Vinnumarkaður - 

20. september 2016

Sjálfboðaliðar koma ekki í stað almenns launafólks

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sjálfboðaliðar koma ekki í stað almenns launafólks

Samtök atvinnulífsins hafa ásamt Alþýðusambandi Íslands undirritað yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða. Tilefnið er sú mikla fjölgun erlendra sjálfboðaliða sem gefið hafa kost á sér í störf sem til þessa hefur verið sinnt af launafólki. Í yfirlýsingunni er áréttað að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja. Launafólk hafi sinnt þessum störfum og verði ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða.

Samtök atvinnulífsins hafa ásamt Alþýðusambandi Íslands undirritað yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða. Tilefnið er sú mikla fjölgun erlendra sjálfboðaliða sem gefið hafa kost á sér í störf sem til þessa hefur verið sinnt af launafólki. Í yfirlýsingunni er áréttað að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja. Launafólk hafi sinnt þessum störfum og verði ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða. 

Almenn sátt hefur ríkt um aðkomu sjálfboðaliða að samfélagsverkefnum, jafnt á vegum opinberra aðila sem einkaaðila. Undanfarin misseri hafa sjálfboðaliðar hins vegar gefið kost á sér til starfa í daglegum rekstri fyrirtækja og komið í stað almenns launafólks. Yfirlýsingu SA og ASÍ er beint gegn þessari þróun.  

Eitt af einkennum íslensk vinnumarkaðar er að heildarsamtök á vinnumarkaði hafa samið um réttindi og skyldur sem þar gilda. Samtökin bera því ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins og verða að bregðast við þróun sem ekki er í samræmi við þá sátt sem ríkt hefur.

Sjálfboðaliðar njóta gjarnan frís fæðis og húsnæðis auk annarra hlunninda. Ef um er að ræða starf sem fellur undir efnahagslega starfsemi fyrirtækis og greiða ætti laun fyrir þá er eðlilegt að gera ráðningarsamning við hlutaðeigandi einstakling þar sem tilgreind eru m.a. laun og vikulegur vinnutími og til frádráttar launum komi eðlilegt endurgjald fyrir fæði og húsnæði.

Sjá nánar:

Yfirlýsing SA og ASÍ (PDF)

Samtök atvinnulífsins