Fréttir - 

09. mars 2016

Stjórnendur 400 stærstu: Efnahagslífið ofhitnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu: Efnahagslífið ofhitnar

Niðurstöður könnunar meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins einkennast af miklum og vaxandi umsvifum í íslensku efnahagslífi vegna örs vaxtar ferðaþjónustu, stóraukins kaupmáttar heimilanna og vaxandi fjárfestingum. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu eru svipaðar og á árinu 2007 og mat á aðstæðum eftir 6 mánuði mun betra en þá. Könnunin er gerð ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands og er framkvæmd hennar í höndum Gallup.

Niðurstöður könnunar meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins einkennast af miklum og vaxandi umsvifum í íslensku efnahagslífi vegna örs vaxtar ferðaþjónustu, stóraukins kaupmáttar heimilanna og vaxandi fjárfestingum. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu eru svipaðar og á árinu 2007 og mat á aðstæðum eftir 6 mánuði mun betra en þá. Könnunin er gerð ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands og er framkvæmd hennar í höndum Gallup.

Enn fjölgar fyrirtækjum sem finna fyrir vinnuaflsskorti, en svo háttar til um þriðjung þeirra samanborið við 17% fyrir ári síðan. Búast má við 2% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum sem svarar til 2.500 starfa. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er langmest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Stjórnendur búast við kröftugri aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstunni og töluverðum hækkunum á verði á vörum og þjónustu fyrirtækjanna sem aðföngum þeirra. Jafnframt virðast þeir bjartsýnir um þróunina á erlendum mörkuðum.

Fjárfestingar aukast mikið milli áranna 2015 og 2016 í öllum atvinnugreinum nema sjávarútvegi, en þó mest í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Á næstu 12 mánuðum búast stjórnendur við töluverðum vaxtahækkunum, að verðbólgan verði 3% og gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast.

Aðstæður mjög góðar í atvinnulífinu að mati stjórnenda
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nú svipuð og hún var árið 2007 þegar efnahagslífið einkenndist af ofhitnun. Mikill meirihluti stjórnenda, 76%, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 3% að þær séu slæmar. Í öllum atvinnugreinum telur meirihluti stjórnenda aðstæður vera góðar.

Almennt talið að aðstæður batni næstu 6 mánuði
Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri en að þær verði verri eftir sex mánuði. 44% þeirra telja aðstæður verða betri en 9% verri. Stjórnendur í öllum atvinnugreinum eru bjartsýnir á framvinduna en bjartsýnin er langmest í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en minnst er hún í sjávarútvegi. Meiri bjartsýni gætir á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni og meðal fyrirtækja sem einungis starfa á heimamarkaði en útflutningsfyrirtækja.

undefined

Ört vaxandi skortur á starfsfólki
Stöðugt fjölgar fyrirtækjum sem telja skort ríkja á starfsfólki. Nú telur 31% stjórnenda skort vera á starfsfólki samanborið við 17% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er langmestur byggingarstarfsemi, þar sem 62% stjórnenda telja skort ríkjandi, og þar á eftir í flutningum og ferðaþjónustu, 38%. Skortur á starfsfólki vex mikið í iðnaði og þjónustugreinum milli kannana. Minnstur skortur á starfsfólki er í sjávarútvegi.

Mikil fjölgun starfsmanna á næstunni
Rúmlega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 38% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, þ.a. 4% mikla fjölgun, 6% sjá fram á fækkun en 56% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum  þeirra fjölgi um rúmlega 2% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna vinnumarkaðinn í heild má búast við að störfum þar fjölgi um 2.500 á næstu sex mánuðum. Fjölgun er áformuð í öllum atvinnugreinum, en langmest í flutningum og ferðaþjónustu, þar á eftir í þjónustugreinum og iðnaði, en minnst í verslun og sjávarútvegi.  

undefined

Helmingur með fullnýtta framleiðslu- og þjónustugetu
Þeim stjórnendum fer fjölgandi sem telja vandasamt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, en 48% stjórnenda telja það vandasamt eða mjög erfitt samanborið við 37% fyrir ári síðan. Langflestir, eða 92%, telja að þessar aðstæður vari næstu sex mánuði.

Búast við heldur meiri hagnaði á þessu ári
Heldur fleiri stjórnendur búast við auknum hagnaði á þessu ári frá fyrra ári en þeir sem búast við minni hagnaði. 28% stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, aukist milli ára en 23% að hann minnki. Stjórnendur í byggingariðnaði og flutningum og ferðaþjónustu eru bjartsýnastir um hagnað fyrirtækjanna.

Aukin framlegð
Væntingar stjórnenda um framlegð fyrirtækjanna, þ.e. EBITDA, á næstu sex mánuðum eru svipaðar og í könnuninni fyrir ári síðan. Þannig búast 36% þeirra við því að framlegð aukist, 19% að hún minnki og 45% að hún standi í stað. Horfur eru bestar byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu en lakastar í sjávarútvegi. Að mati stjórnendanna hefur framlegðin farið batnandi á síðustu sex mánuðum. 

Væntingar um kröftuga aukningu eftirspurnar innanlands og verðhækkunum
Búist er við kröftugri aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum, þar sem 60% telja að hún aukist en einungis 4% að hún minnki. Búist er við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði í öllum atvinnugreinum. Að jafnaði er búist við 2,2% verðhækkun á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum, sem svarar til 4,4% á ársgrundvelli og 2,4% hækkun aðfanga sem svarar til 4,9% á ársgrundvelli.

Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum eru góðar því 41% telur að hún aukist en 10% að hún minnki. Stjórnendurnir búast að jafnaði ekki við verðhækkun á erlendum mörkuðum í erlendri mynt.

Fjárfestingar aukast á árinu
Fjárfestingar fyrirtækjanna munu aukast mikið á þessu ári samkvæmt könnuninni. 39% stjórnenda sjá fram á auknar fjárfestingar en 18% að þær minnki miðað við árið 2015. Þessar vísbendingar um auknar fjárfestingar eru mun sterkari en fram hafa komið í síðustu könnunum. Langmest aukning fjárfestinga er áformuð í byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu en aukningin er mikil í öllum atvinnugreinum nema sjávarútvegi.

undefined

Stjórnendur vænta vaxtahækkana
Að meðaltali búast stjórnendur við því að veðlánavextir Seðlabankans hækki umtalsvert og verði komnir 7,7% eftir 12 mánuði, en þeir voru 6,5% á könnunartímabilinu.

Væntingar um 3% verðbólgu á árinu
Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 3,0% sem er lækkun um 0,6% frá síðustu könnun. Væntingar stjórnenda um verðbólgu eftir tvö ár er 3,5% sem er óbreytt frá síðustu könnun.

undefined

Vænta stöðugs gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi  krónunnar styrkist næstu 12 mánuði, en í síðustu könnunum hafa þeir búist við 0,5-2% veikingu gengisins.  

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 10. febrúar til 2. mars 2016 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 446 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 255 þeirra þannig að svarhlutfall var 57%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins