Fréttir - 

27. apríl 2017

Kemur hugmyndafræðileg afstaða í veg fyrir hagkvæmni?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kemur hugmyndafræðileg afstaða í veg fyrir hagkvæmni?

Hugmyndafræðileg afstaða má ekki koma í veg fyrir að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta hjálpað til við að stytta biðlista eftir ýmsum aðgerðum. Margt bendir til þess að mun betur mætti gera í þessu efni ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og áhersla á opinbert rekstrarform sett til hliðar.

Hugmyndafræðileg afstaða má ekki koma í veg fyrir að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta hjálpað til við að stytta biðlista eftir ýmsum aðgerðum. Margt bendir til þess að mun betur mætti gera í þessu efni ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og áhersla á opinbert rekstrarform sett til hliðar.

Meira til opinberrar heilbrigðisþjónustu
Þann 20. apríl sl. var á Stöð 2 viðtal við landlækni um málefni Klíníkurinnar Ármúla. Skoðun landlæknis er að um sé að ræða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sem þurfi lögum samkvæmt leyfi ráðherra til að opna fimm daga legudeild auk staðfestingar frá embætti landlæknis á að faglegar lágmarkskröfur væru uppfylltar.

Það vakti athygli að í viðtalinu vitnar landlæknir í þá óbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram komi að fjármagn eða raunútgjöld ríkisins til einkareksturs hafa aukist síðustu árin um 40 prósent, meðan þau hafa nánast staðið í stað til opinbers reksturs. Umrædd skýrsla hefur nú verið birt opinberlega.

Landspítalinn hefur fengið milljarða króna í auknar fjárveitingar á síðustu árum. Engu að síður birtast reglulega fréttir af alvarlegu ástandi á Landspítalanum sem er yfirfullur af sjúklingum sem ættu að dvelja í ódýrari úrræðum.

Ef rýnt er í opinberar tölur um framlag ríkisins til heilbrigðismála verður ekki annað séð en að framlag ríkisins til opinberrar heilbrigðisþjónustu hafi hækkað að raungildi ekki síður en til einkarekinnar þjónustu.

Framlag til opinberrar heilsugæslu hefur hækkað umtalsvert meira en til einkarekinnar. Mikil hækkun á framlagi ríkisins til sérfræðiþjónustu skýrist einkum af ákvörðun ráðherra um að hækka greiðsluþátttöku ríkisins vegna sérfræðilækna með eigin stofur úr 58% í 68% og greiðsluþátttöku ríkisins í tannlæknaþjónustu á árunum 2013 og 2014.

Aukin hagkvæmni og betri þjónusta

Þá hefur stytting legutíma, ný lyf og ný tækni á undanförnum árum gert kleift að flytja þjónustu frá sjúkrahúsum til sérfræðilækna. Þessi þróun hefur átt sér stað vegna þess að hún er hagkvæm og gefur kost á betri þjónustu við sjúklinga. Útgjöld ríkissjóðs til einkarekinnar heilbrigðisstarfsemi á sér stað á grundvelli samninga og unnt er auðveldlega að meta umfang og framleiðni þeirrar þjónustu. Einkarekstur fjármagnaður af ríkinu hefur ekki þróast „nánast stjórnlaust“ líkt og landlæknir fullyrðir í áðurnefndu viðtali.

Laun hækka og biðlistar lengjast
Umfang og framleiðni opinberrar heilbrigðisstarfsemi er ekki jafn gegnsæ og á við um einkarekstur. Landspítalinn hefur fengið milljarða króna í auknar fjárveitingar á síðustu árum. Engu að síður birtast reglulega fréttir af alvarlegu ástandi á Landspítalanum sem er yfirfullur af sjúklingum sem ættu að dvelja í ódýrari úrræðum. Svo virðist sem ríkið og viðsemjendur þess hafi ákveðið að langstærstur hluti þessa fjár skuli renna til launahækkana starfsfólks en ekki til þess að bæta þjónustu við sjúklinga.

Bið sjúklinga eftir brýnum aðgerðum eins og liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum lengist frekar en styttist með tilheyrandi óþægindum. Þrátt fyrir sérgreind framlög úr ríkissjóði til Landspítalans til að stytta biðlista virðist árangurinn takmarkaður.

Í október 2015 voru um 2.700 sjúklingar á biðlista eftir framangreindum aðgerðum á Landspítalanum. Af þeim höfðu um 2.000 sjúklingar beðið lengur en þrjá mánuði eða 75%. Ári síðar voru 2.500 sjúklingar á biðlista eftir framangreindum aðgerðum á Landspítalanum. Af þeim höfðu 2.040 beðið lengur en þrjá mánuði eða 82%.

Samtök atvinnulífsins