Samkeppnishæfni - 

31. maí 2017

Hvaða áhrif hefur Brexit á íslensk fyrirtæki?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvaða áhrif hefur Brexit á íslensk fyrirtæki?

Samningarviðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr ESB hefjast senn af fullum þunga en úrsagnarferlið hófst formlega 29. mars.

Samningarviðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr ESB hefjast senn af fullum þunga en úrsagnarferlið hófst formlega 29. mars.

Óvissa ríkir um hver endanleg útkoma samningaviðræðnanna verður en miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf enda Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga.

Þess má geta að Íslendingar fluttu út vörur til Bretlands árið 2015 fyrir 73 milljarða króna og til landsins fyrir 35 milljarða króna. Þetta er um 12% af öllu útflutningsverðmæti Íslands og 5% af innflutningi til landsins.

Skráðu þig á Brexit-póstlista SA og fáðu nýjustu fréttir og greiningar um málið þegar þær birtast.

Umfang þjónustuviðskipta var líka mikið en útflutt þjónusta nam 66 milljörðum króna þetta ár sem var um 11% af heildar þjónustuútflutningi en innflutt þjónusta var um 66 milljarðar króna eða um 18% af heildarinnflutningi.

Brexit fréttir SA
Samtök atvinnulífsins munu fylgjast vel með framvindu mála og upplýsa stjórnendur fyrirtækja eftir því sem mál skýrast en hægt er að skrá sig á sérstakan Brexit-póstlista SA hér að neðan til að fá nýjustu fréttir og greiningar þegar þær birtast.

Í júní verður fyrsta greining SA á Brexit og áhrifum þess á íslenskt atvinnulíf birt. SA vinna náið með Business Europe (samtökum atvinnulífsins í Evrópu), CBI breskum systursamtökum SA og íslenskum stjórnvöldum til að greina málið.

Skammur tími til stefnu
Bretland hefur innan við tvö ár til að komast að samkomulagi við ESB um hvernig staðið verður að útgöngu landsins úr sambandinu. Samningaviðræðurnar má þó framlengja ef öll aðildarríki samþykkja það og hefur verið lýst efasemdum um að raunhæft sé að ljúka þeim fyrir 29. mars 2019, sérstaklega ef þær leiða til þess að Bretar ákveði einnig að standa utan við innri markað Evrópu.

Hvað gerist?
Skiptar skoðanir eru um hversu langt Bretar muni ganga í viðskilnaðinum við ESB. Theresa May, forsætisráðherra Breta, hefur sett fram tólf markmið í viðræðunum við Evrópusambandið.

Í þeim felst meðal annars að Bretar vilja taka lagasetningarveldið í eigin hendur á ný, stjórna því hverjir geti ferðast til landsins, að réttindi Breta innan landa Evrópu verði tryggð og að réttindi Evrópubúa innan Bretlands verði jafnframt skilgreind. Þá vilja Bretar tryggja frjáls viðskipti við lönd Evrópu og gera nýja viðskiptasamninga við lönd utan ESB.

Markmiðin stangast á við einn þátt fjórfrelsis evrópska efnahagssvæðisins sem er frjálst flæði vinnuafls. Það eykur líkurnar á að skilnaðurinn verði erfiður og að Bretland muni á endanum standa utan innri markaðar ESB en það mun skýrast á komandi misserum. Niðurstöður bresku þingkosninganna sem eru fyrirhugaðar þann 8. júní gætu haft veruleg áhrif á samningaviðræðurnar.

Vinsamlegast skráðu þig á póstlista SA hér að neðan ef þú vilt fá  nýjustu fréttir og greiningar SA um Brexit sendar í tölvupósti.

Brexit-póstlisti SA

Umsóknarferli er lokið.

 

 

 

Samtök atvinnulífsins