Efnahagsmál - 

20. desember 2017

Of lítill afgangur á toppi hagsveiflunnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Of lítill afgangur á toppi hagsveiflunnar

Um 35 milljarðar króna, eða 1,3% af landsframleiðslu, er lítill afgangur bæði miðað við þanda tekjustofna og afgang á síðasta hagvaxtarskeiði. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið 2018. Mikilvægt er að stjórnvöld búi í haginn enda taka uppsveiflur enda. Vísbendingar eru þess efnis að það hægi hratt á vexti hagkerfisins. Verði hagvöxtur minni en áætlanir gera ráð fyrir gæti afkoma ríkissjóðs hæglega breyst í halla. Lítið má því út af bregða.

Um 35 milljarðar króna, eða 1,3% af landsframleiðslu, er lítill afgangur bæði miðað við þanda tekjustofna og afgang á síðasta hagvaxtarskeiði. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið 2018. Mikilvægt er að stjórnvöld búi í haginn enda taka uppsveiflur enda. Vísbendingar eru þess efnis að það hægi hratt á vexti hagkerfisins. Verði hagvöxtur minni en áætlanir gera ráð fyrir gæti afkoma ríkissjóðs hæglega breyst í halla. Lítið má því út af bregða.

Umframkeyrslur í 22 ár
Þótt gert sé ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti í núverandi frumvarpi þá er mikilvægt að hafa í huga að útgjaldaaukning frá frumvarpi til fjárlaga og umframkeyrsla frá fjárlögum til ríkisreiknings er regla, fremur en undantekning. Samfleytt í 22 ár hafa útgjöld aukist frá frumvarpi til ríkisreiknings. Líklegt er því að útgjöld verði töluvert meiri en lagt er upp með í frumvarpinu.

Snúa þarf af braut þensluhvetjandi ríkisfjármála á uppgangstímum
Fjórða árið í röð munu ríkisfjármál auka þenslu í hagkerfinu. Mikilvægt er að horfa til hagsveifluleiðréttrar afkomu til að meta þenslustig ríkisfjármála. Ekki var tekið mið af því við gerð  fjárlagafrumvarpsins.

Ný lög um opinber fjármál stöðva ekki umframkeyrslu útgjalda
Vonir hafa verið bundnar við að ný lög um opinber fjármál muni stuðla að auknum aga í fjármálstefnu hins opinbera. Með nýju lögunum er lögð áhersla á langtímahugsun og bætt vinnubrögð. Þrátt fyrir að vera skref í rétta átt, og skynsamleg nálgun, ná lögin ekki að hemja aukningu ríkisútgjalda frá fjárlagafrumvarpi til áætlaðra útgjalda árið 2017. Að mati SA er afkomuregla ekki fullnægjandi til að tryggja aðhald á uppgangstímum. Setja þarf útgjaldareglu eða  miða við hagsveifluleiðrétta afkomu í stað núgildandi afkomureglu.

Allar skattabreytingar til hækkunar
Allar skattabreytingar til hækkunar. Á meðan lítil áhersla er á aðhald eða mikilvægi þess að draga úr opinberum umsvifum, sem nú þegar eru ein þau mestu meðal OECD, þá skapast ekki rými til skattalækkana. Á árunum eftir 2008 voru það skattahækkanir sem vörðuðu leiðina að hallalausum rekstri ríkisins. Þær skattahækkanir standa flestar óhreyfðar. Tryggingagjald hefur t.a.m. lítið lækkað þrátt fyrir hríðfallandi atvinnuleysi undanfarin ár. Í fjárlagafrumvarpi 2018 eru frekari skattahækkanir boðaðar. Fjármagnstekjur eru nú þegar skattlagðar meira en launagreiðslur. Boðuð hækkun fjármagnstekjuskatts mun því auka þann mun. Eðlilegra hefði verið að endurskoða skattstofninn samfara boðaðri breytingu.

Mikilvægt að nýta betur skattfé landsmanna
Síðustu ár hefur verið forgangsraðað til heilbrigðis- og menntamála, en útgjöld til þessara málaflokka hafa vaxið verulega umfram önnur útgjöld ríkisins. Enn er þó krafist enn meiri framlaga til þeirra. Að mati SA er vandamálið ekki skortur á fjármagni, heldur forgangsröðun og nýting þeirra miklu fjármuna sem úr er að spila nú þegar. Talsverð tækifæri hljóta að vera fólgin í því að auka skilvirkni og forgangsraða betur innan þess útgjaldaramma sem stjórnvöld starfa eftir. Slíkt myndi um leið skila betri nýtingu á skattfé landsmanna. Standi vilji stjórnvalda til þess að minnka álögur á almenning þarf að halda aftur að útgjöldum. Það er miður að ekki má merkja áherslu á slíkt í frumvarpi nýrrar ríkisstjórnar.

Ábyrgt að greiða frekar niður skuldir
Áform stjórnvalda um að greiða áfram niður skuldir ríkissjóðs eru fagnaðarefni. Þrátt fyrir niðurgreiðslu skulda síðustu ár eru skuldir enn talsvert hærri en þær voru í lok síðustu uppsveiflu. Rétt er að hafa hugfast að ein lífsbjörg okkar Íslendinga þegar efnahagsáfallið skall á voru lágar skuldir ríkissjóðs. Íþyngjandi vaxtakostnaður, sem er einn sá mesti meðal iðnríkja, endurspeglar mikilvægi þess að áfram verði greiddar niður skuldir ríkissjóðs.

Að mati Samtaka atvinnulífsins eru fimm mikilvæg atriði sem stjórnvöld ættu að hafa hugfast:

  1. Búa þarf í haginn því uppsveiflur taka enda. Mikilvægt er að auka afgang af rekstri ríkissjóðs meðan tekjustofnar eru sterkir. Við munum búa að þeirri ráðdeild næst þegar harðnar á dalnum.
  2. Tryggja þarf aðhald á uppgangstímum. Snúa þarf af þeirri braut að auka útgjöld á uppgangstímum. Ríkisfjármálastefna á að milda hagsveifluna, ekki ýkja hana.
  3. Forgangsröðun ríkisútgjalda er nauðsynleg. Útgjöld ríkisins eru mikil í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Finna þarf leiðir til að nýta betur skattfé landsmanna. Skorti fé til þarfra verkefna þarf að sækja slíka fjármuni til annarra málaflokka.
  4. Skapa þarf rými til skattalækkana. Ísland er háskattaland. Á meðan ríkisútgjöld vaxa á hverju ári skapast ekki svigrúm til að lækka skatta.
  5. Mikilvægt er að halda áfram að greiða niður skuldir. Skuldir ríkissjóðs eru enn of háar og vaxtakostnaður íþyngjandi.

Sjá nánar:

Umsögn SA um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 (PDF)

Samtök atvinnulífsins