Taktu tvær
Fjárfestasvindl
Fjárfestasvikarar notfæra sér vanþekkingu og traust fórnarlamba á opinberum aðilum til að ginna þau í fjárfestingar á fölskum forsendum. Fórnarlömb senda stórar upphæðir til netglæpamanna sem lofa öllu fögru en hirða peningana. Besta leiðin til að komast hjá slíkum svikum er að skoða auglýsingar um fjárfestingar með gagnrýnum augum.
Fjárfestingasvik eru algeng og mjög sýnileg svik sem flestir hafa séð á samfélagsmiðlum. Fórnarlambið fær annaðhvort skilaboð eða sér auglýsingu þar sem því er ráðlagt að kaupa verðbréf eða rafeyri líkt og Bitcoin af aðila sem lítur vel út við fyrstu sýn en reynist svo vera fölsk síða, hönnuð til að féfletta fórnarlambið.
Þá reynist fórnarlambið hafa keypt köttinn í sekknum og fær hvorki verðbréf né bitcoin heldur afsakanir.
Fjárfestasvik eru algeng og nýta sér traust fólks á opinberum einstaklingum og vankunnáttu í fjárfestingum.
Þegar um Bitcoin er að ræða eru svikin stundum sett upp á þann veg að kaup fórnarlambins eru lögleg en rafmyntin bíður inni á síðu sem milligöngumaður setur upp en fórnalambið hefur ekki beinan aðgang að.
Á síðunni fer virði rafmyntarinnar upp og fórnarlambið er hvatt til að kaupa sífellt meira sem veldur aukinni hækkun á virði inneignarinnar.
Þegar fórnarlambið vill taka inneignina út er það ekki hægt eða þá að inneignin hverfur skyndilega.
Endurgreiðslur eru erfiðar vegna eðli viðskiptanna. Oft er svikunum hagað þannig að fórnarlambið keypti aldrei rafmynt eða verðbréf og virðið því ekkert.
Bíræfnir netsvikarar ganga meira segja svo langt að krefjast hárra upphæða til að gefa fórnarlömbum ráð um hvernig þau geti fengið fjárfestinguna til baka.

Fjárfestasvikarar nýta sér þekkta einstaklinga, nöfn og hugtök sem lesandinn þekkir óljóst. Mikilvægt er að láta ekki hlaupa með sig í gönur og íhuga hvernig og hvort opinberir aðilar myndu haga sér á viðlíka máta eða leggja nafn sitt við slík viðskipti.
Hvernig skal varast slík svik?
Fjárfestasvik eru sérstaklega illvíg þar sem þau herja á vanþekkingu fólks og vilja til að taka þátt í fjárfestingum. Besta leiðin til að komast hjá slíkum svikum er að fjárfesta aðeins í gegnum opinberar og löggildar stofnanir, jafnvel með hjálp löggildra ráðgjafa. En ef að fjárfestingatækifæri birtist er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Ef eitthvað tilboð hljómar grunsamlega gott, þá þarf að staldra við og íhuga hvort það geti verið of gott til að vera satt.
- Varastu að hefja viðskipti við erlend fyrirtæki á sviði fjárfestinga, sérstaklega í rafmyntum.
- „Fjárfestingafyrirtæki“ sem auglýsa á samfélagsmiðlum eru sérstaklega varasöm.
- Betur sjá augu en auga, fáðu álit einhvers sem þú treystir á tækifærinu.
- Ef seljandi er mjög ágengur í sölu sinni og segir að hlutirnir þurfi að gerast strax, er gott staldra við og kanna málið betur.