Eru mótvægisaðgerðir Seðlabankans vanmetnar?

Efnahagssvið SA fjallaði í gær um það hvernig gjaldeyrisinngrip Seðlabanka Íslands hefðu undanfarin misseri aukið peningamagn í umferð og velti upp þeirri spurningu hvort bankinn væri með aðgerðum sínum að draga úr virkni peningastefnunnar. Sjá má umfjöllun efnahagssviðs hér.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Seðlabankastjóra að efnahagssvið SA vanmeti umfang stýfðra inngripa bankans. Seðlabankastjóri áréttar að Seðlabankinn myndi mótvægi gegn gjaldeyriskaupunum með tvennum hætti.

1)      Með viðskiptum Eignasafns Seðlabankans (ESÍ) sem frá áramótum hafa dregið 24 ma.kr. af lausu fé út af markaðnum.

2)      Með bundnum reikningum innlánsstofnanna sem samtals hafa verið dregnir 98 ma.kr. inn á frá áramótum.

Í þessu samhengi viljum við árétta tvö atriði,

Í fyrsta lagi er það rétt að Seðlabankinn hefur selt eignir úr safni ESÍ fyrir 24 ma.kr., enda er tekið fram í umfjöllun efnahagssviðs að inngrip Seðlabankans séu að mestu leyti óstýfð. Slík eignasala er ekki hátt hlutfall þeirra 200 ma.kr. sem gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hafa numið frá ársbyrjun 2014.

Í öðru lagi þá segir Seðlabankastjóri 98 ma.kr hafa verið dregna inn á bundna innlánsreikninga frá áramótum. Við athugun á inngripum Seðlabankans frá ársbyrjun 2014 fram til júní 2015 fæst að bundin innlán og innistæðubréf hafa dregist saman um 38 ma.kr. samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Hafa skal í huga að bundnar innistæður breytast mikið milli mánaða og er því mikilvægt að skoða þróun yfir lengri tíma í stað þess að líta til stöðunnar í dag. Í því samhengi má nefna að á fyrstu tveimur vikum júlímánaðar hafa þær vaxið að meðaltali um 50 ma.kr.

Að teknu tilliti til þessara athugasemda getum við ekki tekið undir það að Seðlabankinn sé að draga peningamagn úr umferð nema að litlu leyti. Í ljósi þess að bundnar innistæður innlánastofnana sveiflast töluvert þá má velta fyrir sér hvort staðan í dag segi mikið um stöðuna í næstu viku eða næstu mánuði. Til marks um það má nefna að í lok júní hafði lækkun bundinna innistæðna dregist meira saman en sem nemur eignasölu Seðlabanka á árinu 2014.

undefined

Heimild: Seðlabanki Íslands

Efnahagssvið SA telur mikilvægt að Seðlabankinn beiti inngripum til að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar og með því verndi samkeppnisstöðu þjóðarbúsins. Í umfjöllun efnahagssviðs er fyrst og fremst verið að fjalla um mikilvægi þess að beita mótvægisaðgerðum við inngripum Seðlabankans til að styðja við virkni peningastefnunnar. Að okkar mati hafa þær aðgerðir ekki verið nægjanlegar.