Endahnútur: Erlend fjárfesting í verki

Costco mætir hingað til lands eins og riddari á hvítum hesti. Íslendingar taka riddaranum opnum örmum og áhuginn lætur ekki á sér standa. Við opnunina er björgunarsveitin mætt á svæðið og vefmiðlar sjónvarpa fyrstu klukkustundunum beint til landsmanna.
Dagar og vikur líða og ekki dregur úr áhuganum. Landsmenn eru himinlifandi yfir Costco undrinu og er eftirspurnin svo mikil að starfsmenn hafa ekki undan við að fylla tómar hillur. Fjórðungur landsmanna er nú skráður í Costco fésbókarhópinn og nær þannig að fylgjast með því sem er að gerast í versluninni á hverjum tíma sem bætist þá við daglega umfjöllun fréttamiðla af versluninni.

Costco er svo sannarlega riddarinn á hvíta hestinum. Innkoma svo stórrar erlendrar verslunarkeðju inn á íslenskan smásölumarkað hefur aukið samkeppni og þannig gjörbreytt rekstrarumhverfi þeirra sem fyrir eru. Viðbrögðin eru einkennandi fyrir virka samkeppni, hagræðing eykst og skilar það sér í lægra verði til neytenda.

Costco er skólabókardæmi um erlenda fjárfestingu og þann efnahagslega ávinning sem af slíkri fjárfestingu hlýst. Erlend fjárfesting er mikilvæg viðbót fyrir Ísland. Hún eykur fjölbreytni, ýtir undir samkeppni, lækkar verðlag og eykur framleiðni. Skilar það sér í bættum lífskjörum á Íslandi og njótum við sem landið byggjum góðs af því. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að efnahagslegur ávinningur þess að fá erlenda fjárfestingu inn í landið er meiri því smærri sem ríkin eru.

Að þessu sögðu er óskiljanlegt hversu neikvæðir Íslendingar almennt eru gagnvart erlendri fjárfestingu þó svo við viljum njóta góðs af henni þegar hún kemur. Jafnvel ráðamenn þjóðarinnar hafa sagt opinberlega að þeir óttist að arður af slíkri fjárfestingu fari að öllu leyti úr landi. Það er vonandi að viðhorf Íslendinga breytist samfara innkomu Costco inn á íslenskan smásölumarkað.

Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. júní 2017