuðla að.

Sjónarmið SA gegn lögfestingu jafnlaunavottunar

  • Stjórnunarstaðlar eru almennt ekki lögfestir.

  • Innleiðing jafnlaunastaðals getur verið flókið verkefni og í einhverjum tilfellum á skjön við þá framkvæmd sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um við launasetningu starfa í kjarasamningum. Því er ekki ljóst hvernig samningsréttur aðila vinnumarkaðar samræmist lögunum.

  • Verulega hefur dregið úr launamun kynjanna á umliðnum áratugum samhliða auknu menntunarstigi kvenna og aukinni atvinnuþátttöku á ýmsum sviðum samfélagsins, þar með talið í ábyrgðarstöðum. Fyrirséð var að áfram myndi draga úr launamun kynjanna óháð jafnlaunavottun.

  • Ekkert mat var lagt á kostnað fyrirtækja og stofnana vegna innleiðingar staðalsins en fjöldi fyrirtækja þarf að fá aðkeypta sérfræðiaðstoð, verja tíma eigin starfsmanna í verkefnið og festa kaup á hugbúnaði til að halda utan um þær skrár sem staðallinn krefst. Innleiðing er því kostnaðarsöm.

  • Ríkt svigrúm er til fjölbreyttrar skilgreiningar starfa og skýribreytna sem leiðir til þess að hæglega er unnt að komast hjá tilgangi vottunarinnar ef viljinn er fyrir hendi. Vottunin er því ekki fær um að tryggja með óyggjandi hætti að engin kynbundin mismunun eigi sér stað.

Mikill meirihluti telur meiri kostnað en ávinning af innleiðingu jafnlaunastaðalsins

Talsverður munur er á kostnaði fyrirtækja við jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu

Jafnlaunavottun eða -staðfesting

Ávinningur af ferlinu verður meiri en kostnaðurinn

Raunkostnaður við ferlið

Milljónir króna, að meðaltali

Heimild: Könnun Samtaka atvinnulífsins og Maskínu, september-október 2024

Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í annað sinn könnun meðal félagsmanna sinna um reynslu þeirra af jafnlaunavottun haustið 2024.

Fyrri könnunin var framkvæmd árið 2021 en er nú komin umtalsvert meiri reynsla af framkvæmd jafnlaunavottunar. Auk þess er hægt að bera ferli jafnlaunavottunar saman við ferli jafnlaunastaðfestingar, sem fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn er heimilt að undirgangast í stað jafnlaunavottunar. Af þeim sem var heimilt að velja jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu, í stað jafnlaunavottunar, kusu 62% staðfestingu í stað vottunar.

Viðhorf fyrirtækja gagnvart innleiðingunni er nokkuð afgerandi neikvætt samkvæmt könnuninni en einungis 22% þeirra sem svöruðu töldu ávinninginn af ferlinu vera meiri en kostnaðinn.

Niðurstöður könnunar SA um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu

Mikillar neikvæðni gætti gagnvart ferlinu í opnum svörum atvinnurekenda þar sem yfirgnæfandi meirihluti svarenda veitti ferlinu afgerandi neikvæða endurgjöf. Þar kom helst fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, þjónaði ekki tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni og að vottunin ætti að vera valkvæð.

Þó voru einhverjir jákvæðir gagnvart ferlinu og töldu staðalinn geta hjálpað fyrirtækjum að auka formfestu í launaákvörðunum. Meðal jákvæðra áhrifa af innleiðingunni voru jákvæðari ímynd fyrirtækisins (29%) og ánægðara starfsfólk (22%). Athygli vakti þó að einhverjir töldu innleiðinguna hafa neikvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins (5%) og töldu starfsfólkið óánægðara (11%) vegna hennar.

Heimild: Könnun Samtaka atvinnulífsins og Maskínu, september-október 2024

Af þeim sem standa utan vinnumarkaðar eru eftirlaunaþegar stærsti hópurinn

Um fjórðungur þeirra sem standa utan vinnumarkaðar eru öryrkjar og fatlaðir

Hlutfall þeirra sem eru utan vinnumarkaðar

Hlutfall fólks, 16-74 ára, utan vinnumarkaðar eftir meginstöðu, 2023.

Heimild: Hagstofa Íslands

Að standa utan vinnumarkaðar þýðir að einstaklingur telst ekki hluti af vinnuaflinu, sem samanstendur af þeim sem eru annaðhvort í vinnu eða í virkri atvinnuleit. Þeir sem standa utan vinnumarkaðar eru því hvorki starfandi né í atvinnuleit.

Stærsti hópur fólks sem stendur utan vinnumarkaðar er eftirlaunaþegar, þar á eftir koma öryrkjar og fatlaðir og því næst námsmenn.

Þeir sem standa utan vinnumarkaðar teljast ekki með í útreikningum á atvinnuleysi þar sem hlutfall atvinnuleysis byggir eingöngu á þeim sem eru í vinnu eða í virkri atvinnuleit.

Eftir því sem þjóðin eldist standa sífellt færri undir samneyslunni

Vandinn eykst samhliða brottfalli af vinnumarkaði vegna aldurs

Fjöldi á aldrinum 20-64 ára á bak við hvern 65 ára og eldri

M.v. miðspá mannfjöldaspá Hagstofu Íslands (miðgildi)

Heimildir: Hagstofa Íslands og útreikningar SA

Konur eru 61% örorkulífeyrisþega

Fjöldi greiðsluþega örorkulífeyris á ári

Hjá TR

Heimild: Tryggingastofnun Ríkisins og Samtök atvinnulífsins

Hlutfall örorkulífeyrisþega eftir aldri

Hlutfall af heildarmannfjölda á hverju aldursbili (%)

Aldursskipting örorkulífeyrisþega

M.v. janúar 2024

Heimild: Tryggingastofnun Ríkisins og Samtök atvinnulífsins

Öryrkjum hefur fjölgað í hlutfalli við starfandi en nýlega hefur orðið viðsnúningur

Fjöldi þeirra sem eru metnir 75% öryrkjar jafngildir nú um 9% af vinnuafli

Fjöldi örorkulífeyrisþega í hlutfalli við fjölda starfandi

%

Þróun fjölda öryrkja og vinnuaflsins

Vísitala, 2000 = 100

Heimildir: Tryggingastofnun og Hagstofa Íslands

Nýgengi örorku hefur minnkað en nýgengi endurhæfingarlífeyris hefur aukist

Stofnun VIRK, lengdur réttur til endurhæfingarlífeyris og breyttar áherslur hjá TR hafa skilað árangri

Nýgengi 75% örorkumats

Fjöldi

Nýgengi endurhæfingarlífeyrisþega

Fjöldi

Heimild: Tryggingastofnun Ríkisins og Samtök atvinnulífsins

VIRK gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að starfsendurhæfingu

Allt að 1.800 einstaklingar hafa útskrifast árlega og þar af um 80% farið í vinnu, atvinnuleit eða nám að þjónustu lokinni

Fjöldi nýrra og útskrifaðra þjónustuþega VIRK

Heimild: VIRK

Í kjarasamningum í febrúar 2008 sömdu ASÍ og SA um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar á Íslandi. Í framhaldinu var sjálfseignarstofnunin VIRK Starfsendurhæfingarsjóður stofnuð.

Fyrstu árin var starfsemin eingöngu fjármögnuð með framlagi frá atvinnulífinu en árið 2012 samþykkti Alþingi lög um atvinnutengda endurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Hófu lífeyrissjóðir í framhaldinu greiðslu iðgjalds til fjármögnunar á starfsemi VIRK.

Ekki hefur alltaf verið hægt að treysta á fjárframlög ríkisins til VIRK þrátt fyrir samkomulag þess efnis og lagaskyldu.

Á síðustu árum hafa um 2.300 nýir einstaklingar hafið þjónustu hjá VIRK á hverju ári og 1.600-1.800 útskrifast árlega. Þar af hafa um og yfir 80% verið komnir í vinnu, virka atvinnuleit eða nám að þjónustu lokinni.

Starfsgeta og líðan við upphaf og lok þjónustu VIRK

Á kvarðanum 0-10

Heimild: VIRK

Gallup hefur framkvæmt þjónustukönnun fyrir VIRK þar sem viðhorf einstaklinga til þjónustunnar er kannað. Af þeim sem svöruðu könnuninni árið 2023 töldu 82% að þjónusta og úrræði á vegum VIRK hafi aukið starfsgetu þeirra.

Talnakönnun hefur frá árinu 2013 metið heildarávinning af starfsemi VIRK og nam hann 19,4 milljörðum á árinu 2023 eða sem nemur um 12 milljónum króna fyrir hvern útskrifaðan einstakling.

Ljóst er að þjóðhagslegur ávinningur af starfsemi VIRK er umtalsverður auk þess sem þjónustukannanir hafa ítrekað sýnt að einstaklingar sem fá þjónustu telja hana haft mikil og jákvæð áhrif á sjálfsmynd sína og aukið vinnugetu. Þjónustuþegar telja jafnframt heilsu sína og lífsgæði mun betri við lok þjónustu en við upphaf hennar.

Greiðsla veikindakaups á Norðurlöndunum

Greiðslur atvinnurekenda vara í 13-30 daga á hinum Norðurlöndunum

Frá fyrsta degi veikinda til starfsgetumats

Á hinum Norðurlöndunum er unnið með virkum hætti að endurkomu starfsmanns með tímasettri áætlun og endurmati

Regluverk á leiðinni

Regluverk ESB á vinnumarkaði sem innleitt verður næstu misseri

Helstu tilskipanir

Tilskipun um bætt starfsskilyrði lausráðinna/verktaka (e. platform workers) (Directive 2024/2831)

  • Efni: Tilskipunin gerir það að verkum að lausráðnir/verktakar (e. platform workers) geta verið flokkaðir sem launamenn en ekki verktakar og hljóti þar af leiðandi réttindi sem slíkir. Tilskipunin setur einnig kvaðir á fyrirtæki sem eru í ráðningarsambandi við slíkt starfsfólk um meðhöndlun persónuupplýsinga starfsfólks.

  • Staða: Tilskipunin hefur verið samþykkt á vettvangi ESB og talin vera EES tæk. Hún er í skoðun á vettvangi EFTA en innan ESB ríkja tekur hún gildi 2. desember 2026.

Tilskipun um gagnsæ og fyrirsjáanleg vinnuskilyrði (Directive 2019/1152)

  • Efni: Markmið tilskipunarinnar er stuðla að bættum vinnuskilyrðum með því að upplýsa starfsmenn um réttindi þeirra, hvernig vinna þeirra mun verða skipulögð og til hvers ætlast er til af þeim í vinnu. Ganga þarf frá ráðningarsamningi / skriflegri staðfestingu ráðningar fyrr en nú gildir, auknar kröfur um upplýsingar og viðurlög verða hert.

  • Staða: Félagsmálaráðuneytið hefur óskað þess að SA og ASÍ kanni möguleika á innleiðingu tilskipunarinnar með kjarasamningi.

Tilskipun um jafnvægi milli vinnu og einkalífs foreldra og umönnunaraðila (Directive 2019/1158)

  • Efni: Tilskipunin kveður á um lágmark launaðs fæðingarorlofs, sem ætti ekki að hafa áhrif á íslenska löggjöf. Einnig umönnunarorlof, allt að 5 daga á ári, vegna umönnunnar nákomins aðila. Foreldrar barna, 8 ára og yngri, geta óskað eftir sveigjanlegum starfsskilyrðum, s.s. hlutastarfi, sveigjanlegum vinnutíma eða fjarvinnu. Atvinnurekandi þarf þá að rökstyðja höfnun.

  • Staða: Gerðin var samþykkt á vettvangi ESB árið 2019 en tók ekki að fullu gildi á þeim vettvangi fyrr en árið 2024. Tilskipunin hefur verið samþykkt af sameiginlegu EES nefndinni en ekki verið innleidd á Íslandi.

Launagagnsæistilskipunin (Directive 2023/970)

  • Efni: Tilskipunin felur í sér gagnsæisstaðla hvað varðar laun starfsmanna með það að markmiði að koma í veg fyrir launamun kynjanna. Starfsfólk mun geta óskað eftir upplýsingum um meðallaun fyrirtækis, sundurliðað eftir kyni, fyrir sambærileg störf innan fyrirtækis.    Fyrirtæki með 100 eða fleiri starfsmenn skulu framkvæma reglulegar launagreiningar og birta niðurstöður þeirra. Ef launamunur milli kynja er meiri en 5% og ekki er hægt að réttlæta hann með hlutlægum þáttum, skula gripið til aðgerða til að leiðrétta stöðuna.

  • Staða: EFTA hefur gerðina til skoðunar en innan ESB ber ríkjum að innleiða hana fyrir 7. júní 2027.

Íslenskur vinnumarkaður

01.

Inngangur

02.

Stöðugleikasamningurinn

03.

Fólk á vinnumarkaði

04.

Laun á vinnumarkaði

05.

Launaseðillinn

06.

Almenni og opinberi markaðurinn

07.

Félagslegir þættir

08.

Regluverk á leiðinni