Samkeppnishæfni - 

13. febrúar 2018

Örfyrirtæki greiða yfir hundrað milljarða í laun!

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Örfyrirtæki greiða yfir hundrað milljarða í laun!

Fyrirtæki með 1-9 starfsmenn eru mjög mikilvæg í íslensku atvinnulífi. Árið 2016 greiddu þau rúmlega 143 milljarða króna í laun og borguðu rúmlega 37 þúsund manns laun. Þetta kemur fram í sérvinnslu Hagstofu Íslands sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins og kynnt á Smáþingi Litla Íslands. Í hagskýrslum eru þessi fyrirtæki kölluð örfyrirtæki en það er sannarlega ekkert smátt þegar kemur að umfangi þeirra í hagkerfinu og mikilvægt að hlúa vel að þeim.

Fyrirtæki með 1-9 starfsmenn eru mjög mikilvæg í íslensku atvinnulífi. Árið 2016 greiddu þau rúmlega 143 milljarða króna í laun og borguðu rúmlega 37 þúsund manns laun. Þetta kemur fram í sérvinnslu Hagstofu Íslands sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins og kynnt á Smáþingi Litla Íslands. Í hagskýrslum eru þessi fyrirtæki kölluð örfyrirtæki en það er sannarlega ekkert smátt þegar kemur að umfangi þeirra í hagkerfinu og mikilvægt að hlúa vel að þeim.

Vantar betri upplýsingar
Hagtölur um fyrirtæki eftir stærð eru almennt ekki birtar hér á landi öfugt við nágrannaríkin og eru m.a. birtar á vef ESB árlega. Upplýsingar ESB fjalla um fjölda fyrirtækja, starfsmannafjölda og virðisauka eftir stærð fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum. Upplýsingarnar gefa færi á að leggja mat á mikilvægi smárra, meðalstórra og stórra fyrirtækja í sköpun atvinnu og verðmæta. Jafnframt er unnt að leggja mat á þróunina, t.d. hvaða stærðarflokkar fyrirtækja eru í örustum vexti og leggja mest til fjölgunar starfa og aukinnar verðmætasköpunar.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að sambærilegar upplýsingar séu útbúnar um íslenskt atvinnulíf. Af því tilefni var þess farið á leit við Hagstofu Íslands að útbúa fyrirtækjatölfræði um íslenskt atvinnulíf á grundvelli staðgreiðsluskrár RSK, sem Hagstofan hefur aðgang að til upplýsingavinnslu, sem skapar möguleika á því að útbúa slíka fyrirtækjatölfræði um íslenskt atvinnulíf. Gögnin eru þeim annmörkum háð að þau innihalda ekki upplýsingar um stóran hluta einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu.

Gögn Hagstofunnar fela í sér flokkun íslenskra fyrirtækja eftir stærð þar sem í hverjum stærðarflokki kemur fram fjöldi fyrirtækja, fjöldi starfsmanna og heildarlaunagreiðslur á árunum 2010-2016. Upplýsingarnar taka til allra launagreiðenda að undanskildum stofnunum ríkis og sveitarfélaga, lífeyrissjóðum eða félagasamtökum. Niðurstöðurnar ættu því að samsvara almennum skilningi á hugtakinu atvinnulíf (e. business sector).

Fyrirtæki eru yfirleitt flokkuð í fjóra flokka eftir stærð; örfyrirtæki, lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki og stór fyrirtæki. Flokkunin fer eftir starfsmannafjölda og eru örfyrirtæki með færri en 10 starfsmenn, lítil fyrirtæki með 10-49 starfsmenn, meðalstór fyrirtæki með 50-249 starfsmenn og stór fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri. Öll fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn flokkast þannig sem lítil og meðalstór fyrirtæki.

Helstu niðurstöður

  • 19.500 launagreiðendur voru í atvinnulífinu árið 2016, þar með talið 10.000 einkahlutafélög sem greiða eingöngu eiganda sínum laun
  • Fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn flokkast sem lítil og meðalstór fyrirtæki.
  • 99,6% fyrirtækja á Íslandi eru lítil og meðalstór fyrirtæki
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki höfðu 71% starfsmanna í atvinnulífinu í vinnu árið 2016
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 66% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2016
  • Litlum og meðalstórum fyrirtækjum fjölgaði um 3.250 (20%) milli áranna 2010 og 2016
  • Starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja fjölgaði um 20.700 (24%) milli 2010 og 2016
  • Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu námu rúmlega 760 milljörðum króna árið 2016 og jukust um 73% frá árinu 2010.
  • Heildarlaunagreiðslur lítilla og meðalstórra í atvinnulífinu námu rúmlega 530 milljörðum króna árið 2016 og jukust um 78% frá árinu 2010.

Sjá nánar:

Vægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja – ítarlegar niðurstöður (PDF)

Tengt efni:

Könnun Litla Íslands fyrir Smáþing

Upptökur frá Smáþingi Litla Íslands


Samtök atvinnulífsins