Vinnumálastofnun mun ekki greiða hlutabætur til starfsmanna á uppsagnarfresti

Rúmlega þrjátíu þúsund launamenn hafa nýtt sér hina svokölluðu hlutabótaleið stjórnvalda og þannig samið um hlutastarf og fengið greiddar hlutabætur úr ríkissjóði. Þessi stærsta efnahagslega aðgerð sem stjórnvöld hafa kynnt til þessa sem viðbragð við COVID 19 var sett saman við mjög óvanalegar aðstæður en frá þeim tíma hafa horfur í atvinnulífinu farið versnandi sem kallar á ný úrræði fyrir atvinnulíf og launafólk.

Örfá álitamál hafa komið upp í tengslum við þetta úrræði stjórnvalda, meðal annars hvort heimilt sé að greiða hlutabætur til starfsmanna á uppsagnarfresti. Þar sem ákvæðið um hlutabætur er óskýrt hvað það varðar hafa Samtök atvinnulífsins túlkað lögin umsækjendum í hag.

Vinnumálastofnun hefur nú tilkynnt að svo verði ekki. Það er, að engar hlutabætur verði greiddar til starfsmanna sem eru á uppsagnarfresti. Samtök atvinnulífsins hafa ekki úrskurðarvald um rétt einstaklinga til atvinnuleysisbóta og munu hér eftir beina því til aðildarfyrirtækja að haga uppsögnum og samningum um hlutastörf til samræmis við túlkun Vinnumálastofnunar. Óvissa um framkvæmd megi ekki bitna á starfsfólki fyrirtækjanna.