Hringferð SA hófst í morgun í Reykjanesbæ

Hringferð Samtaka atvinnulífsins hófst í morgun í Reykjanesbæ á vel sóttum fundi á Park Inn by Radison við Hafnargötu í Reykjanesbæ í hádeginu í dag.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri, Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs samtakanna ræddu við félagsmenn á svæðinu um atvinnulífið, tækifærin í Reykjanesbæ og veginn framundan. Nokkuð líflegar umræður sköpuðust að lokinni framsögu Halldórs og Ásdísar.

Þá heimsóttu fulltrúar SA nokkur fyrirtæki á svæðinu, en þau voru Samkaup, Marriott og Nesraf.

Á morgun, miðvikudaginn 2. júní, er förinni heitið til Ísafjarðar, þar sem sambærilegur fundur með félagsmönnum verður haldinn á Hótel Ísafirði á milli 12 og 13.30.