Lykilatriði að fjármálastefnan styðji við hagkerfið

Samtök atvinnulífsins telja að í ljósi aðstæðna í heimshagkerfinu og þeirra hörðu sóttvarnaraðgerða sem nú eru við lýði megi færa rök fyrir því að efnahagsforsendur fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar séu heldur bjartsýnar. Gert er ráð fyrir ríflega 8% samdrætti í ár en að efnahagsbatinn verði kominn vel á veg strax á næsta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn SA um fjármálastefnuna. Þar leggja samtökin m.a. til ábyrg ríkisfjármál, tiltekt í opinberum rekstri og samkeppnishæft skattkerfi, innviðafjárfestingar sem hámarka þjóðhagslegan ávinning, skapa verðmæti og störf og græna viðspyrnu.

Í umsögninni kemur fram að ekki virðist vera horft til mögulegra breytinga á gengi krónunnar og áhrif þess á verðbólgu eða ríkisfjármál í fjármálastefnunni. Seðlabanki Íslands hefur verið með fremur einhliða inngrip á gjaldeyrismarkaði að undanförnu. Ljóst er að þrýstingur er á gengi krónunnar vegna fyrirsjáanlegs halla á þjónustuviðskiptum á komandi misserum. Í umsögninni kemur fram að vert væri að skoða hvort eða hvaða áhrif gengisfall gæti haft á fjármálastefnu, ekki síst í ljósi fyrirsjáanlegrar skuldaaukningar.

Sviðsmyndir verulega til bóta

Tekið er þó fram í fjármálastefnunni að ekki sé útilokað að þróun faraldursins reynist verri með tilheyrandi búsifjum fyrir efnahagslífið. Í ljósi óvissunnar er sviðsmynd sett fram,  sem er verulega til bóta. Samkvæmt þeirri sviðsmynd er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 0,6% á árinu 2021 eða rúmlega fjórum prósentustigum minni en grunnforsendur. Áhrif þess á afkomu miðað við þá sviðsmynd er að afkoma hins opinbera verði lakari um sem nemur 1,5% af VLF árin 2021 og 2022.

Þá segir í umsögninni að öllum sé ljóst að þær forsendur sem heimili, fyrirtæki, ríkissjóður og sveitarfélög horfðu til í upphafi árs hafi gjörbreyst til hins verra. Samdráttur í ár sé óumflýjanlegur og verður líklega sá mesti sem mælst hefur í heila öld. Spár gera ráð fyrir að verðmætasköpun fram til ársins 2023 verði 750 milljörðum lakari að raunvirði en forsendur gerðu ráð fyrir áður en faraldurinn skall á.

Ennfremur segir að ekki sé síður mikilvægt að sjálfbærni ríkisfjármála sé höfð að leiðarljósi og tryggt að ekki skapist freistnivandi til aukinna útgjalda ef hagvöxtur reynist meiri en grunnspá stefnunnar gerir ráð fyrir í dag. Má því athuga hvort óvissubilið mætti skorðast betur við þróun hagvaxtar með þetta í huga.

Skýr markmið

Lykilatriði er að fjármálastefnan styðji við hagkerfið án þess að ógna sjálfbærni ríkisfjármála. Skatttekjur hins opinbera eru takmarkaðar og vanda þarf valið þegar kemur að aðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum. 

Tekið er fram í tillögunni að það efnahagsáfall sem við stöndum nú frammi fyrir sé eðlisólíkt fyrri kreppum að því leyti að afleiðingar þess leggist með mjög ólíkum hætti á hópa samfélagsins. Hlutverk stjórnvalda sé annars vegar að dreifa byrðum áfallsins jafnar og að leggja grunninn að verðmætasköpun. Í umsögn SA er tekið undir bæði þessi sjónarmið. Þetta áfall er einnig eðlisólíkt öðrum fyrri áföllum á þann hátt að veruleg röskun er á framleiðsluþáttum víða í hagkerfinu á meðan kaupmáttur flestra hefur haldist eða jafnvel aukist. Því ætti að notast við eftirspurnarhvetjandi aðgerðir á takmarkaðan og skilvirkan hátt þannig að þær nýtist sem best við að endurræsa vannýtta framleiðsluþætti þegar staða veirufaraldursins gefur tilefni til. 

Nútímasamfélag einkennist af alþjóðaviðskiptum, flóknum virðiskeðjum og mikilli sérhæfingu. Dragist núverandi aðstæður á langinn mun það skapa efnahagslega óvissu sem gæti haft alvarleg og langvarandi keðjuverkandi áhrif. Tilgreint er sérstaklega í tillögunni að róðurinn verði þungur fyrir ferðaþjónustuaðila á komandi vetri. Lykilatriði í þessu samhengi er að stöðva neikvætt endurkast, viðhalda atvinnustigi eins og unnt er, með eins lítt íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum og réttlætanlegt er talið af heilbrigðisyfirvöldum. 

Sértækra aðgerða þörf

Beita þarf sértækum og tímabundnum aðgerðum sem miða að því að vernda samband atvinnurekenda og starfsfólks og auka sveigjanleika í bankakerfinu til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og atvinnuleysi, segir enn fremur í umsögninni.

Greiða þarf fyrir lánafyrirgreiðslum og skilmálabreytingum þannig að sveigjanleiki í bankakerfinu sé aukinn tímabundið. Á sama tíma þarf að styðja við kerfið og treysta því til að meta hvaða fyrirtæki hefðu verið rekstrarhæf ef ekki hefði verið fyrir tilkomu farsóttarinnar.

Fjöldagjaldþrot fyrirtækja án stuðnings við bankakerfið gæti leitt til fjármálakreppu sem væri afar kostnaðarsöm afleiðing sóttvarnaraðgerða. Ef komið er í veg fyrir þessar keðjuverkanir og neikvætt endurkast gæti ríkissjóður varist auknum útgjöldum eftir því sem heilsufarsleg áhrif veirunnar fjara út, að mati SA.

Ljóst er að skuldasöfnun ríkissjóðs til að ná þessum markmiðum verður veruleg á komandi árum en ekki er tilgreint með hvaða hætti fjármagns verður aflað. Æskilegt er að útgáfa skuldabréfa raski ekki um of innlendum fjármálamörkuðum og feli ekki í sér mikla gengis- eða vaxtaáhættu. Einnig væri til mikils unnið ef aukin skuldsetning ríkissjóðs yrði takmörkuð við ítrustu nauðsyn þar sem ljóst er að kostnaður útgjalda í dag mun að endingu lenda á komandi kynslóðum. Fyrir útgjöldunum þarf því að vera skýr og vel rökstudd réttlæting. Leita þarf allra leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í opinberri stjórnsýslu áður en stofnað er til skulda.

Hér má sjá umsögn SA í heild sinni.