Á annan tug úrræða framlengd eða innleidd á næstu dögum vegna Covid 19

Á annan tug úrræða verða framlengd eða innleidd á næstu dögum til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs Covid-19.

Yfirlýst markmið stjórnvalda er að styðja áfram við heimili og fyrirtæki á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn.  Eftirfarandi úrræði miða að því að verja áfram grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf.

Ýmsar efnahagsaðgerðir verða framlengdar eða innleiddar á næstu dögum og vikum, en þær eru helst eftirfarandi:

Úttekt séreignasparnaðar: Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að gildistími úrræðisins verði framlengdur út árið 2021 með sömu viðmiðunarfjárhæðum og skilmálum og giltu árið 2020.

Lokunarstyrkir: Lagt er til framhald á úrræðinu, sem ella rennur út í lok júní. Þannig verði það framlengt út árið 2021 auk þess sem hámarksfjárhæð verði hækkuð.

Viðspyrnustyrkir: Lagt er til að úrræðið verði framlengt út nóvember 2021, auk þess sem ný tekjufallsviðmið verði búin til. Samkvæmt gildandi reglum er lágmarks tekjufall 60%, en lagt er til að búinn verði til nýr flokkur fyrir tekjufall á bilinu 40-60%. Fyrir þá aðila verði mánaðarlegur styrkur á hvert stöðugildi 300 þúsund krónur á mánuði, en mánaðarlegir styrkir nemi áfram 400 þúsund krónum á stöðugildi fyrir tekjufall á bilinu 60-80% og 500 þúsund krónum í tilfelli 80-100% tekjufalls. Breytingin kemur til framkvæmda frá og með gildistöku laganna og gildir því um allt tímabilið frá nóvember 2020 og út nóvember 2021. Þá er lagt til að hámark styrks verði 260 milljónir króna, sem verði sameiginlegt hámark fyrir lokunarstyrki frá september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir. Fyrir liggur frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um málið.

Endurgreiðsla stuðningslána: Fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt reglugerð þar sem lánastofnunum er heimilað að hliðra endurgreiðslutíma í allt að 12 mánuði til viðbótar.

Frestun skattgreiðslna: Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp um framlengdan frest þeirra sem hafa fengið frest til greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds 2020 með gjalddaga í júní, júlí og ágúst 2021 geti sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur með fyrsta gjalddaga 1. júlí 2022.

Grænir fjárfestingahvatar: Í nýsamþykktu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra eru leiddir í lög hvatar til að auka einkafjárfestingu, með áherslu á græna umbreytingu. Um er að ræða tvær breytingar sem heimila flýtifyrningu og sérstakt fyrningarálag á árunum 2021-2025. Annars vegar er kveðið á um frestun skattgreiðslna fyrirtækja með hraðari fyrningu eigna sem býr til frekara svigrúm til fjárfestinga. Hins vegar er kveðið á um sérstaka ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar og græna umbreytingu hjá fyrirtækjum, þar sem heimilað er að reikna sérstakt 15% fyrnanlegt álag á kaupverð grænna eigna.

Styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall: Fyrirtæki með ráðningarsamband við einstakling sem fær greiddar hlutabætur geta fengið styrk til endurráðningar í fyrra starfshlutfall.Styrkurinn miðast við hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi einstaklings, auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði.

Úrræði sérsniðin að ferðaþjónustu:

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru meirihluti þeirra sem nýtt hafa efnahagsúrræði stjórnvalda undanfarið ár, enda hefur greinin orðið fyrir búsifjum umfram aðrar. Í nýjum aðgerðapakka stjórnvalda eru lagðar til tvenns konar sérhæfðar aðgerðir til viðbótar til að byggja enn frekar undir íslenska ferðaþjónustu:

Ferðagjöf II: Gefin verður út ný ferðagjöf sem gildir út sumarið 2021, en ferðagjöfin verður með sama sniði og fyrra úrræði þar sem landsmenn fá fjárhagslegan hvata til að njóta íslenskrar ferðaþjónustu.

Ferðatryggingasjóður: Með frumvarpi ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra er lagt til að rekinn verði samtryggingasjóður allra seljenda pakkaferða sem tryggi fullar endurgreiðslur í þeim tilvikum. Stofnun sjóðsins hefur mikið hagræði í för með sér fyrir ferðaskrifstofur á sama tíma og neytendavernd er aukin.

Hér má lesa allt um aðgerðir og ráðstafanir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.