Ný könnun: Aukin bjartsýni stjórnenda og aðgerðir stjórnvalda gagnast ferðaþjónustu vel

Tæplega 67 prósent stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu telja að aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í mars í fyrra hafi verið gagnlegar. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna nýrrar könnunar meðal forsvarsmanna aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins.

Tæplega helmingur forsvarsmanna allra fyrirtækja telur að aðgerðirnar í heild hafi komið að miklu eða einhverju gagni. Jákvæðni ríkir því gagnvart aðgerðum stjórnvalda meðal fyrirtækja og hefur sú afstaða lítið breyst síðastliðna 6 mánuði, þrátt fyrir að faraldurinn hafi dregist á langinn.

Aukin bjartsýni

Tæplega sextíu prósent forsvarsmanna fyrirtækja innan vébanda SA eru mjög eða fremur bjartsýnir á rekstur fyrirtækja sinna næstu sex mánuði. Um fjórðungur er hóflega bjartsýnn, en 14 prósent eru fremur eða mjög svartsýnir. Þá eru aðilar í ferðaþjónustu ekki eins bjartsýnir og aðrir á þróunina næstu sex mánuði.

Hlutastarfaleiðin og frestun skattgreiðslna nýttist fyrirtækjunum best

Rúmlega 10 prósent fyrirtækjanna hafa nýtt sér svokallaða hlutastarfaleið fyrir allt sitt starfsfólk. Tæplega 21 prósent þeirra hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina fyrir einhvern hluta starfsfólks. 69 prósent hafa ekki nýtt sér úrræðið.

Í ferðaþjónustu og tengdum greinum er nýting  úrræðisins mun meiri, en 20 prósent fyrirtækja innan greinarinnar nýttu sér leiðina fyrir allt sitt starfsfólk, rúmlega 26 prósent fyrir meira en helming starfsfólks síns og tæplega 8 prósent fyrir minna en helming starfsfólksins.

Almennt virðast fyrirtæki telja aðgerðir stjórnavalda gagnlegar, þar sem 44,5 prósent þeirra telja gagnsemi aðgerða mikla eða einhverja, en 35 prósent stjórnenda telja þær koma að engu eða litlu gagni. Gagnsemin er heldur meiri í ferðaþjónustunni þar sem tveir þriðju forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu og flutningum telja að aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í mars 2020 hafa komið að einhverju eða miklu gagni. Rúmlega 27 prósent forsvarsmanna fyrirtækja í greininni segja hins vegar aðgerðirnar koma að engu eða litlu gagni.

Hlutastarfaleiðin sú aðgerð sem gagnast fyrirtækjum mest þar sem 37 prósent fyrirtækja telja að hún komi að einhverju eða miklu gagni. Gagnsemin er langmest í ferðaþjónustu þar sem 64 prósent fyrirtækja nýttu sér úrræðið.  Frestun skattgreiðslna  gagnaðist næstmest þar sem 28 prósent fyrirtækjanna telja að hún hafi komið að einhverju eða miklu gagni. Í ferðaþjónustu og tengdum greinum er hlutfallið mun hærra, eða 42 prósent.

Fækkun í hópi þeirra sem telja mikla þörf á frekari aðgerðum

Færri en áður telja brýna þörf á frekari efnahagsaðgerðum íslenskra stjórnvalda vegna COVID-19. Í sams konar könnun í ágúst 2020 voru 36 prósent mjög sammála því að þörf væri á frekari aðgerðum stjórnvalda vegna kórónukreppunnar. Það hlutfall hefur færst niður í 19 prósent.

Fleiri innan ferðaþjónustu eru þó mjög sammála því að frekari aðgerða sé þörf, eða um 30 prósent, en hlutfallið hefur lækkað talsvert þar sem það var 62 prósent í ágúst síðastliðnum.

Um könnunina

Könnunin er gerð af Maskínu fyrir Samtök atvinnulífsins og er fjórða könnun SA á áhrifum kórónukreppunnar á fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Hún fór fram dagana 12. febrúar til 2. mars 2021. Spurningar voru lagðar fyrir rúmlega 1.800 forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga aðild að SA og svöruðu 706 talsins, sem gerir 39,1% svarhlutfall.