Andlát Gunnars Birgissonar: Kveðja frá Samtökum atvinnulífsins

Einhver mesta breyting á vinnumarkaði sem orðið hefur síðustu áratugina varð við gerð Þjóðarsáttarsamningsins í febrúar 1990. Áratugina á undan hafði geisað óðaverðbólga sem harðast kom niður á þeim er síst skyldi, hinum almenna launþega, þrátt fyrir áður óþekktar launahækkanir á vinnumarkaði sem hurfu jafnóðum í verðbólgubálinu. Að gerð Þjóðarsáttarinnar komu margir, einn þeirra var Gunnar Ingi Birgisson sem nú er fallinn frá fyrir aldur fram.

Í sögu Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) um aðdraganda Þjóðarsáttarinnar segir m.a.:

„Innan Alþýðusambandsins voru sem fyrr skiptar skoðanir um markmið og leiðir verkalýðsbaráttunnar. Fulltrúar lágtekjufólks töldu sig þurfa að semja um meiri launahækkanir fyrir umbjóðendur sína en aðra launþega og var Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar í Reykjavík, helsti talsmaður þessarar stefnu. Stirt hafði verið á milli forseta ASÍ og Guðmundar J. Féll það í hlut atvinnurekenda að sannfæra Guðmund um nauðsyn þess að fara nýjar leiðir. Fékk Gunnar Birgisson, varaformaður VSÍ, þetta hlutverk en hann og Guðmundur voru góðir kunningjar frá gamalli tíð. Varði Gunnar til þess drjúgum tíma.“

Í þeirri gömlu tíð sem þarna er vísað til hafði Gunnar verið trúnaðarmaður hjá Dagsbrún og kynnst Guðmundi í störfum sínum fyrir félagið. Vegna þessa kunningsskapar ók Gunnar Guðmundi oftast heim að loknum þeim óteljandi samningafundum sem að lokum leiddu til gerðar Þjóðarsáttarsamningsins. Margir eiga hlut í Þjóðarsáttinni en ökuferðir þessara tveggja þungavigtarmanna eru í senn vanmetinn og órjúfanlegur þáttur þeirrar sáttar.

Gunnar var atorkumikill í vinnu sinni fyrir atvinnulífið, hann sat í framkvæmdastjórn VSÍ 1985-1992 og var varaformaður þess 1989-1992.

Samtímis þessu var hann framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Gunnar og Guðmundur hf., formaður Verktakasambands Íslands og sinnti að auki stundakennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands.

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar tíðkuðust langir samningafundir sem gátu staðið samfleytt í nokkra sólarhringa, þar sem helstu forystumenn aðila vinnumarkaðarins voru í sjálfskipaðri innilokun meðan á samningalotunni stóð. Slíkar setur voru í algleymingi í tíð Gunnars sem varaformanns VSÍ þar sem hann var knúinn til langrar viðveru þótt lítið þokaðist í viðræðum. Þeim sem með honum vöktu langar nætur á þessum tímum er minnisstæð óvenjumikil starfsorka hans. Á meðan margir börðust við svefnhöfga um miðjar nætur var hann sívinnandi við að rækja ýmsar aðrar skyldur, s.s. tilboðsgerð fyrir hönd eigin fyrirtækis eða við undirbúning fyrirlesturs í verkfræðideild HÍ næsta dag. Honum féll verk sjaldan úr hendi.

Fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins þökkum við Gunnari fyrir óeigingjarnt starf yfir liðna tíma,  fróðleg og skemmtileg samtöl yfir kaffibolla á skrifstofu SA og góðar ráðleggingar í starfi okkar fyrir samtökin.


Við vottum fjölskyldu Gunnars innilega samúð.

 

Halldór Benjamín Þorbergsson
og Eyjólfur Árni Rafnsson.

Minningargreinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.