Vinnumarkaður - 

19. nóvember 2018

Sagafilm hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2018

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sagafilm hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2018

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra veitti Sagafilm Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2018 á fundi um jafnréttismál sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun. Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sagafilm, veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku ásamt Hrönn Þorsteinsdóttur, fjármála- og starfsmannastjóra Sagafilm.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra veitti Sagafilm Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2018 á fundi um jafnréttismál sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun. Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sagafilm, veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku ásamt Hrönn Þorsteinsdóttur, fjármála- og starfsmannastjóra Sagafilm.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála, sem nú eru veitt í fimmta sinn, er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Árangur fyrirtækisins í jafnréttismálum ber þess merki að stjórnendur hafa sett skýr markmið og óhikað hrundið þeim í framkvæmd.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands standa að Hvatningaverðlaunum jafnréttismála og er landsnefnd UN Women á Íslandi sérstakur samstarfsaðili.

Í áliti dómnefndar segir meðal annars:

 „Árangur fyrirtækisins í jafnréttismálum ber þess merki að stjórnendur hafa sett skýr markmið og óhikað hrundið þeim í framkvæmd. Saga Film starfar í geira þar sem karlar hafa verið ráðandi og því nauðsynlegt að hafa einbeittan vilja til að breyta því. Meðvitaðar ákvarðanir hefur þurft til að tefla fram kvenkyns leikstjórum og handritshöfundum. Ákvarðanir hafa síðan áhrif á framleiðslu fyrirtækisins þar sem glöggt má sjá að hlutur kynjanna hefur jafnast og konur fengið aukið vægi. Sögurnar sem sagðar eru spegla þannig betur en áður raunveruleikann.

Saga Film hlaut jafnlaunavottun fyrr á þessu ári og kynjahlutföll meðal starfsfólks eru jöfn. Fyrirtækið hefur ekki einungis beint jafnréttisgleraugunum að starfsfólki sínu og eigin starfsemi heldur einnig að aðkeyptri þjónustu sem er hluti af virðiskeðju sjónvarps- og kvikmyndagerðarinnar. Fyrirtækið er með færri fasta starfsmenn en fyrri verðlaunahafar og hefur því þurft að nálgast jafnrétti kynjanna öðruvísi en mörg önnur.

Með markvissum aðgerðum og einbeittum vilja hefur fyrirtækið sýnt að mögulegt er að takast á við ríkjandi kynjakerfi. Snarpir vindar hafa blásið um jafnréttisumræðuna að undanförnu og gert að verkum að við höfum þurft að staldra við og endurskoða gamalgróin viðhorf. Sú umræða spratt frá borg englanna, heimahöfn alþjóðlega kvikmyndageirans. Það er því einstaklega ánægjulegt og til marks um breyttar áherslur í geiranum, að viðurkenninguna að þessu sinni hljóti fyrirtæki sem er leiðandi á því sviði.“

Í dómnefnd voru Helga Lára Haarde formaður skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þorsteinn Kári Jónsson frá Festu, Arnar Gíslason frá Háskóla Íslands og Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

Verðlaunin voru veitt á morgunfundi um jafnrétti á vinnumarkaði og vinnustaðamenningu sem fram fór í Hátíðarsal HÍ. Fundurinn var vel sóttur og líflegur en erindi fluttu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ásta Jóhannsdóttir, nýdoktor á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Magnús Orri Schram ráðgjafi og Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar, sem fékk verðlaunin árið 2017 undir merkjum Vodafone en fyrirtækið hefur fengið nýtt nafn. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, stýrði fundinum.

Samtök atvinnulífsins þakka þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína í Háskóla Íslands í morgun og óska Sagafilm til hamingju með hvatningarverðlaunin. Sjáumst að ári.

Tengt efni:

Myndir frá Hvatningarverðlaunum jafnréttismála 2018 á Facebook

Samtök atvinnulífsins