Fréttir - 

21. nóvember 2014

Lækkið tryggingagjaldið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lækkið tryggingagjaldið

Það stefnir í að afkoma ríkissjóðs verði mun betri í ár en ráð var fyrir gert. Svo virðist að um 60 milljarða afgangur verði af rekstri ríkissjóðs, áður en til sérstakra útgjalda vega skuldaniðurfærslu heimilanna kemur. Í fjárlögum er gert ráð fyrir afgangi upp á 1 milljarð króna. Þetta eru góð tíðindi fyrir landsmenn alla enda fátt mikilvægara en að stoppa mikla skuldasöfnun ríkissjóðs.

Það stefnir í að afkoma ríkissjóðs verði mun betri í ár en ráð var fyrir gert. Svo virðist að um 60 milljarða afgangur verði af rekstri ríkissjóðs, áður en til sérstakra útgjalda vega skuldaniðurfærslu heimilanna kemur. Í fjárlögum er gert ráð fyrir afgangi upp á 1 milljarð króna. Þetta eru góð tíðindi fyrir landsmenn alla enda fátt mikilvægara en að stoppa mikla skuldasöfnun ríkissjóðs.

Það leiðir hugann að miklum skattahækkunum sem fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafa lagt á atvinnulífið í landinu. Á fyrra kjörtímabili voru árlegir skattar á atvinnulífið hækkaðir um 80 milljarða króna. Stærstur hluti hækkunarinnar fólst í hækkun tryggingargjalds vegna aukins atvinnuleysis í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Atvinnulífið bar hitann og þungann af aðgerðum sem gripið var til svo ná mætti jöfnuði í ríkisfjármálum þó heimilin hafi einnig þurft að axla auknar byrðar.

Nú þegar hefur ríkisstjórnin lækkað nokkuð skatta heimilanna en atvinnulífið situr eftir. Ríkisstjórnin boðaði skattalækkanir á atvinnulífið en reynslan er þveröfug. Skattar á atvinnulífið hafa verið hækkaðir um 20 milljarða króna til viðbótar fyrri hækkunum á því eina og hálfa ári sem liðið er frá því ríkisstjórnin tók við. Í fjárlögum fyrir árið 2015 er ekki að finna nein áform um lægri skatta á atvinnulífið. Þvert á móti hefur stjórnin lagt fram ýmsar hugmyndir að nýjum sköttum svo sem jöfnunargjald á raforku, gjaldtöku vegna vatnsnotkunar, verulega hækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, og svo mætti áfram telja.

Nú árar mun betur í efnahagslífinu og atvinnuástand er blessunarlega mun betra en á fyrstu árum kreppunnar. Því miður hefur tryggingagjaldið ekki verið lækkað á nýjan leik til samræmis við minni kostnað af atvinnuleysi. Þvert á móti hafa bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi hækkað almennt tryggingagjald á móti lækkun atvinnuleysistryggingagjalds. Hefur almenna tryggingagjaldið nú verið hækkað um 1,5% auk þess sem helmingi þess fjármagns sem eyrnamerkt var fæðingarorlofssjóði hefur verið veitt í önnur verkefni. Þetta samsvarar um 2,15% af öllum greiddum launum eða rúmum 20 milljörðum króna á ári hverju.

Fáir skattar eru jafn skaðlegir fyrir lítil fyrirtæki eins og launaskattar. Lítil fyrirtæki eru oftar en ekki með hlutfallslega háan launakostnað og á einfaldan hátt má segja að fyrirtæki með tíu  starfsmenn borgi ríkinu laun þess ellefta í formi tryggingagjalds.

Samhliða bættri afkomu ríkissjóðs er lag fyrir ríkisstjórnina að lækka nú tryggingagjaldið. Fátt er betur til þess fallið að styrkja stöðu fyrirtækjanna og þá sér í lagi þeirra smærri. 

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2014

Samtök atvinnulífsins