Fréttir - 

29. desember 2017

Hvað ber árið 2018 í skauti sér?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvað ber árið 2018 í skauti sér?

Morgunblaðið spurði framkvæmdastjóra SA í vikunni, hvaða breytingar hann myndi vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra SA. Halldór Benjamín Þorbergsson hafði þetta að segja.

Morgunblaðið spurði framkvæmdastjóra SA í vikunni, hvaða breytingar hann myndi vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra SA. Halldór Benjamín Þorbergsson hafði þetta að segja.

„Lækkun tryggingagjalds er þar efst á blaði. Á fjölmörgum opnum fundum SA um Ísland í haust var kallað mjög skýrt eftir því að stjórnmálaflokkarnir standi við ítrekuð fyrirheit sín um lækkun gjaldsins sem er of hátt og takmarkar getu fyrirtækja til nýsköpunar. Gjaldið mun á næsta ári skila hátt í hundrað milljörðum króna í ríkissjóð, en atvinnuleysið sem gjaldinu er ætlað að fjármagna er nánast horfið. Þetta ætti að setja í forgang og að mati SA er svigrúm til að  lækka gjaldið um eitt prósentustig.

Það er að hægja á vexti efnahagslífsins og ég heyri það á stjórnendum aðildarfyrirtækja SA að hjá mörgum verður þetta vetur hagræðingar. Stundum er mikið til skiptanna og stundum lítið og nú er ekki tími mikilla launahækkana. Stóra verkefni atvinnulífsins, stjórnvalda og launafólks er því að finna leiðir til að festa í sessi góð lífskjör sem aukinn kaupmáttur undanfarinna ára hefur fært landsmönnum.

Ég myndi síðan setja í forgang að bæta rekstrarumhverfi útflutningsfyrirtækja og þeirra sem eru að skapa nýjar vörur eða bjóða upp á nýja og framsækna þjónustu. Til að standa undir 3% hagvexti næstu 20 ár þarf íslenskt þjóðarbú til dæmis að auka útflutning um 1000 milljarða. Það jafngildir um einum milljarði á viku í nýjar útflutningstekjur næstu tvo áratugi. Það er alvöru áskorun en rétt að hafa í huga að ákvarðanir og fjárfestingar í dag eru útflutningstekjur í framtíðinni."

Samtök atvinnulífsins