Fréttir - 

14. desember 2017

Fjögurra ára óvissa

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjögurra ára óvissa

Það kennir ýmissa grasa í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, eins og hann heitir. Margt er óljóst eins og oft virðist vera með stjórnarsáttmála. Svo er eins og stjórnmálamenn eigi erfitt með að gíra sig niður eftir kosningabaráttuna. Kosningaloforð flokkana eru lögð saman og frekar bætt í þau heldur en hitt.

Það kennir ýmissa grasa í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, eins og hann heitir. Margt er óljóst eins og oft virðist vera með stjórnarsáttmála. Svo er eins og stjórnmálamenn eigi erfitt með að gíra sig niður eftir kosningabaráttuna. Kosningaloforð flokkana eru lögð saman og frekar bætt í þau heldur en hitt.

Stóra spurningin er hvað það mun kosta að hrinda sáttmálanum í framkvæmd. Ekki eru allir á eitt sáttir um það, og kannski ekki að ástæðulausu. Meðal þeirra rúmlega 5.600 orða sem eru í sáttmálanum er aðeins ein fjárhæð og fjórar prósentutölur. Svo eru ellefu ártöl, eitt hitastig og einn aldur. Orðið strax kemur tvisvar sinnum fyrir. Fólk og fyrirtæki renna því nokkuð blint í sjóinn með það hvað næstu fjögur ár bera í skauti sér. Það er vond staða.

Svona virðist þetta hafa verið lengi og þótt sáttmálinn sé óvenju langur í ár þá er hann ekki endilega skýrari en áður. Það eru bara fleiri atriði í honum. Ef stjórnendur fyrirtækis myndu staldra við og gera áætlun fyrir næstu fjögur ár þá er ansi ólíklegt að þeir myndu setja saman 20 blaðsíðna almennt orðað skjal þar sem fjallað væri um hitt og þetta. Líklegra er að sett yrði upp tímasett áætlun með fjárhæðum.

Líklegasta skýringin á því hve óljóst þetta er, er að stjórnmálamenn vilji ekki hnýta snöru fyrir kjósendur til að hengja sig í. Ef við gerum þá kröfu að stjórnmálamenn verði skýrari þá verðum við á sama tíma að sýna því meiri skilning að aðstæður og áætlanir geta breyst. Áætlun er enda bara áætlun, ekki bindandi loforð.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA. 

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. desember 2017

Samtök atvinnulífsins