Taktu tvær
Vörusvik
Allir kannast við að sjá tilboð sem virðist of gott til að vera satt. Oft er það einmitt málið, að tilboðið er of gott til að vera satt.
Svindlarar nota netið, sannfærandi vefsíður og lipra söluhæfileika til að svíkja peninga út úr fórnarlambinu í staðinn fyrir vörur sem ekki eru til. Besta leiðin til að komast hjá slíkum svikum er að rannsaka seljanda eins vel og unnt er og hafa augun hjá sér í samskiptum til að sannreyna trúverðugleika.
Netið er fullkominn vettvangur til að selja vöru sem þú átt ekki. Svindlarar þykjast selja vörur af margvíslegum toga en þeir eru einstaklega útsmognir í sölu á dýrari hlutum. Þeir koma sér oft fyrir á sölusíðum fyrir vinnuvélar, bíla, eða aðra dýra hluti. Þeir falsa skráningar og setja upp heimasíður til að ljá svikum sínum trúverðugleika og bjóða vörur á þessum síðum. Oft er lögð mikil vinna í að sannfæra fórnarlambið um að varan sé raunveruleg og að lága verðið sé einstakt tilboð.
Svindlarar selja vöru á netinu á óheyrilega lágu verði og leggja oft mikið púður í að virðast trúverðugir. En oft eru þeir ekki með vöruna eða þá að varan er ódýr eftirlíking.
Svindlarar eru liprir í tölvupóstsamskiptum og eiga það til að fylgja eftir með símtölum. Þeir eru oft með heimasíður og styðja svikin með alls kyns sannfærandi skjölum og myndum.

Skoðaðu söluaðila í þaula áður en þú lætur fé af hendi. Vertu viss um að þú fáir vöruna afhenda og að varan sjálf standist væntingar.
Hvernig ber að varast slíkt svik?
Aðferðir til að varast slík svik byggjast fyrst og fremst á því að gera ráð fyrir því að undarlega góð tilboð geti verið tilraun til svika. Ekki kaupa vörur sem eru á gríðarlegum afslætti. En til að hámarka öryggið í slíkum viðskiptum er gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Skoðaðu viðsemjendur á netinu mjög vel. Leitaðu að umsögnum og bakgrunni fyrirtækja. Vefsíður eins og Scamadvisor.com hafa það markmið að meta hversu vel er hægt að treysta einstaka netverslunum.
- Nafn seljanda, heimilisfang, tengiliðaupplýsingar og skilmálar eiga að vera aðgengilegir og sýnilegir.
- Ef þú þekkir ekki þennan aðila þá skaltu spyrja aðra sem eiga í slíkum viðskiptum hvor þeir þekki til þeirra.
- Hafðu í huga að mjög auðvelt er að falsa rafræn skjöl.
- Ef farið er fram á millifærslu í stað viðurkenndrar greiðslu eins og með kreditkorti eða PayPal er rétt að hafa varann á.
- Skoðaðu reikninginn, áttu að leggja inn á fyrirtæki eða er eitthvað bogið við viðtakanda. Er bankinn í sama landi og borg og þeir segjast vera?
- Vertu alltaf tortryggin í viðskiptum á netinu þegar þú átt í viðskiptum við ókunnuga.