Endahnútur: Hagnaður og arðgreiðslur

Við erum stödd á góðæristímum. Tíma hagvaxtar og launahækkana og tíma bjartsýni. Eðli málsins samkvæmt líður okkur vel á slíkri stund; kaupmáttur vex, eignir hækka í verði og við getum leyft okkur meira.

Á tímum góðæris gengur fyrirtækjum betur, eftirspurn eykst og þau selja fleiri vörur og meiri þjónustu. Á tímum góðæris eykst hagnaður fyrirtækja. Tökum bankana sem dæmi: samanlagður hagnaður þriggja stærstu viðskiptabanka landsins nam 107 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta eru háar fjárhæð­ir en hins vegar segja krónutölur lítið en arðsemi sem hlutfall af eignum meira. 10 krónur eru miklir vextir af 10 króna bankareikningi en minni af 10 þúsund króna bankareikningi. Samhengið er mikilvægt.

Stór hluti hagnaðar bankanna er tilkominn vegna sölu eigna auk væntinga um betri heimtur útistandandi lána. Ekki er því um að ræða rekstrartekjur innheimtar beint af almenningi og fyrirtækjum, nema að hluta. Horft til undirliggjandi rekstrar þá gildir hið sama um banka og önnur fyrirtæki, þegar vel árar gengur betur og hagnaður eykst. Bankarnir skiluðu arðsemi af undirliggjandi rekstri og því ber að fagna þar sem bankakerfið í dag er að stærstu leyti í eigu ríkisins, í eigu okkar. Þegar ríkisbönkunum tveimur vegnar vel þá skapast svigrúm til arðgreiðslna til ríkisins. Þá komum við að öðru hugtaki, arðgreiðslur.

Aukinn hagnaður á uppgangstímum skapar svigrúm hjá fyrirtækjum til að greiða eigendum sínum út arð. Fyrirtæki eru fjármögnuð með lánum og eiginfjárframlagi eigenda. Fyrirtæki greiða vexti af lánum sínum en eigið fé ber enga vexti. Þess í stað vænta fjárfestar þess að fá ávöxtun á fjárfestingu sína í framtíðinni. Arðgreiðslur eru því ígildi vaxtagreiðslna til fjárfesta. Góðæristími ríkir um þessar mundir. Hugtök eins og arðgreiðslur og hagnaður lifa á tímum góðæris en minna fer fyrir þeim þegar illa árar. Umræða síð­ ustu daga endurspeglar þá staðreynd að vel árar í íslensku efnahagslífi. 

Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 11. mars 2016