06. janúar 2022

Íþyngjandi sóttkví

Ásdís Kristjánsdóttir

1 MIN

Íþyngjandi sóttkví

Nú þegar rúm tvö ár eru liðin frá því heimsfaraldurinn gerði fyrst vart við sig má fullyrða að fáa hefði grunað að áhrifin myndu vara jafn lengi. Baráttan við kórónuveiruna hefur verið kostnaðarsöm og valdið jafnt atvinnulífinu, ríkissjóði og mörgum heimilum þungum búsifjum. Þegar þetta er skrifað eru 9.125 einstaklingar í einangrun með jákvætt smit og 7.525 einstaklingar í sóttkví, eða samtals um fimm prósent þjóðarinnar.

Á Íslandi eru allir einstaklingar sem hafa verið í návígi við smitaðan einstakling settir í lögbundna sóttkví. Ef litið er til nágrannaríkja gilda almennt vægari reglur um sóttkví. Í Danmörku er ekki í gildi lögbundin sóttkví en mælt er með því að óbólusettir einstaklingar fari í sóttkví. Ef börn eru í návígi við smitaðan einstakling mega þau mæta í skólann en ráðlagt að fara í skimun.

Í Noregi og Bretlandi er í gildi lögbundin sóttkví líkt og hér en reglurnar ekki eins víðtækar. Þá eru læknafyrirmæli um sóttkví í Svíþjóð, en þar líkt og í Noregi gildir aðeins sóttkví gagnvart heimilisfólki eða öðrum sem eru í nánum samskiptum við þann smitaða. Börn eru því ekki skipuð í sóttkví nema þau búi á sama heimili og hinn smitaði.

Í Noregi eru þeir sem eru þríbólusettir eða hafa greinst smitaðir síðustu þrjá mánuði undanskildir sóttkví. Í Bretlandi eru aðeins óbólusettir einstaklingar skipaðir í lögbundið sóttkví, börn undir 18 ára aldri eru undanþegin.

Almannavarnir hafa varað við því að lungi Íslendinga megi gera ráð fyrir að lenda í sóttkví eða einangrun næstu vikurnar. Þá hafa kennarar stigið fram og varað við fjölgun barna í sóttkví og lokun skóla. Óþarfi er að fjölyrða um hversu gríðarlegur samfélags- og efnahagslegur kostnaður fellur til, ef fer fram sem horfir. Kostnaður sem við öll berum. Undarlegt er að ekki sé horft til nágrannaríkja í þessum efnum.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 6. janúar.

Ásdís Kristjánsdóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins