Vinnumarkaður - 

03. júní 2019

Lífskjarasamningurinn á að tryggja öllum betri kjör

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lífskjarasamningurinn á að tryggja öllum betri kjör

Formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sendu félagsmönnum SA póst í dag þar sem þeir bentu á að Lífskjarasamningurinn feli í sér sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks og áréttuðu mikilvægi þess að umsamdar launabreytingar skili sér óskertar í launaumslagið.

Formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins  sendu félagsmönnum SA póst í dag þar sem þeir bentu á að Lífskjarasamningurinn feli í sér sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks og áréttuðu mikilvægi þess að umsamdar launabreytingar skili sér óskertar í launaumslagið.

Eyjólfur Árni Rafnsson og Halldór Benjamín Þorbergsson  fóru yfir þann mikla stuðning sem Lífskjarasamningurinn nýtur á meðal launafólks og atvinnurekenda og að gengið hafi verið út frá því að launaliðir samningsins kæmu óbreyttir til framkvæmda frá gildistöku samkvæmt efni þeirra, eins og ávallt gerist við gerð kjarasamninga.

Lífskjarasamningurinn felur í sér sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks og því mikilvægt að umsamdar launabreytingar skili sér óskertar í launaumslagið.
Póstinn má lesa í heild hér að neðan:

Ágætu félagsmenn Samtaka atvinnulífsins

Vel tókst til við endurnýjun kjarasamninga og um niðurstöðuna ríkir víðtæk sátt. Frá undirritun Lífskjarasamningsins hafa laun verið greidd um tvenn mánaðamót og yfir 100 þúsund starfsmenn fengið launahækkanir samkvæmt honum. Lífskjarasamningurinn fékk stuðning 80% greiddra atkvæða launafólks og 98% atkvæða atvinnurekenda. Byggt hefur verið upp traust milli launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda sem treysta þarf í sessi svo enn frekari árangur náist á næstu misserum og árum.

Fyrirtækin standa nú frammi fyrir mörgum og erfiðum áskorunum og Lífskjarasamningurinn auðveldar þeim að takast á við þær. Nokkuð hófleg upphafshækkun launa gerði Seðlabanka Íslands kleift að lækka vexti. Vaxtalækkunin kemur heimilum og atvinnulífi vel og auðveldar fyrirtækjum að standa undir umsömdum launahækkunum. Við væntum frekari vaxtalækkana á komandi misserum sem eykur enn frekar viðnámsþrótt heimila og fyrirtækja.

Lífskjarasamningurinn felur í sér sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks og því mikilvægt að umsamdar launabreytingar skili sér óskertar í launaumslagið.

Örfá dæmi eru um að launagreiðslur umfram lágmarkskjör kjarasamninga hafi verið skertar með beinni vísan til Lífskjarasamningsins. Það er mjög óheppileg tilvísun enda gengið út frá því að launaliðir samningsins kæmu óbreyttir til framkvæmda frá gildistöku samkvæmt efni þeirra, eins og ávallt gerist við gerð kjarasamninga.

Staða einstakra fyrirtækja og atvinnugreina er þó mismunandi og verður árið erfitt í mörgum atvinnugreinum, einkum útflutningsgreinum. Að búa við sterka krónu, há laun og háa skatta er krefjandi rekstrarumhverfi. Markaðsaðstæður fyrirtækja geta breyst á skömmum tíma. Upp geta komið tilvik þar sem fyrirtæki rísa ekki undir kostnaði og standa frammi fyrir því að grípa til hagræðingaraðgerða, sem geta m.a. falist í uppsögnum starfsmanna eða uppsögnum ráðningarkjara. Séu fyrirtæki knúin til þess að minnka eða fella niður launagreiðslur umfram lágmarkskjör er sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir rekstrarforsendur sem kalla á breytingar með starfsmönnum. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að sýna starfsfólki nærgætni og fylgja lögum í hvívetna.

Samtök atvinnulífsins ganga út frá því að farið sé að lögum og kjarasamningum við breytingar á starfskjörum og brýna það fyrir félagsmönnum sínum og leiðbeina. Kjósi atvinnurekandi að breyta greiðslum umfram lágmarkskjör kjarasamninga, eða lækka starfshlutfall, til að koma í veg fyrir uppsagnir skulu öll réttindi starfsmanna að sjálfsögðu virt. Lögfræðingar vinnumarkaðssviðs SA eru alltaf til taks til að svara fyrirspurnum félagsmanna í þeim efnum.

Að lokum minnum við á að þið getið alltaf sent okkur tölvupóst eða hringt ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir. 

Bestu kveðjur,

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Samtök atvinnulífsins