Taktu tvær

Fyrirmælasvindl

Fyrirmælasvindl

Starfsmenn fyrirtækja verða reglulega fyrir vel úthugsuðum fyrirmælasvikum, sérstaklega starfsmenn sem hafa nýlega hafið störf. Þá eru starfsmenn ginntir til að greiða háar fjárhæðir í nafni fyrirtækisins sem þeir vinna hjá, samkvæmt fyrirmælum sem þeir halda að komi frá yfirmanni sínum.

Mikilvægt er að samskipti um greiðslur fylgi skýrum ferlum og að samskiptaleiðir séu greiðar á milli starfsmanna.

Svik í formi fyrirmælafalsana fara fram með þeim hætti að falsaðir tölvupóstar eru sendir til starfsfólks fyrirtækja, oft undir nafni stjórnenda, með fölskum fyrirmælum um framkvæmd greiðslu. Oft eru svikararnir vel undirbúnir og fölsuðu fyrirmælin mjög trúverðug. Svikararnir nýta sér óvissutímabil eins og þegar nýir starfsmenn hefja störf, í skipulagsbreytingum eða fríum.

Svikarar nýta sér hegðun og ályktanir til að skipa starfsfólki fyrir í nafni yfirmanns eða yfirvalds. Slík svik eru oft mjög fagmannlega unnin og fyrirmælin trúverðug.

Svikararnir senda falsaðan póst í nafni yfirmanns á starfsmann með fyrirmælum um að framkvæma millifærslu sem fyrst.

Ef að starfsmaðurinn verður ekki við fyrirmælunum sendir svikarinn ítrekun á starfsmann í nafni yfirmanns og tekur fram að ekki náist í hann til staðfestingar.

Starfsmaður lætur undan þrýstingi og millifærir á reikning sem er í eigu svikarans.

Fyrirmælasvik eru algeng og hægt að koma í veg fyrir þau með einföldum en traustum verklagsreglum.

Hvernig getur þú varast slík svik?

Besta leiðin til að koma í veg fyrir svik af þessu tagi eru opinská samskipti um slík svik og að fylgja skýru verklagi um millifærslur fyrir hönd fyrirtækisins. Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  1. Fræða starfsfólk um einkenni fyrirmælasvika og þjálfa það í að þekkja hætturnar.
  2. Leggja áherslu á smáatriðin í fyrirmælum svo sem netfang, birtingarnafn, greiðsluupplýsingar og athuga hvort fleiri hafi fengið svipaðan póst.
  3. Ekki láta undan þrýstingi og vera meðvituð um að ítrekanir eru til að láta starfsfólkið gera mistök.
  4. Hluti af öruggu verklagi er að greiðslubeiðnir og breytingar hjá birgjum séu staðfestar með símtali .
  5. Tryggja að greiðslusamþykktarferli sé til staðar og að verklagsreglur séu uppfærðar og þeim fylgt.